18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

68. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er ekki mikið að vöxtum, en eins og fram kemur í aths. við frv. eru það einkum tvenns konar breytingar, sem frumvarpið felur í sér, ef samþykkt verður.

Með frv. er lagt til, að sjúkrasamlögunum verði skylt að greiða verulegan hluta af óhjákvæmilegum ferðakostnaði lækna, þegar ferð læknis til sjúklings er yfir ákveðnu marki, sem hér er ákveðið 10 km, eða nota verður skip eða flugvélar við ferðina, eins og þar segir, og flutningsþörf er brýn og líðan sjúklings svo varið, að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaleiðum.

Hér er um að ræða skýrari ákvæði en eru í gildandi l. um læknavitjanasjóði og allverulega rýmkun frá því, sem þar er ákveðið, en það hefur verið álit manna, að þeir hafi komið að heldur litlum notum miðað við þær starfsreglur, sem þeim hafa verið settar á undanförnum árum.

Þá er einnig gert ráð fyrir því í frv. þessu, að Tryggingastofnun ríkisins annist styrkveitingar til örkumla manna og fatlaðra, sem þarfnast gervilima, umbúða eða annarra þess háttar tækja, svo og til lamaðra, sem þarfnast æfingarmeðferðar með viðeigandi nuddi og rafmagnsaðgerðum utan sjúkrahúss, sbr. annað stjórnarfrv., sem er 3. mál á dagskránni, um ríkisframfærslu, og væntanlega verður tekið fyrir hér á eftir.

Vegna þess að mörg sjúkrasamlögin eru svo fámenn, að gera verður ráð fyrir, að þau geti ekki ávallt risið undir þeim kostnaði, sem leitt gæti af ákvæðum þessa frv., er lagt til, að héraðssamlögin greiði sjúkrasamlögunum 3/4 hluta þess kostnaðar, sem af 2. gr. frv. leiðir, en Tryggingastofnun ríkisins veitir í dag lífeyri og styrk til öryrkja, og virðist eðlilegt, að hún veiti einnig styrki þá til örkumla manna og fatlaðra, sem greinir frá í 3. gr. þessa frumvarps.

Ég tel á þessu stigi ekki frekar þörf á að útskýra frv. nánar. Með því er allýtarleg grg. ásamt yfirliti um, hvernig þessum útgjöldum hefur áður verið skipt milli læknavitjanasjóða og lífeyrisdeildar almannatrygginganna, og nægir í því efni að vísa til þeirra tölulegu upplýsinga, sem þar liggja fyrir.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.