15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

149. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. meiri hl. ( Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. hefur rætt þetta frv. um breyt. á I. um skipulag á fólksflutningum. Hefur n. sent frv. til umsagnar Félags sérleyfishafa og skipulagsnefndar fólksflutninga, en báðir þessir aðilar mæla nær einróma með samþ. frv.

Meginbreytingarnar, sem frv. þetta felur í sér frá gildandi l., eru þessar: Ákveðið er, að réttindi til hópferðaaksturs séu veitt á sama hátt og leyfi til áætlunarferða. Ákvæði gildandi I. um að hópferðir á héraðsmót og almennar skemmtanir innan hvers lögsagnarumdæmis séu undanþegnar sérleyfi, er hér einnig látið ná til annarra hópferða innan lögsagnarumdæmanna og til flutninga starfsfólks að og frá vinnustað, sem framkvæmdir eru á kostnað vinnuveitenda.

Þá eru ákvæði sett um það, að skipulagsnefnd fólksflutninga með bifreiðum skuli samþ. afgreiðslustöðvar þær, sem sérleyfisbifreiðar eru afgreiddar frá. Ákvæði eru einnig sett um skyldur og réttindi nýrra sérleyfishafa til kaupa á fasteignum og tækjum, sem álitið er nauðsynlegt, að fylgi sérleyfis- og einkaleyfisleiðum. Loks eru sett ákvæði um, að hópferðaréttindahafar greiði sérleyfisgjald af hópferðum á sama hátt og sérleyfishafar greiða sérleyfisgjald af sérleyfisferðum, og enn fremur, að hópferðaréttindahafar greiði fast árlegt gjald fyrir hópferðaréttindin og sé upphæð þess ákveðin með reglugerð. Sérleyfisgjald, sem hópferðaréttindahafar hafa greitt að undanförnu, hefur verið ákveðið með reglugerð.

Meiri hl. samgmn. leggur til, að frv. verði samþ. með smávægilegum breyt. á 2. gr. frv. Leggur n. til, að við staflið b) í niðurlagi gr. bætist: „Og séu þær eingöngu notaðar til fólksflutninga.“ Þessi breyting er gerð samkv. ósk Félags sérleyfishafa, og er höfuðtilgangur hennar að koma í veg fyrir, að meira eða minna óhæfir bílar, sem að verulegu leyti stunda vöruflutninga, komi til greina sem hópferðabílar, og er breyt. ætlað að tryggja rétt notenda til góðra og þrifalegra farartækja.

Að svo mæltu leyfi ég mér fyrir hönd meiri hl. samgmn. að mæla með því, að frv. verði samþ. með tilgreindri breyt.