02.05.1966
Neðri deild: 85. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Um alllangt skeið undanfarið hefur verð innlendra landbúnaðarafurða verið ákveðið af samstarfsnefnd framleiðenda og neytenda, sem skipuð hefur verið samkv. löggjöf um það efni, eða af eins konar gerðardómi, sem haft hefur embættismann, hagstofustjóra, að oddamanni. Þetta kerfi reyndist ekki starfhæft á s.l. hausti.

Var þess vegna með brbl. komið annarri skipan í það skipti á verðlagningu landbúnaðarafurða. Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að samstarf framleiðenda og neytenda um verðlagsmál landbúnaðarafurða sé endurvakið. Verður reynslan að skera úr því næsta haust, hvort það tekst eða ekki. Verður að vona, að það verðlagningarkerfi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, reynist starfhæft. Að öðrum kosti verður enn að leita nýrra leiða.

Þetta frv. fjallar eingöngu um breytta skipan á verðlagningu landbúnaðarafurðanna. En n. sú, sem samdi frv., ræddi um fleiri vandamál landbúnaðarins en það, hvernig verðlag afurðanna skuli ákveðið á innanlandsmarkaði. Hún var hins vegar ekki sammála um önnur atriði en þau, sem í frv. þessu felast. Skipun verðlagsnefndarinnar skv. þessu frv. er tvímælalaust hagfelldari en skv. þeim l., sem gilt hafa, og reglur þær, sem settar eru í frv. sem leiðbeining fyrir n. við verðákvörðunina, eru tvímælalaust skynsamlegri en þær reglur, sem nú eru í I. um það efni. En engu að síður fjallar þetta frv. ekki nema að mjög takmörkuðu leyti um þau vandamál, sem nú er við að etja í íslenzkum landbúnaði. N., sem frv. samdi, ræddi einnig ýtarlega um útflutningsbætur þær, sem nú eru greiddar vegna útflutnings landbúnaðarafurða, og gildandi lagaákvæði um það efni. Varð ekki samkomulag í n. um breytingu á gildandi lagaákvæðum um þessi atriði. Hins vegar er þar um mjög mikið vandamál að ræða, ekki aðeins fyrir landbúnaðinn heldur einnig fyrir íslenzkan þjóðarbúskap yfirleitt. Tel ég þess vegna rétt að gera þessi atriði, sem ekki varð samkomulag um í n., að umtalsefni í sambandi við þetta frv. og ræða vandamál landbúnaðarins í heild.

Á undanförnum árum hafa átt sér stað miklar og gagngerðar breytingar í íslenzku efnahagslífi. Hagvöxtur hefur á undanförnum árum verið örari en áður og hann hefur enn fremur verið meiri en í nágrannalöndunum. Þetta hefur sumpart átt sér stað vegna mjög hagstæðra skilyrða í framleiðslu og utanríkisviðskiptum og sumpart vegna skynsamlegrar stjórnarstefnu. Íslendingar eru nú í hópi þeirra þjóða, sem hafa hæstar þjóðartekjur á mann. Skýringarinnar á þessu er fyrst og fremst að leita í mjög mikilli framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi. Það eru fyrst og fremst mikil framleiðsluafköst í sjávarútveginum, sem eru undirstaða góðra lífskjara á Íslandi. Í öðrum atvinnugreinum er framleiðnin eflaust minni, þótt hún sé þar án efa mjög misjöfn. Engar öruggar skýrslur eru til um þessi efni, þannig að unnt sé að segja til um það með vissu, í hvaða atvinnugreinum og á hvaða sviði efnahagslífsins framleiðnin sé mest og minnst. En samkeppnishæfni íslenzkra atvinnugreina gagnvart erlendum atvinnuvegum hlýtur þó að teljast nokkur vísbending í þessu efni. Íslenzkur sjávarútvegur er fyllilega samkeppnisfær við sjávarútveg annarra fiskveiðiþjóða. Mestur hluti framleiðslu íslenzka sjávarútvegsins er seldur á heimsmarkaði í harðri samkeppni við afurðir annarra fiskveiðiþjóða og skilar samt framleiðendunum og þjóðarbúinu mjög miklum tekjum og meiri tekjum en framleiðendur sams konar afurða bera úr býtum í öðrum löndum.

