25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Í a-lið 3. gr. er talað um heimild fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins til að ákveða mismunandi hátt útborgunarverð til framleiðenda eftir árstímum og innheimta verðjöfnunargjald af innveginni mjólk. Þarna er Framleiðsluráði falið skilyrðislaust að ákveða mismunandi verð til framleiðendanna, án þess að leita um það álits þeirra eða fá heimild til þess frá þeim sjálfum og sölufélögum þeirra. Í samþykktum sölufélaganna eru yfirleitt ákvæði um það, að framleiðendurnir fái raunhæft verð, þegar búið er að draga frá kostnaðinn og framlög til sjóða og annað slíkt, sem í samþykktunum er ákveðið, en þarna er heimild, sem hægt er að framfylgja, og þar með er í raun og veru valdið tekið af framleiðendunum sjálfum og heimafélögum þeirra. Framleiðsluráðið hefur heimild til þess að gera þetta án þess að spyrja um það. Ég get vel gengið inn á, að þetta sé nauðsynlegt á þeim svæðum, þar sem mikið er um mjólkursölu til neyzlu, en ekki þar sem sáralítið er selt. Ég vil ekki, að Framleiðsluráð hafi þar heimild til þess arna. Og þó því aðeins álít ég, að Framleiðsluráð eigi að hafa leyfi til að framkvæma þetta, að það liggi fyrir samþykktir frá félagsfundum eða a.m.k. stjórnum félagasamtakanna um, að þetta sé leyfilegt, það sé ekki hægt að gera þetta nema í samráði við þau. Ég skil það ofur vel, að þar sem mikil neyzlumjólkursala er, eins og hér á Reykjavíkursvæðinu, sé þetta nauðsynlegt, en þetta á að framkvæmast í samráði við þá, sem framleiða mjólkina, en ekki að fá einhverjum 4–5 mönnum alræðisvald í þessum málum. Þar, sem mjólk er aðallega unnin, er hrein og bein heimska að gera þetta. Það er ekki einhlítt að hækka vöruna endalaust. Nú þurfa bændurnir að breyta til, tæknin hefur vaxið og framleiðnin aukizt. Bændur hafa unnið stórvirki á því sviði, en nú þarf að fara að breyta til, nú þarf að fara að hugsa um að reka þetta af meiri hagsýni, því að við sjáum, að það er ekki einhlítt að hækka vöruna. Það eru takmörk fyrir, hvað neytendurnir vilja borga fyrir hana, og svo þegar þarf að flytja nokkurn hlut út, þarf náttúrlega að athuga þá hluti. Þess vegna verða bændur að fara að athuga þá hliðina líka að reyna að spara sem mest í rekstrinum. Það er miklu ódýrara að framleiða sumarmjólk en vetrarmjólk, og þar sem nær eingöngu er unnið úr mjólkinni, er ekki nema sjálfsagt að gera það. Það, sem við fyrst og fremst eigum að spara í búrekstrinum, eru fóðurbætiskaupin.

Ég get vel gengið inn á það, að frv. þetta sé að ýmsu leyti til bóta, en heldur finnst mér, að þeim góðu mönnum hafi yfirsézt í messunni fyrir hönd bænda. Vil ég nefna þar 5. gr. frv., sem virðist eiga við 4. gr. I. Annars finnst mér einkennilegt að prenta frv. ekki í heilu lagi fremur en að bæta þessu inn í gömlu l. Hefði frv. verið prentað í heild, væri mun auðveldara að átta sig á því. Ég skil ekki, að það hefði kostað svo mikla fyrirhöfn. En náttúrlega er hægt að bera þetta saman og við gerum það að sjálfsögðu í n. En hér er sagt í 5. gr.:

„Í verðlagsgrundvelli skal, sbr. ákvæði 6. gr., tilfæra ársvinnutíma bóndans, skylduliðs hans og hjúa á búi af þeirri stærð, sem miðað er við hverju sinni, og virða vinnutíma til samræmis við kaupgjald verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eins og það er við upphaf hvers verðlagstímabils.“

