15.12.1965
Neðri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson, óskaði þess við umr. hér í gær, að heilbr.- og félmn. athugaði fyrir 3. umr., hvort hægt væri að koma því ákvæði inn í l., að frá lánum húsnæðismálastjórnar yrði einnig gengið í útibúum banka víðs vegar um landið og að þau yrðu einnig greidd út þar.

Heilbr.- og félmn. kom saman til fundar í morgun og athugaði þetta atriði, en treysti sér ekki til að flytja till. við 3. umr., sem hefði þessa breyt. í för með sér. Hins vegar var rætt við fulltrúa veðdeildar Landsbankans varðandi þetta atriði, og benti hann á, að í reglugerð frá 25. maí 1965 væri til þess ætlazt, að lánastofnanir og sparisjóðir eða útibú bankanna veittu nokkra fyrirgreiðslu í sambandi við veðdeildarlánin.

15. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lán þau, sem veitt eru úr veðdeildarflokkum þessum, skulu greidd í peningum að frádregnum gjöldum við lántökuna skv. reglum deildarinnar. Lántaki getur, ef hann óskar þess, fengið að undirrita skuldabréf fyrir lánum og fengið andvirði þeirra útborgað í þeim sparisjóði eða bankaútibúi, sem hann skiptir við. Ber honum þá að tilkynna veðdeildinni það. Enn fremur er honum heimilt að greiða vexti og afborganir af lánum á sama stað.“

Fulltrúi veðdeildarinnar upplýsti, að það væri orðin mjög algeng regla og algengast nú, að bankaútibú og sparisjóðir víðs vegar um landið önnuðust þessa fyrirgreiðslu, þannig að lántakandi skilaði þessum aðilum þeim skjölum, sem tilskilin eru eða krafizt er í sambandi við veðdeildarlánin, — afhenti þessum aðilum þau skjöl, sem síðan sendu þau til veðdeildarinnar og fengju til baka útfyllt skuldabréfin, sem þá væru undirrituð í lánsstofnunum víða um landið og lánin greidd þar viðkomandi aðilum.

Það virðist því vera, að sú fyrirgreiðsla, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. benti á að nauðsynleg væri, sé komin í praxis í mjög víðtækum mæli, þó að lánin séu enn þá reiknuð út og skuldabréfin skrifuð hjá veðdeild Landsbankans hér í Reykjavík. Fulltrúi veðdeildarinnar taldi, að það mundi vera mjög erfitt að koma því við og ekki víst, að bankaútibú úti á landi kærðu sig um að reikna þessi lán út og tryggja það, að öll skjöl og allir skilmálar í sambandi við lánin væru eins og til væri ætlazt. Hins vegar væri þetta orðin hin venjulegasta leið, sem lántakar færu, að þeir fengju þessa fyrirgreiðslu bæði hjá bankaútibúum og sparisjóðum.

Einnig tjáði fulltrúi veðdeildarinnar mér í þessu viðtali, að bæði bankaútibú og sparisjóðir úti um landið fengju alltaf lista yfir öll lán, sem veitt væru á því félagssvæði, þar sem þessar stofnanir störfuðu, þannig að aðilar gætu greitt afborganir og vexti af lánum bæði hjá sparisjóðum og bankaútibúum, og væri einnig þetta orðið langalgengast, að greiðslur lána kæmu í gegnum þessa aðila, sem þá einnig í því sambandi veittu þessa fyrirgreiðslu.

Eins og ég sagði áðan, treysti n. sér ekki, að fengnum þessum upplýsingum, til að flytja brtt. við frv. við 3. umr.