Talsverður hluti íslenzks íðnaðar er án efa fyllilega samkeppnisfær við sams konar iðnað erlendis og hið sama á við um íslenzkar siglingar á sjó og í lofti. Um nokkurn hluta iðnaðarins á það hins vegar tvímælalaust við, að hann verður ekki talinn samkeppnisfær við sams konar iðnað erlendis, en dafnar hér í skjóli verndartolla. Erfitt er hins vegar að segja til um raunverulega samkeppnisaðstöðu íslenzkra viðskiptafyrirtækja og ýmiss konar þjónustufyrirtækja. En um íslenzkan landbúnað gildir það, að afurðir hans eru hvað verðlag snertir engan veginn samkeppnishæfar við afurðir landbúnaðarins í nálægum löndum og er samkeppnishæfni íslenzkra landbúnaðarafurða þó mjög misjöfn. Verðlag sumra þeirra, svo sem ullar og gæra, virðist samkeppnishæft við sams konar vöru erlendis. En framleiðslukostnaður allra annarra landbúnaðarafurða er miklu hærri hér en í nálægum löndum, einkum þó mjólkurafurða. Verðlag þeirra er erlendis aðeins brot af framleiðslukostnaði þeirra hér.

Á undanförnum árum hafa æ fleiri svið íslenzks efnahagslífs komizt í nánari snertingu við verðlag umheimsins og lagað sig að samkeppnisaðstæðum í heimsviðskiptunum. Í kjölfar aukins frjálsræðis í utanríkisviðskiptunum og lækkunar á tollum hefur aukinn hluti íslenzks viðskiptalífs og íslenzks iðnaðar og þá ekki sízt siglingarnar á sjó og í lofti lagað sig að verðlagsaðstæðum í umheiminum og reynzt samkeppnishæfur í heimsviðskiptunum. Um íslenzkan landbúnað er það að segja, að verðlag hans og framleiðslukostnaður hefur á undanförnum árum í vaxandi mæli fjarlægzt verðlag og framleiðslukostnað í viðskiptalöndunum. Verðlag á landbúnaðarafurðum hefur ekki farið hækkandi erlendis undanfarin ár. Hins vegar hefur framleiðslukostnaðurinn hér innanlands aukizt. Þetta gildir að sjálfsögðu einnig um aðrar atvinnugreinar, en sumpart hefur verðlag á vörum þeirra erlendis farið hækkandi og sumpart hefur framleiðni aukizt svo mjög, að þessar atvinnugreinar hafa getað staðið undir hinum hækkandi framleiðslukostnaði innanlands. Þetta á hins vegar ekki við um íslenzkan landbúnað. Verðlag á afurðum hans erlendis hefur ekki farið hækkandi. Þótt átt hafi sér stað mikil framleiðniaukning í landbúnaðinum, hefur hún ekki nægt til þess að vega upp á móti hinum hækkaða framleiðslukostnaði. Gildandi löggjöf hefur gert ráð fyrir því, að bændur hefðu tekjur, sem séu hliðstæðar tekjum launastétta við sjávarsíðuna. Bændur hafa því aðeins getað fengið þessar tekjur, að verðlag á afurðum þeirra hafi farið ört hækkandi og fjarlægzt heimsmarkaðsverðið á sams konar vörum í æ ríkara mæli. Bilið milli þess verðs, sem nú er orðið nauðsynlegt á íslenzkum landbúnaðarafurðum til þess að íslenzkir bændur geti haft sambærilegar tekjur við launastéttir við sjávarsíðuna, og heimsmarkaðsverðsins á afurðum þeirra er nú orðið svo mikið, að þar er orðið um að ræða eitt alvarlegasta efnahagsvandamálið, sem við er að etja í íslenzkum þjóðarbúskap.

