23.04.1966
Efri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Í ágústmánuði s.l. sumar tilkynnti miðstjórn A.S.Í., að sambandið hefði ákveðið að draga til baka fulltrúa sinn í Sexmannanefnd, er ákveður verðlag á búvöru í landinu. Þessi ákvörðun kom mönnum yfirleitt mjög á óvart, því að A.S.Í. hafði í nærri tvo áratugi átt fulltrúa í þessari n., og það var ekki kunnugt um, að uppi væru neinar raddir innan þess um, að þessu fyrirkomulagi bæri að slíta og taka upp annað nýtt, þ.e.a.s. að semja við ríkisvaldið. A.S.Í. gerði opinbera grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli, og þar kemur þessi grundvallarstefnubreyting fram, að neytendur eigi ekki að hafa afskipti af verðlagsmálum landbúnaðarins, heldur sé það einungis málefni ríkisvaldsins og bænda, en hvorki talið rétt né æskilegt, að verkalýðssamtökin leggi þar hönd á milli og taki á sig hlutdeild í ábyrgð á lausn verðlagsmála landbúnaðarins. Þessi kúvending meiri hl. Alþýðusambandsstjórnar á sér enga stoð í samþykktum Alþýðusambandsþinga, og ég hygg, að hún eigi litinn hljómgrunn meðal bænda og neytenda, og hjá ríkisvaldinu hefur hin nýja stefna ekki fengið neinar undirtektir. En í þessari nýju stefnu meiri hl. Alþýðusambandsstjórnarinnar er í raun og veru kveðið svo á, að A.S.Í. telji sig ekki lengur vera einn af málsvörum neytenda í landinu. Þótt grundvallarástæðan fyrir brotthlaupi Alþýðusambandsfulltrúans úr Sexmannanefnd væri þannig nokkuð sérkennileg, hafði hún þann kost í för með sér, að óhjákvæmilegt reyndist að endurskoða lög um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu o.fl., þar eð Sexmannanefnd var orðin óvirk. Af þessu leiddi svo jafnframt, að á s.l. hausti varð að leysa verðlagsmál landbúnaðarins með brbl. Um það leyti, sem Alþ. kom saman í haust, skipaði hæstv. landbrh. sjö manna n. til þess að endurskoða framleiðsluráðsl. Aðilar að Sexmannanefnd tilnefndu hver um sig einn fulltrúa í n. þessa og þ. á m. A.S.Í. Þessi sjö manna n. hefur fyrir nokkru lokið störfum. Er þetta frv., sem hér liggur fyrir, að mestu leyti byggt á niðurstöðum, sem 6 af 7 nm. urðu ásáttir um, en einn nm., forseti A.S.Í., hafði algera sérstöðu. Í frv. þessu felast margar og mikilvægar breyt. á landbúnaðarlöggjöfinni, sem stefna í rétta átt. Helztu breyt. eru þessar:

1. Sexmannanefnd er gerð virk á nýjan leik og tryggt, að hún geti haldið áfram störfum, þótt einhver hlaupist á brott úr n.

2. Neitunarvald innan Sexmannanefndar afnumið og einfaldur meiri hluti látinn ráða úrslitum mála.

3. Náist ekki samkomulag innan Sexmannanefndar, skal sáttasemjari ríkisins taka deilu til meðferðar, áður en henni er vísað til úrskurðar yfirnefndar.

4. Búreikningaskrifstofa ríkisins skal árlega afla rekstrarreikninga frá bændum, er verði m.a. til afnota fyrir Sexmannanefnd.

5. Sexmannanefnd getur ákveðið, ef þrír eða fleiri nm. krefjast þess, að efna til sérstakrar rannsóknar á framleiðslu- og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara, vinnutíma o.fl. Skylt er einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum að láta rannsóknarmönnum í té nauðsynlegar upplýsingar.

6. Verðlagsgrundvöllur búvöru skal frá haustinu 1967 að telja gilda í tvö ár í senn í stað eins árs eftir gildandi I.

7. Kaup bóndans skal miða víð ársvinnutíma hans virtan til samræmis við kauptaxta verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna. Þó skal eigi taka til viðmiðunar ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna né aflahlut sjómanna. Er með þessu felld niður sú viðmiðunarregla, er gilt hafði í framkvæmd, að miða kaup bóndans við úrtak árstekna framantalinna atvinnustétta.

