02.05.1966
Neðri deild: 85. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég skal reyna að verða ekki valdur að óþarflegri lengingu á þessum umr., en ég tel mig ekki geta látið hjá liða að segja nokkur orð út af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., sem hann flutti hér áðan. Hann sagði hér og lagði þunga áherzlu á með krepptum hnefa: Með samþykkt þessarar lagagr. er algerlega tryggt, að bændur verði lægst launaða stétt í landinu! Þessu vil ég mjög harðlega mótmæla og ég vil nú benda á það, að eftir að hann sagði þessi orð og í öðru sambandi komst hann þannig að orði, að það væri sama hvað stæði á pappírnum. Þá kom það sem sagt honum vel að vitna þannig til einhvers annars í þessu, ég man nú ekki, hvað það var í þessu frv., þá skipti það ekki máli, hvað á pappírnum stæði. En ég verð nú að lita þá svo á, að með þessu hafi hann í raun og veru kippt öllum rökum undan þessari fyrri fullyrðingu sinni. En það er nú kannske ekki aðalatriði málsins, heldur hitt, að ég vona, að öllum hv. þdm. sé það ljóst, að tilgangur þessarar lagagr. með þeirri breyt., sem nú hefur verið gerð, hann er fyrst og fremst sá sami, sem hefur verið í l. hingað til, að tryggja það, að bændur hafi sömu laun fyrir störf sín eins og aðrar vinnandi stéttir. En vegna þess starfs, sem unnið hefur verið við framkvæmd á þessari lagagr., hafa þeir menn, sem að því hafa unnið, komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé heppilegt að orða nokkru skýrar um framkvæmdina á þessu. En aðalatriðið er þetta, ég vil alveg eindregið mótmæla þessari fullyrðingu hv. þm.