Enginn ágreiningur er um það, að eðlilegt er og sjálfsagt, að stundaður sé landbúnaður á Íslandi. Það er ekki aðeins eðlilegt og sjálfsagt af sögulegum og félagslegum ástæðum, heldur er það einnig eðlilegt og sjálfsagt vegna afkomuöryggis þjóðarinnar. Það hefur alltaf verið hægt að fá flestar þær vörur, sem íslenzkur landbúnaður framleiðir, fyrir lægra verð frá útlöndum. Að þessu leyti má því segja, að Íslendingar búi við lakari lífskjör en ella, vegna þess að þeir vilja sjálfir framleiða helztu landbúnaðarafurðirnar, sem þeir neyta. En enginn ágreiningur er um, að þetta eiga Íslendingar að gera, þótt það valdi því, að þeir þurfa að greiða meira fyrir landbúnaðarafurðirnar en ella. Hins vegar ber enga nauðsyn til þess, að Íslendingar framleiði landbúnaðarafurðir til útflutnings. Ef Íslendingar gætu selt landbúnaðarafurðir erlendis fyrir framleiðslukostnaðarverð, væri sú framleiðsla eðlilegur þáttur í þjóðarbúskapnum. En ef framleiðslukostnaðurinn er meiri en útflutningsverðið, rýrir það þjóðartekjurnar að sama skapi. Það, sem verið hefur að gerast að þessu leyti undanfarin ár, er, að framleiðsla íslenzks landbúnaðar hefur vaxið mun meir en neyzlan innanlands og hefur þess vegna orðið að flytja landbúnaðarafurðirnar til útlanda í vaxandi mæli, en útflutningsverðið hefur ekki verið nema nokkur hluti framleiðslukostnaðarins innanlands og raunar lækkandi hluti á undanförnum árum. Þessi útflutningur hefur beinlínis rýrt þjóðartekjurnar. Hann hefur rýrt þær í vaxandi mæli á undanförnum árum, og fyrirsjáanlegt er, að hann muni halda áfram að rýra þær í ört vaxandi mæli, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það. Þetta er vandamálið, sem ég ætla hér að ræða og tel, að nú sé orðið eitt brýnasta vandamál íslenzks efnahagslífs.

Það er ómótmælanlegt, að þegar framleiðsluvörur eru fluttar til útlanda fyrir mun lægra verð en nemur framleiðslukostnaðinum innanlands, rýrir það þjóðartekjurnar. Mismun framleiðslukostnaðarins og útflutningsverðsins verður að greiða úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Þangað til fyrir fáum árum voru þessar útflutningsbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir tiltölulega lítil fjárhæð. Fyrir fimm árum eða 1961 námu þessar útflutningsbætur 21 milljón, en á þessu fimm ára tímabili hafa þær tífaldazt og eru nú í ár áætlaðar 214 millj. kr. Gildandi lög gera ráð fyrir því, að útflutningsbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir geti numið 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Meðan útflutningurinn er ekki meiri en svo, að nauðsynlegar útflutningsbætur séu innan þessa ramma, nægja þær til þess, að bændur fái sama verð fyrir útflutninginn og þær vörur, sem seldar eru á innanlandsmarkaði. Neytendurnir greiða óbeint mismuninn á framleiðslukostnaðinum og útflutningsverðinu. En ef útflutningur er meiri en svo, að heimilt sé að greiða útflutningsbætur vegna hans, þá rýrir útflutningur fyrir lægra verð en svarar til framleiðslukostnaðar beinlínis tekjur bændastéttarinnar. Þá er svo komið, að útflutningurinn rýrir ekki aðeins heildarþjóðartekjurnar, heldur skerðir beinlínis tekjur sjálfra framleiðendanna, bændanna.

Á undanförnum árum hefur landbúnaðarútflutningurinn verið að rýra heildarþjóðartekjurnar í vaxandi mæli, en nú á þessu ári er svo komið, að landbúnaðarútflutningurinn er beinlínis farinn að skerða tekjur bændastéttarinnar sjálfrar í alvarlegum mæli, og augljóst er, að hann mun ekki aðeins halda áfram að rýra heildarþjóðartekjurnar í vaxandi mæli á næstu árum, heldur mun hann einnig skerða tekjur sjálfrar bændastéttarinnar svo mjög á næstu árum, ef ekkert er að gert, að þar er um mjög alvarlegt vandamál að ræða.