Ég man ekki alveg gömlu I. Er þetta eins og það var í gömlu l. eða er þetta allt nýmæli, þetta orðalag? En það hefur víst verið svoleiðis, að það hefur verið reynt að reikna út eftir framtölum á skattskrá vinnulið bóndans. Ef á að fara þá leið að taka þetta algerlega raunhæft miðað við þau bú, sem gera búreikninga, getur það breytt dálitlu, en ég held, að það sé dálítið erfitt að virða raunhæft vinnutíma sveitafólks, ef það á að líta eftir tíma sínum sjálft. Þetta er unnið svona á ýmsum tímum sólarhringsins og atvinnan er þannig, að það verður dálítið erfitt. Þó verður þetta vafalaust hægt t.d. á tilraunabúi. Ég geri ráð fyrir, að við athugum þetta nánar í n., berum það saman við eldri l. Þetta er þó ekki aðalatriðið. En svo segir áfram í gr., að þetta eigi að miða við kaupgjald verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eins og það er við upphaf hvers verðlagstímabils. Svo heldur gr. áfram:

„Eigi skal þó taka til viðmiðunar ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna né aflahlut sjómanna.“ Það á að miða við verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn, en þó má ekki taka til greina við viðmiðunina ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna né aflahlut sjómanna. Og formaður A.S.Í. sagði hér áðan, að það væri heppilegra fyrir bændur, að ekki væri miðað við aflahlut sjómanna, hann gæti bara orðið svo lágur. En þarna er sagt, að miða eigi við kaupgjald sjómanna, en bara ekki aflahlut þeirra, m.ö.o., kaupgjald sjómanna yrði tryggingin og það getur aldrei orðið minna en tryggingin. Þess vegna getum við ekki grætt á því að miða ekki við aflahlut sjómanna. Þarna kemur inn nýtt atriði, sem er ákaflega flókið og nær óframkvæmanlegt. En það er bara ómögulegt fyrir bændur að græða á þessari breytingu, því að þeir hafa aðeins lágmarkskaup sjómannsins. Þótt sjómaðurinn fiski ekki neitt, getur kaup hans aldrei orðið lægra en tryggingin. Og það á að miða við hana eftir þessu, það er ekki hægt annað, því að ekki má miða við aflahlutinn. Alveg eins er með iðnaðarmenn, það er nær enginn iðnaður í landinu nema með ákvæðisvinnu og það er ekki verið að tala um uppmælingar, það er bara sagt hér ákvæðisvinnu verkamanna, iðnaðarmanna og aflahlut sjómanna. Við vitum það með allan uppslátt t.d. hér á húsum, það er allt ákvæðisvinna. Þeir vinna vafalaust vel, en þeir hafa svona 10–14 hundruð á dag, hugsa ég, smiðirnir. Sama er með steypuvinnuna, sama er með múrhúðunina, sama er með málninguna. Til hvers er verið að miða við iðnaðarmenn, ef ekki má miða við það kaup, sem þeir raunverulega hafa? Er þá ekki bara bezt að segja, að það eigi að taka tímakaup óbreytts verkamanns eða tímakaup iðnaðarmanns? Það dettur engum iðnaðarmanni í hug hér í þéttbýlinu að vinna fyrir venjulegt tímakaup. Ég held, að þetta fari að vera dálitið skrýtin viðmiðun. Svo er það ákvæðisvinna verkamanna, t.d. í frystihúsunum færist hún ört í vöxt. Það má vera, að það teldist nú iðnaður, það er ákvæðisvinna þannig að bóndinn gæti orðið langtum kauplægri en einhver konan, sem ynni ákvæðisvinnu í frystihúsi. Ég sé ekki, hvað þetta á að þýða, að miða við þessar stéttir og þó má ekki miða við það kaup, sem þær raunverulega hafa.

Ég skal játa það, að kjör sjómannsins eru önnur en bændanna, lífskjör þeirra. Þeir eru fjarri heimilum sinum og þeir eyða á þann hátt miklu meiri peningum og ég gæti fyrir mitt leyti fallizt á það að undanskilja þá.