Hér að framan hef ég talið upp í 7 liðum þær meginbreytingar á búvöruverðlagslöggjöfinni, sem ég álit, að felist í þessu frv. Annars vegar miða þessar breyt. að því að taka upp nýja og betri starfshætti og efla ýmis konar rannsóknarstarfsemi, hvort tveggja í því skyni að auka líkurnar fyrir því, að samkomulag takist um búvöruverðið. Hins vegar miða breyt. að því að draga úr víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags og spyrna þannig fæti við verðbólguþróun í landinu. Á ég þar einkum við ákvæði um lengingu gildistíma verðlagsgrundvallarins úr 1 ári í 2 ár og bannið við því að miða kaup bóndans við ákvæðisvinnukaup verkamanna og iðnaðarmanna og aflahlut sjómanna. Með þeim reglum, sem settar eru í þessu frv. um, hvernig reikna skuli út árskaup bónda á meðalbúi, er að lokum viðurkennt sjónarmið þeirra manna, sem lengi hafa haldið því fram, að það sé eigi réttmætt að hækka árstekjur bóndans vegna þess, að verkamenn og iðnaðarmenn leggja á sig lengri vinnudag en áður eða vegna þess að hlutarsjómenn hafi góðan aflahlut, sem að jafnaði er fenginn með mjög löngum vinnudegi og miklu vinnuálagi. Því hefur verið haldið fram, að verðlagsákvörðun landbúnaðarvöru miðað við bú af tiltekinni stærð, þ.e. vísitölubú eða meðalbú, sé í eðli sínu sambærileg við ákvörðun ákvæðisvinnutaxta. Bóndinn fái með þeim hætti tiltekið árskaup fyrir að framleiða ákveðið magn af mjólk, kjöti eða annarri búvöru. Þetta getur verið rétt, ef horft er á hvern einstakan bónda út af fyrir sig. T.d. getur afkastamikill bóndi á meðalbúi náð framleiðslumarkinu með færri ársvinnutímum en almennt gerist. Afkastamikill bóndi á stórbúi getur farið yfir framleiðslumark meðalbúsins á sama ársvinnustundafjölda og ætlaður er bónda á meðalbúi. Þar sem viðmiðunin er meðalbú og meðalársvinnutími, hlýtur sá bóndi, sem er mikilvirkur, að hafa að öðru jöfnu meiri árstekjur en sá, sem er seinvirkur. Frá þessum sjónarhóli séð má því segja, að verðgrundvöllur búvöru sé ákvæðisvinnugrundvöllur fyrir bóndann. En sé litið á bændastéttina í heild, horfir málið öðru visi við. Aukin framleiðsla og stækkandi meðalbú leiðir ekki til aukinna tekna, því að árstekjur meðalbóndans eru hinar sömu, hvort sem meðalbúið er stórt eða lítið, ef ársvinnutíminn er hinn sami. Hver einn bóndi getur því aðeins bætt hag sinn, að hann auki framleiðsluna meira en nemur meðaltalsaukningunni hjá öllum bændum landsins miðað við hlutfallslegan rekstrarkostnað óbreyttan. En þeir, sem hafa minni framleiðsluaukningu eða standa í stað, dragast að sama skapi aftur úr.

Gera má ráð fyrir því, að sjávarútvegur og iðnaður muni smátt og smátt á næstu árum geta greitt launþegum í þessum atvinnugreinum hærri grunnlaun vegna vaxandi tækniþróunar og betra skipulags. Þessara launahækkana verður bændastéttin einnig aðnjótandi, þar sem kaupgjald bóndans skal á hverjum tíma miðað við laun verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna. Er þá komið að öðrum höfuðannmarka verðlagningarlöggjafarinnar, sem ég tel vera fyrir hendi, en eigi er bætt úr með þessu frv., en hann er sá, að aukningin á launatekjum bænda er miðuð við það, hvað sjávarútvegur og iðnaður geta látið af hendi rakna, en ekki það, hvað landbúnaðurinn sjálfur kann að verða fær um. Ég tel því, að laun bóndans ættu í framtíðinni að hækka í samræmi við þá viðmiðun eina, að tiltekinn hluti af verðmæti þeirrar framleiðsluaukningar, sem landbúnaðurinn innir af höndum án tilsvarandi hækkunar á framleiðslukostnaði, falli bændunum í skaut sem launabót. Með því móti ættu bændur launakjör sín undir sínum eigin atvinnuvegi, en ekki öðrum atvinnuvegum, en það álít ég heilbrigðast og bændum mest að skapi.