Þessar staðhæfingar skal ég nú skýra nokkru nánar. Framleiðsla landbúnaðarafurða er nú mun meiri en þörf er fyrir innanlands og sérstaklega þá framleiðsla mjólkurafurða. Umframframleiðsla mjólkur er um 25 þúsund tonn, eða um fimmtungur heildarframleiðslunnar. Umframframleiðsla sauðfjárafurða svarar á hinn bóginn til um 6% heildarverðmætis þeirra. Sé öll framleiðsla mjólkur- og sauðfjárafurða verðlögð á útflutningsverði, kemur í ljós, að það verð gefur bændum um 20% þess grundvallarverðs, sem þeim nú ber á innlendum markaði. Hlutfallið á milli grundvallarverðs til bóndans og þess verðs, sem bóndinn mundi fá fyrir útfluttar afurðir, er þó mjög ólíkt eftir því, hvort um er að ræða afurðir kúabúanna eða sauðfjárbúanna. Útflutningsverð sauðfjárbúanna er 35% grundvallarverðsins, en útflutningsverð kúabúanna aðeins 11% grundvallarverðsins. Nú er auðvitað ekki nema nokkur hluti afurðanna flutt út, en þessi gífurlegi munur útflutningsverðsins og grundvallarverðsins gefur þó vísbendingu um, hvílík þjóðfélagsbyrði því er samfara, að framleiðslan skuli vera meiri en innanlandsneyzlan, þannig að flytja þarf þessa vöru til útlanda.

Það ætti að mega teljast augljóst, að það getur ekki gengið til frambúðar, að greitt sé árlega á þriðja hundrað milljóna króna úr sameiginlegum sjóði landsmanna til styrktar framleiðslu, sem seld er til útlanda fyrir lítið brot af framleiðslukostnaði, og hitt ætti sömuleiðis að mega teljast augljóst, að ekki getur talizt nokkurt vit í því, að íslenzkir bændur stundi framleiðslu, sem beinlínis rýrir tekjur þeirra, þ.e.a.s. framleiði vöru, sem þeir fá minna en ekki neitt fyrir. Slíka öfugþróun verður að stöðva, og þeim mun fyrr sem hún er stöðvuð, þeim mun betra.

Sú skoðun hefur heyrzt, að fólksfjölgun muni verða svo ör á Íslandi á næstu árum og áratugum, að það muni vega upp á móti framleiðsluaukningunni, en hér er um mikinn misskilning að ræða. Framleiðsluaukningin á landbúnaðarvörunum hefur á undanförnum árum verið mun meiri en fólksfjölgunin, og ekkert bendir til þess, að þetta muni breytast á næstu árum, ef ekkert er að gert.

Einnig hefur verið um það rætt, að leiðin út úr ógöngunum sé fólgin í því að auka sauðfjárframleiðsluna, en draga að sama skapi úr mjólkurframleiðslunni, en það mun ekki heldur leysa vandann. Þótt framleiðsla mjólkurafurða og annarra nautgripaafurða yrði minnkuð um 20% og sauðfjárframleiðslan aukin að sama skapi, yrðu útflutningsuppbætur að nema um 240 millj. kr., til þess að bændur fengju fullt grundvallarverð fyrir afurðirnar, en það er næstum 30 millj. meira en bændur geta fengið í útflutningsbætur samkv. gildandi lögum og miðað við núverandi heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Jafnvel þótt mjólkurframleiðslan yrði minnkuð um 20% og sauðfjárframleiðslan aukin að sama skapi, yrði útflutningurinn að vera meiri en svo, að uppbætur á hann yrðu innan núgildandi takmarka. Eftir sem áður hefðu bændur beint tjón af útflutningsframleiðslunni, þ.e.a.s. hún beinlínis rýrði tekjur þeirra.

Ef reynt er að gera sér grein fyrir framtíðarhorfunum í þessu efni, er niðurstaðan þessi: Neyzlan innanlands mun vart aukast meira en um 2% á ári næstu árin, enda er neyzla landsmanna á mjólk og mjólkurafurðum og kjöti mjög há, miðað við önnur lönd. Hins vegar hefur heildarframleiðsla landbúnaðarins aukizt um ca. 4% undanfarið og framleiðsla mjólkur- og nautgripaafurða hefur aukizt enn miklu örar, eða um 7%.