En ég sé enga ástæðu til þess að taka aðeins tryggingu þeirra. Ef ekki má miða við hinar raunverulegu tekjur þeirra, þá sé bezt að þurrka þá alveg út, og það væri þá miklu nær að miða við það fólk, sem vinnur þjónustustörf í landinu, launafólk landsins, því að það er orðin svo fjölmenn stétt og hefur að því leyti svipuð kjör og bændur, að það getur dvalizt á heimilum sínum. En eins og þetta er þarna, sé ég ekki annað en það sé tóm vitleysa. Það á að miða við iðnaðarmenn og sjómenn og verkamenn, en megnið af þessum mönnum er komið í ákvæðisvinnu, og það má ekki miða við ákvæðisvinnu, þannig að ég sé ekki annað en samkv. þessu lagafrv. sé það bara algerlega tryggt, að bændur séu lægst launuðu mennirnir í landinu. Útilokað annað. Þeir eru með svipað kaup og mennirnir, sem vinna að gatnagerðinni, sem eru líklega þeir allra lægst launuðu.

Ég þekki til í vissum þorpum fyrir norðan, þar sem sjósókn er, og ég hef ekki trú á, að sjómenn liti við venjulegu verkamannakaupi. Þeir hafa meira upp úr að vera á hafinu, jafnvel þótt þeir séu á handfæraveiðum, ég tala nú ekki um grásleppuna. Ég hef ekki verið kröfuharðari fyrir bændur en aðrir menn og ekki hávaðasamur á því sviði, en þarna sýnist mér vera lætt inn ákvæðum, sem tryggja það, að þeir séu lægst launaða stétt landsins, og Ed. og þessi blessuð n. hafi látið þetta fram hjá sér fara. Og þetta eru nákvæmlega þær toppkröfur, sem hæstv. menntmrh. hefur verið að fara fram á hér. Bændur mættu ekki njóta þess, ef aflaðist vel. (Gripið fram í.) Ha, þetta er frá ríkisstj., já. N. hefur, að mér skilst, samþ. þetta. Ég heyrði ekki á ræðumanni hér áðan, að hann hefði nokkurn hlut við þetta að athuga. Hér er í raun og veru lögbundið, að bóndinn hlýtur að verða með eitthvað svipað kaup og gömlu mennirnir, sem eru að pjakka við að moka snjó hér á götunum og eitthvað þvíumlíkt, því að þeir eru raunverulega einu mennirnir hér í þéttbýlinu, sem vinna fyrir venjulegt tímakaup. Venjulegt tímakaup kemur bara yfirleitt ekki til greina núna, og ábyggilega lækkar kaupið nú ekki, þegar állinn er kominn, því að þá verður enn meiri eftirspurnin, þannig að ég sting nú við fótum, ef ég á að greiða atkv. með þessu svona orðuðu, og ég er dálitið hissa á Ed. að láta þetta fara fram hjá sér. Ég er nú enginn vitgarpur, en rek þó augun í þetta.

Þetta voru aðalveilurnar, sem ég hef rekið augun í, en ég hef ekki borið frv. nákvæmlega saman við eldri I. og ekki farið nógu ýtarlega gegnum það, svo að það getur vel verið, að það sé fleira. En þarna sé ég ekki annað en bændum séu fengin þau forréttindi að verða lágt launaðir og fyrri hl. gr. geti valdið óendanlegum deilum um vinnutíma fólksins í dreifbýlinu, því að það er sannleikur, að þó að bóndinn sé bundinn yfir búi sínu, eru vissir dagar í árinu, sem hann vinnur enga 8–10 tíma, en svo eru aftur aðrir dagar, sem hann vinnur miklu meira, og svo koma sunnudagar þar að auki, svo að það er dálítið erfitt að hverfa frá þessu, þannig að hann hafi svipuð kjör og aðrar stéttir. Það á að fara að miða við tímakaup bóndans eða tímavinnu réttara sagt, og svo er kaupið bundið við algert lágmark, lágmark, sem ekki er yfirleitt gildandi nú á vinnumarkaðinum nema rétt í einstaka stað.