Annar höfuðannmarki þessa frv. er sá, að eigi skuli hróflað við ákvæðum I. um útflutningsuppbætur. Gildandi ákvæði um uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir voru sett á Alþ. veturinn 1959–1960. Var áætlað í fjárl. ársins 1960, að útflutningsuppbætur næmu 5 millj. kr. á því ári, en í fjárl. yfirstandandi árs er gert ráð fyrir, að þær nemi 214 millj. kr. Eru þessar bætur komnar í hámark, þ.e.a.s., þær nema þá 10% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar og hrökkva eigi til, því að bændastéttin sjálf verður að taka á sig um 80 millj. kr. á ári vegna þess, að útfluttar landbúnaðarafurðir seljast ekki nema fyrir brot af framleiðslukostnaðarverði. Á útfluttar mjólkurafurðir, osta, mjólkurduft og smjör, þarf að greiða yfir 300% uppbætur til þess að ná framleiðslukostnaðarverði. Þetta sýnir okkur ljóslega, að stefnan í framleiðslumálum landbúnaðarins þarf endurskoðunar við. Þjóðfélagið getur ekki til lengdar staðið undir svona miklum uppbótagreiðslum, enda verður það að teljast efnahagsleg fásinna að auka framleiðslu á vörum, sem þurfa stórfelldrar meðgjafar úr sjóði skattborgaranna. Ég lít svo á, að nauðsynlegt sé að draga úr útflutningsuppbótagreiðslunum í áföngum og stefna að því, að eigi verði greiddar hærri uppbætur en 100% á neina vörutegund. Vandinn er hins vegar sá að draga úr uppbótunum án þess að skerða kjör þeirra bænda, sem hafa lítil bú, en þeir eru tekjulægsta stétt þjóðfélagsins. Ég vil ekki halda því fram, að sá vandi sé auðleystur. Til að leysa þetta mál þarf sennilega að grípa til margvíslegra samræmdra aðgerða. Ég nefni sem dæmi að stöðva stofnun nýbýla, að styrkja smábændur til að auka sauðfjárrækt, að ríkið kaupi á viðunandi verði jarðir og byggingar á jörðum þeirra bænda, er vilja bregða búi. Einkanlega á þetta vel við um jarðir, sem eru illa í sveit settar, þar sem áframhaldandi búskapur krefðist mikilla ríkisframlaga til vegagerðar og rafvæðingar. Mönnum er að verða æ ljósara, að hér er um aðkallandi úrlausnarefni að ræða, og ég trúi því, að viðunandi lausn muni finnast á næstu árum, ef allir leggjast á eitt.

Í þessum umr. hefur komið fram, einkum af hálfu hv. 4. þm. Norðurl. e., sú skoðun, sem sett hefur verið fram af A.S.Í. nú í haust, að það séu ekki neytendur, sem eigi að semja um búvöruverðið við bændur, heldur eigi það að vera ríkisvaldið. Fulltrúi A.S.Í., sem var forseti sambandsins, hefur sett þessi sjónarmið A. S. Í. fram í þeim sértill., sem birtar eru hér í grg. með þessu frv. En þar tel ég í raun og veru, að kjarni hans till. komi fram í tölul. 3 á bls. 19, þar sem segir, að Stéttarsamband bænda fái með l. viðurkenndan óskoraðan samningsrétt fyrir hönd bænda um afurðarverð og launakjör. Síðan segir svo áfram:

„Takist samningar ekki, skal stjórn Stéttarsambands bænda leggja till. sínar um verð á framleiðslueiningu fyrir alla bændur, og skoðast till. samþ., fái hún 75% greiddra atkv., enda taki a.m.k. 50% atkvæðishærra bænda þátt í atkvgr.“