Miðað við þær forsendur, að heildarframleiðsla landbúnaðarins haldi áfram að aukast með sama hraða og verið hefur, þ.e.a.s. 4% á ári, jafnframt því sem nokkuð drægi úr mjólkurframleiðslu, eða úr 7% í 5% á ári, en kjötframleiðsla aukist sem því svarar, má gera ráð fyrir, að mjólkurframleiðslan á framleiðsluárinu 1970–1971 yrði 162 þús. tonn, eða um 50 þúsund tonnum meiri en innanlandsnotkunin. Umframframleiðsla, sem flytja þyrfti út, yrði þá m.ö.o. um það bil tvöföld á við það, sem hún er nú. Umframframleiðsla kindakjöts mundi þá vera orðin 3300 tonn, en er nú um 2500 tonn. Útflutningsbætur þyrftu þá á framleiðsluárinu 1970–1971 að nema a.m.k. 475 millj. kr. Þær yrðu m.ö.o. um 185 millj. kr. hærri en þær eru nú.

Þótt mjólkurframleiðsla yrði minnkuð, eins og ég gerði ráð fyrir áðan, um 20% og sauðfjárframleiðslan aukin að sama skapi, yrði útflutningsbótaþörfin enn óeðlilega há. Útflutningsbæturnar yrðu að nema 395 millj. kr. og yrðu þannig 103 millj. kr. hærri en þær eru nú.

Sökum þess, að margir virðast telja, að lausnin á vandamálum landbúnaðarins sé fólgin í því, að framleiðslan beinist frá mjólkurafurðum til sauðfjárafurða, er vert að benda sérstaklega á þessar niðurstöður. Jafnvel þótt hlutföllin á milli framleiðslu mjólkurafurða og sauðfjárafurða breyttust þannig, að mjólkurframleiðslan verði, eins og ég hef sagt, 20% minni en nú, má gera ráð fyrir, að þörfin á útflutningsbótum verði eftir fimm ár orðin 35% meiri en nú.

Þetta er allmiklu betri útkoma en fást mundi með áframhaldandi aukningu í mjólkurframleiðslu, en hún felur samt í sér, að vandinn heldur áfram að aukast. Þar við bætist, að ekkert bendir til þess, að auðvelt sé að ná þeirri breytingu á hlutföllum framleiðslunnar, sem hér er gert ráð fyrir. Það er einmitt í þeim héruðum, þar sem skilyrðin fyrir mjólkurframleiðslu eru bezt, sem mestar framfarir hafa orðið í landbúnaði og fjárfesting hefur verið mest. Verðlag á mjólkurafurðum er bændum mjög hagstætt og mun halda áfram að vera það, enda þótt nokkurt verðjöfnunargjald yrði lagt á þær vörur eins og þetta frv. heimilar. Án mjög róttækrar breytingar á stefnunni í landbúnaðarmálum í heild eru allar líkur til þess í fyrsta lagi, að landbúnaðarframleiðslan í heild muni halda áfram að aukast örar en neyzlan innanlands, og í öðru lagi, að framleiðsla mjólkurafurða aukist örar en framleiðsla sauðfjárafurða. Þetta mundi leiða til þeirrar niðurstöðu, sem lýst var í fyrri kostinum hér að framan, en ekki þeim síðari, þ.e.a.s. aukningu á þörf útflutningsbóta úr 290 millj. í hvorki meira né minna en 495 millj. á fimm árum.

Hvaða áhrif mundi nú þessi þróun hafa á kjör bænda? Hámarki útflutningsbóta hefur nú verið náð, og á þessu ári munu bændur sjálfir verða að standa undir um 70 millj. kr. af útflutningsbótaþörfinni. Þetta svarar til rúmlega þriggja af hundraði af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Eftir fimm ár má gera ráð fyrir, að bændur verði að greiða hátt í 10 af hundraði af heildarframleiðsluverðmætinu til þess að standa undir útflutningsbótaþörfinni. Það getur hver og einn gert sér í hugarlund, hvaða raunhæfa þýðingu það hefur við slíkar aðstæður að ákveða með lögum, að bændur skuli hafa sambærilegar tekjur við aðrar stéttir, eins og gert er í því frv., sem hér liggur fyrir. Hin raunverulega þróun hlýtur að verða allt önnur, að kjörum bænda hraki í samanburði við aðrar stéttir, nema sem fyrst sé gripið til gagngerðra ráðstafana til þess að stöðva þessa öfugþróun. Það er því ekki síður vegna bændanna sjálfra en vegna þjóðfélagsins í heild, sem má alls ekki dragast, að stefnan í landbúnaðarmálum sé endurskoðuð.

