02.05.1966
Neðri deild: 85. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2324 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. telur of mikið framleitt af landbúnaðarvörum og af því stafi það, að hluti af framleiðslunni sé fluttur á erlendan markað og seldur þar fyrir lægra verð en gildir hér innanlands. Niðurstaða hans er sú, að útflutningur á landbúnaðarvörum eigi að stöðvast og mér skilst, að það eigi að minnka framleiðsluna, en ekki auka hana. Út af þessu hlýtur að vakna sú spurning, hvernig sé ástatt að þessu leyti um útflutning á öðrum vörum. Aðalútflutningsvörur okkar eru og hafa lengi verið sjávarafurðir. Ég veit ekki betur en nú þurfi að veita ýmsum útflytjendum sjávarafurða opinbera aðstoð, sem nemur tugum millj. kr. á ári, vegna þess að rekstur þeirra ber sig ekki. Samkv. kenningu hæstv. ráðh. ætti að hætta að flytja út þær sjávarafurðir, sem nú þarf að styrkja með þessum hætti. Ekki lízt mér alls kostar á þetta. En það er auðvelt að sjá, hvað það er, sem veldur mestum erfiðleikum fyrir atvinnuvegina. Eins og fram var tekið hér í dag af hv. 3. þm. Vesturl. er það verðbólgan, en hún fer stöðugt vaxandi, verðbólgan, sem núv. hæstv. ríkisstj. ætlaði að stöðva, en ræður ekkert við. Auk þess má benda á, að illa hefur verið búið að landbúnaðinum og fleiri atvinnugreinum síðustu árin að ýmsu leyti. Má þar nefna t.d. hækkun vaxta.

Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa nýlega samþ. lög um að veita útlendu fyrirtæki leyfi til atvinnurekstrar hér á landi og ákveðið að veita því stórkostleg fríðindi, sem íslenzkir atvinnurekendur njóta ekki. Útlenda fyrirtækið á t.d. að sleppa við greiðslu á aðflutningsgjöldum og söluskatti af efni til stofnunar verksmiðju og öllu, sem þarf til rekstrar hennar, öllum innfluttum vörum. Vissulega mundi afkoman batna hjá innlendum framleiðendum, þ.e.a.s. bændum, útvegsmönnum og iðnaðarmönnum, ef ríkisstj. væri jafngóð við þá og útlendingana og létti öllum þessum gjöldum af þeim. Einnig, ef hún seldi þeim raforku fyrir sama verð og útlendingunum.

Hæstv. ráðh. telur þörf á að athuga framleiðslumál landbúnaðarins. Vel má vera, að svo sé, en ég vil benda á, að félagssamtök bænda eru sífellt að vinna að slíkum athugunum. En það er vissulega þörf að athuga afkomumöguleika hjá fleiri atvinnugreinum, bæði sjávarútvegi og ýmiss konar iðnaði, sem stendur ákaflega höllum fæti, fyrst og fremst vegna verðbólgunnar, sem horfur eru á, að enn fari vaxandi, því miður, og einnig vegna yfirvofandi samkeppni um vinnuaflið við fríðindafyrirtæki ríkisstj., álbræðsluna.