Hér hafði manni skilizt, áður en þetta birtist, að bændur ættu að fá samningsrétt við ríkið, en í raun og veru sýnist mér eftir þessu að dæma, að sá réttur, sem A.S.Í. ætlar bændum, sé miklu meira en venjulegur samningsréttur, því að þarna kemur skýrt fram, að ef samningar takast ekki, geta bændur með einfaldri atkvgr. lögfest kröfur sínar, og verða þær þá gildandi ákvörðun um verð á búvöru. Í raun og veru væri þetta hliðstætt því, að Dagsbrún hér í Reykjavík setti fram kröfur sínar og hæfi svo viðræður við Vinnuveitendasamband Ísland og þær viðræður bæru ekki árangur, þá gætu Dagsbrúnarmenn með einfaldri atkvgr. samþ. kröfur sínar og sú samþykkt Dagsbrúnarmanna gerði þessar kröfur að bindandi samningi, þannig að ég tel að eins og þetta kemur fram, sé það algert rangnefni að vera að tala um það, að ríkið hafi nokkurn samningsrétt við baendur eftir þessum till., heldur sé það aðeins minni háttar viðræðuréttur, og hafi þá bændur þetta í raun og veru allt í sínum höndum. Í grg. með þessu frv., á bls. 9, birta bændafulltrúarnir í þessari sjö manna n. rök sín fyrir því, að þeir telja sig ekki geta fallizt á það að semja við ríkisvaldið þannig að það liggur alveg ljóst fyrir, að bændur vilja semja við neytendur og hafa unað því vel undanfarna tvo áratugi. Í þessari grg. með frv. segir svo, með leyfi forseta:

Í fyrsta lagi: Ríkisstj. er ekki aðili að þeim viðskiptum, sem hér er um að ræða, heldur framleiðendur og neytendur búvöru. Í öðru lagi: Þar sem hlutverk ríkisstj. er auðvitað jöfnum höndum að gæta hagsmuna neytenda og framleiðenda, getur hún að okkar áliti ekki verið fulltrúi annars þessara aðila gagnvart hinum. Í þriðja lagi: Erfitt yrði að okkar áliti að tryggja það með löggjöf, að samningsaðstaða bænda gæti orðið svipuð því, sem nú er, þar sem við svo öflugan samningsaðila er að etja sem ríkisvaldið. Löggjöf sú, er tryggja ætti bændum slíka samningsaðstöðu, væri sett af ríkisvaldinu, framkvæmd af því og það hefði í hendi sér að breyta henni. Er því að okkar áliti hætt við, að allar ráðstafanir, sem í slíku efni ætti að gera, yrðu óraunhæfar. Í fjórða lagi getum við ekki látið hjá líða að benda á þá hættu, að miklu meiri ófriður yrði um búvöruverð en nú er, ef semja ætti um það milli ríkisstj. og bænda. Með aðild ríkisstj. að verðlagningunni væri hún dregin inn í hin almennu stjórnmálaátök,en slíkt teljum við hvorki bændum né neytendum í hag. Í fimmta lagi: Að síðustu bendum við á það, að miklu meiri líkur eru á því, að ákvæði 4. gr. framleiðsluráðsl. um það, að kaup bóndans skuli vera í samræmi við kaup annarra vinnandi stétta, megi verða raunhæf, ef fulltrúar hinna vinnandi stétta taka sjálfir þátt í því að ákvarða viðmiðunina en ef slík viðmiðun er ákveðin af ríkisstj. of bændum. Ég tel einmitt, að þarna komi fram góð og gild rök fyrir því af hálfu bænda, að þessu kerfi, sem svo lengi hefur gilt, beri í grundvallararriðum að halda áfram, þó að það þurfi að sjálfsögðu endurbóta við, eins og hér hefur komið fram í þessu frv.

Hv. 4., þm. Norðurl. e. gagnrýndi nokkuð skipun Sexmannanefndar og taldi, að það væri mjög vafasamt, að þessi stéttarsamtök, a.m.k. Sjómannafélag Reykjavíkur og Landssamband iðnaðarmanna, væru betri fulltrúar eða eðlilegri fulltrúar neytendanna í landinu en ýmis önnur samtök, og hann nefndi þar m.a. Sjómannasamband Íslands. Ég get út af fyrir sig fallizt á, að það er ákaflega mikið álitamál, hverja á að setja þarna fulltrúa neytenda, og þetta mætti bæta. Ég get vel fallizt á það, en þetta gaf mér tækifæri til að rifja það upp, að hér á Alþ. 1960 flutti ég einmitt brtt. um það, að í stað Sjómannafélags Reykjavíkur kæmi Sjómannasamband Íslands. Og ég man nú ekki betur en hv. ræðumaður greiddi atkv. á móti þeirri till. Mér þykir ánægjulegt, ef hann hefur skipt um skoðun.

Eins og ég hef rakið hér, tel ég, að öll þau meginatriði, sem felast í þessu frv., horfi til bóta, og þess vegna mun ég styðja þetta frv., þó að ég hins vegar telji, að æskilegt hefði veríð, að fleiri mikilvæg atriði hefðu verið tekin til endurskoðunar um leið.