Fjármunamyndun í landbúnaði hefur verið mjög mikil á undanförnum árum, og hefur það að sjálfsögðu verið undirstaða hinnar miklu framleiðsluaukningar. 1960 nam fjármunamyndun í landbúnaðinum 208 millj. kr. og nam þá 8,3 af hundraði heildarfjármunamyndunarinnar í landinu. Í fyrra mun fjármunamyndunin í landbúnaðinum hafa numið um 560 millj. kr. og var það tíu af hundraði heildarfjármunamyndunarinnar. Fjármunamyndunin í landbúnaðinum hefur því ekki aðeins aukizt mjög verulega, heldur hefur einnig hlutdeild hennar í heildarfjármunamynduninni vaxið. Talsverður hluti þessarar fjárfestingar hefur ekki aðeins verið gagnslaus frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, heldur beinlínis skaðlegur, að svo miklu leyti sem hún hefur verið undirstaða framleiðsluaukningar, sem ekki aðeins hefur rýrt heildarþjóðartekjurnar, heldur er hún einnig beinlínis farin að skerða tekjur bænda sjálfra.

Framlög til landbúnaðarins af opinberu fé hafa og farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Fyrir fimm árum eða 1961 námu greiðslur úr ríkissjóði til útflutningsbóta, jarðræktarframlaga og framræslu og framlög samkv. lögum um stofnlánadeild, landnám, ræktun og byggingar í sveitum samtals 59.2 millj. kr. Á þessu ári nema þessi sömu framlög, að viðbættu sérstöku framlagi til bænda samkv. samkomulagi í Sexmannanefnd, 334.6 millj. kr. Þessi framlög til landbúnaðarins hafa þannig meir en fimmfaldazt á undanförnum sex árum. Með hliðsjón af ástandinu í framleiðslumálum landbúnaðarins verður ekki heldur sagt, að þessi mikla útgjaldaaukning hafi skilað miklum þjóðhagslegum árangri. En til hvaða ráða á þá að grípa til úrlausnar þessum mikla vanda? Ég ætla mér auðvitað ekki þá dul, að ég geti hér bent á ráðstafanir í einstökum atriðum, sem duga munu til lausnar á þessum mikla vanda. Áður en hægt væri að gera ýtarlegar till. um þessi efni, þyrftu að fara fram rannsóknir á mjög mörgum atriðum, sem vitneskja er nú ekki fyrir hendi um, en meginstefnuna er hins vegar hægt að marka. Stefna verður að því, að íslenzkur landbúnaður framleiði fyrst og fremst fyrir innlendan markað. Framleiðsluaukninguna verður að stöðva, sérstaklega framleiðsluaukningu kúabúanna. Helzt þyrfti beinlínis að minnka framleiðsluna smám saman, til þess að væntanleg fólksfjölgun skapi sem fyrst eftirspurn eftir allri innlendu landbúnaðarframleiðslunni. Til þess að þetta markmið náist verður að grípa til samræmdra aðgerða á mörgum sviðum. Stefnan í fjárfestingarmálum landbúnaðarins getur mjög stuðlað að því, að þróunin verði í þessa átt, og því mikla fé, sem nú er varið til styrktar landbúnaðinum og nemur í ár 335 millj. kr., mætti eflaust með ýmsu móti verja þannig, að það stuðlaði að þessum breytingum í framleiðslumálum, — að þess konar breytingum í framleiðslumálum landbúnaðarins, sem nauðsynlegar eru.

Ríkisvaldið og bændasamtökin þurfa að hefja samvinnu um þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru. Sem fyrst ætti ríkisvaldið og bændasamtökin að efna til ýtarlegra rannsókna á þessu vandamáli öllu og freista þess að finna sem fljótvirkastar leiðir til lausnar á vandanum.

Það er ekki aðeins hagsmunamál þjóðarheildarinnar, að jafnmikilvæg framleiðslugrein og landbúnaðurinn sé hagkvæmlega rekin. Framleiðslumál landbúnaðarins eru nú því miður komin í þvílíkt öngþveiti, að bændur framleiða nokkurn hluta afurða sinna sjálfum sér beinlínis til tjóns. Úr því öfugstreymi verður að bæta sem fyrst. Það er jafnbrýnt hagsmunamál bændanna sjálfra og þjóðarheildarinnar.