23.04.1966
Efri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er stjfrv. um breyt. á I. nr. 59 19. júní 1960, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu landbúnaðarafurða o.fl., hefur verið til athugunar í landbn., og hefur verið rætt þar á nokkrum fundum. Samkomulag fékkst ekki um afgreiðslu þess. Meiri hl., þ.e. 5 nm., hefur skilað áliti, sem prentað er á þskj. 548, og leggur hann til, að frv. verði samþ. með tveimur smávægilegum breyt., þ.e. í fyrsta lagi, að við 3. gr. falli niður „og b“ í b-lið og síðustu mgr. Í öðru lagi við 16. gr. Í stað 2. gr. l. nr. 5 22. febr. 1949, um kjötmat o.fl., komi nýafgr. lög frá Alþ. um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Tveir nm., þeir Páll Þorsteinsson og Ásgeir Bjarnason, áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma, en einn nm., Björn Jónsson, hefur skilað séráliti á þskj. 542. Einn nm., Jón Árnason, var ekki viðstaddur, þegar málið var afgr.

Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða, en skammt til þingloka og er því áríðandi, að frv. fái skjóta og góða afgreiðslu hér í þessari hv. d. Svo sem kunnugt er, er frv. þetta að mestu leyti verk hinnar svo kölluðu 7 manna n., sem landbrh. skipaði á s.l. hausti, en verkefni þessarar n. var að leita eftir samkomulagsgrundvelli milli framleiðenda og neytenda, sem hægt væri að byggja afurðasölulöggjöfina á. Það náðist ekki samkomulag í þessari n., eins og allir vita, en 6 nm. sendu landbrn. samhljóða till. í frv.-formi í febr. s.l., og er frv., sem hér liggur fyrir, í öllum meginatriðum samhljóða till. þeirra. Ég veit, að allir hv. þdm. eru þessu máli svo kunnugir, að óþarfi er að fjölyrða um það að sinni.