21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir því að sameina Stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóð Íslands í einum sjóði. Það hefur alllengi verið rætt um það, að rétt væri að sameina þessa tvo stofnlánasjóði sjávarútvegsins, og ég er fyrir mitt leyti samþykkur því, að það sé gert. Því verður ekki neitað, að það er miklu eðlilegra, að aðalstofnlánasjóður sjávarútvegsins sé einn og fjalli þá um alla meginþætti, sem stofnlán sjávarútvegsins koma við, en að sú aðgreining sé ekki lengur, sem þarna hefur verið. En það hefði þó verið mikil þörf á því að mínum dómi um leið og þessir sjóðir eru sameinaðir í einum sjóði að gera ráð fyrir því að auka þá jafnframt nokkuð við tekjumöguleika þessa nýja sjóðs, ef hann á að geta sinnt með eðlilegum hætti stofnlánabeiðnum sjávarútvegsins yfirleitt. Það vita allir hv. alþm., að Fiskveiðasjóður hefur nú um langan tíma lánað að langmestu leyti sitt fé til kaupa á nýjum fiskiskipum eða til hyggingar á nýjum fiskiskipum. Önnur stofnlánastarfsemi sjóðsins hefur verið tiltölulega lítil, enda hafði verið ráð fyrir því gert í lögum sjóðsins, að lán til uppbyggingar á fiskiskipaflotanum og það meira að segja til uppbyggingar á skipum undir ákveðinni stærð, undir 300 rúmlesta stærð, skyldu algerlega sitja fyrir um fé úr sjóðnum, og reynslan hefur líka orðið sú, að yfirgnæfandi meiri hluti af því fjármagni, sem sjóðurinn hefur ráðið yfir á hverjum tíma, hefur beinlínis gengið til þess að byggja upp fiskiskipaflotann.

Ég efast ekkert um það, að stjórnendum sjóðsins hefur verið það fyllilega ljóst á undanförnum árum, að það hefur verið brýn þörf á því, að sjóðurinn gæti sinnt ýmsum öðrum verkefnum í þágu sjávarútvegsins, en hann hefur ekki haft fé aflögu fram yfir þetta meginverkefni til þess að sinna slíkum þáttum nema þá að mjög litlu leyti.

Um langan tíma hafði Stofnlánadeild sjávarútvegsins í rauninni verið lokuð deild og ekki haft með höndum neina starfsemi, en svo tók deildin aftur upp nokkra starfsemi nú fyrir stuttu síðan, en hefur haft yfir að ráða mjög takmörkuðu fé og fer víðs fjatri, að hún hafi getað sinnt öllum þeim lánsheiðnum, sem til hennar hafa borizt og hefði auðvitað verið mjög nauðsynlegt að sinna. En nú er sem sagt gert ráð fyrir því, að Stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóður verði sameinuð í einum sjóði, og þeir sem þurfa því að leita eftir stofnlánum til sjávarútvegsins, jafnt til fiskiðnaðar sem til fiskiskipakaupa, eigi að beina lánbeiðnum sínum til þessa eina sjóðs án þess að gert sé ráð fyrir því, að tekjur hans aukist nokkuð frá því, sem verið hefur. Þetta tel ég mikinn galla, og ég tel, að það hefði í rauninni átt að vera sjálfsagt atriði, um leið og þetta skref var stigið að sameina þessa tvo stofnlánasjóði, að auka við fjármagn hins nýja sjóðs.

En sú breyt., sem felst í þessu frv., er miklu meira að formi til varðandi þetta atriði, að þessum tveim deildum er slengt saman í einn sjóð, sem þá auðvitað annast öll sömu verkefni og áður voru, og þá sjá menn, að í sambandi við það er ekki um neina verulega breyt. að ræða.

En meginbreytingin, sem felst í þessu frv. að mínum dómi, er fólgin í því, að nú er gert ráð fyrir nýrri yfirstjórn Fiskveiðasjóðs. Áður hefur það verið svo, að stjórn Fiskveiðasjóðs hefur verið skipuð bankastjórum Útvegsbankans, og sérstakur forstöðumaður hefur verið fyrir Fiskveiðasjóð nú um margra ára skeið, og fer ekkert á milli mála, að sá forstöðumaður hefur markað stefnu sjóðsins og störf í öllum meginatriðum. En nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að stjórnin verði skipuð fyrir þennan nýja Fiskveiðasjóð með allt öðrum hætti. Nú er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn tilnefni einn af fimm stjórnarnefndarmönnum, Landsbanki Íslands tvo og Útvegsbanki Íslands tvo. Og síðan er gert ráð fyrir því, að viðskiptamenn þessa nýja sjóðs geti einnig rekið mál sín eða lagt fram lánbeiðni sína til viðskiptabankanna, ef viðskiptabankarnir eru þeirra viðskiptabankar, og að stjórnarnefndarmenn geti þá flutt hinar einstöku lánbeiðnir inn á stjórnarfundi skv. þessum viðtölum við hina einstöku lánbeiðendur og þannig sýnist mér, að það sé að því stefnt, að sá maður, sem á hverjum tíma verður valinn forstöðumaður hins nýja sjóðs, verði miklu fremur afgreiðslumaður og almennur starfsmaður heldur en slíkur framkvæmdastjóri, sem hann hefur verið í Fiskveiðasjóði nú um langan tíma.

