03.05.1966
Efri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

72. mál, hægri handar umferð

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hv. l. þm. Vestf. og ég flytjum brtt. við frv. þetta. Hún er á þskj. 682, og er á þá leið, að IV. kafli frv., 12.–14. gr., falli burt. Í þessum kafla er um það fjallað, hvernig afla skuli fjár til þeirrar breytingar, sem fyrirhuguð er í frv. um umferðarreglur. Þar er gert ráð fyrir því að skattleggja sérstaklega bifreiðaeigendur næstu árin í tilefni af þessari breytingu. Þetta finnst mér ekki réttlát skattlagning.

Ég minntist lítillega á þetta við l. umr. málsins og skal ekki fjölyrða um það nú. Ég benti á, hvernig stöðugt væri vegið í þann sama knérunn að skattleggja bifreiðaeigendur, skattleggja bifreiðar, varahluti til bifreiða og allt, sem bifreiðum við kemur. Það er eins og sá mælirinn verði aldrei fullur að áliti þeirra, sem skattamálum stjórna. Ég held, að nú sé kominn tími til að nema staðar og athuga sinn gang, hvort það sé réttmætt að ganga þannig ár eftir ár á lagið og íþyngja bifreiðaeigendum sérstaklega og umfram aðra menn.

Það er vitanlegt, að breytingin, sem hér er fyrirhuguð, breytingin frá vinstri handar í hægri handar umferð, hefur mjög mikinn kostnað í för með sér. En ég tel ekki rétt, að ein stétt manna eða einn hópur manna í landinu sé sérstaklega eða eingöngu skattlagður þess vegna. Hér er vissulega um mál allrar þjóðarinnar að ræða, jafnt bifreiðaeigenda sem annarra og þess vegna á að jafna þessum kostnaði niður á alla landsmenn, en ekki einn fámennan hóp þeirra. Ég vil vekja athygli á þessu og við með flutningi þessarar brtt., en hún felur það sem sagt í sér, að horfið sé frá þessari skattlagningu og í þess stað verði ríkissjóður látinn greiða kostnaðinn.