Ég tel, að þessi breyt. sé ekki til bóta. Við höfum haft nokkra reynslu af hliðstæðu fyrirkomulagi í sambandi við nýju Stofnlánadeildina eftir að hún var endurvakin, en þá var svo ákveðið, að einmitt aðilar frá sömu bönkum og hér er gert ráð fyrir að eigi að skipa stjórn Fiskveiðasjóðs, áttu að skipa menn í raunverulega framkvæmdastjórn fyrir Stofnlánadeildina eða þá stofnlánadeild, sem hefur starfað nú síðustu árin. Ég held, að enginn vafi sé á því, að reynslan af þessu er ekki góð. Ég tel það mjög óheppilegt, að þeir aðilar, sem þurfa að sækja um stofnlán úr Stofnlánasjóði sjávarútvegsins, flytji mál sín ýmist fyrir bankastjórum í Landshankanum eða þá fyrir bankastjórum í Útvegsbankanum eða jafnvel bankastjóra Seðlabankans, og að síðan eigi þessir fulltrúar bankanna í stjórn hins nýja Fiskveiðasjóðs að afgreiða þessar lánbeiðnir. Ég óttast það, að þá verði færð inn í Fiskveiðasjóð — sem ég tel, að hann hafi verið að mestu leyti laus við til þessa — allt of mikil sérsjónarmið viðskiptabankanna gagnvart hinum einstöku lánbeiðendum, því það fer vitanlega ekkert á milli mála, að það stendur æðioft þannig á í viðskiptabönkunum, að hinir einstöku viðskiptamenn þeirra vilja gjarnan fá stofnlán, og það kæmi sér á margan hátt vel fyrir þeirra almenna rekstur, að þeir gætu fengið stofnlán, en ég álít, að engin slík sjónarmið eigi að koma til greina, þegar valið er á milli aðila um það, hvort þeir eigi að fá stofnlán eða ekki, hvernig ástatt kann að vera fyrir þeim í sambandi við rekstrarreikninga þeirra á hverjum tíma í viðskiptabönkum.

Það er enginn vafi á því, að þær reglur hafa gilt hjá Fiskveiðasjóði Íslands nú um margra ára skeið, að þeir aðilar, sem uppfyllt hafa tiltekin skilyrði, hafa í rauninni allír átt jafnan rétt til þess að geta fengið stofnlán úr Fiskveiðasjóði. Það hefur ekki verið spurt um það, hvort viðkomandi aðili væri viðskiptamaður Landsbankans eða Útvegsbankans eða hvernig viðskiptabankarnir út af fyrir sig litu á viðkomandi aðila eða viðkomandi fyrirtæki, sem í sumum tilfellum var kannske verið að mynda, og ég held, að þessi sjónarmið, sem gjarnan koma upp og er kannske ekki óeðlilegt að komi upp frá viðskiptabönkunum, eigi ekki pláss inni í þessum stofnlánasjóði.

Því er það eins og ég sagði hér í sambandi við umr. um fyrra dagskrármálið í dag, að ég held, að það sé mikil þörf á því að greina alveg skýrt á milli verkefna stofnlánasjóða og rekstrarbanka og svo aftur í þriðja lagi á milli verkefna þessara aðila og Seðlabanka, en hér er stefnt inn á þá braut, sem ég álit, að sé röng. Hér er stefnt inn á þá braut að hringla þessu öllu saman. Fulltrúi Seðlabankans er hér settur inn í stofnlánasjóð, sem á að hafa almenn viðskipti við fjölda marga aðila. Þetta er ekki verkefni Seðlabankans. Og fulltrúar viðskiptabankanna eru settir hér í stjórn stofnlánasjóðs, sem ég álít, að sé í mjög mörgum tilfellum óheppilegt. Allt annað mál er, hvort viðskiptabankar vilja hafa eitthvert gagnkvæmt samstarf við Stofnlánadeild eða stofnlánasjóð um sín almennu sjónarmið en að bankastjórar viðskiptabankanna gæti verið beint með fingurna í lánum til einstakra aðila inni í stofnlánasjóðunum, það tel ég ekki heppilegt.

Ég held það hefði farið langbezt á því, að hinn nýi sameinaði Fiskveiðasjóður, sem hefði þá yfirtekið Stofnlánadeild sjávarútvegsins, hefði fengið sína sérstöku yfirstjórn alveg óháða viðskiptabönkunum. Ég hafði áður sett það fram sem mína skoðun hér, að ég teldi það frekar galla á skipulagi hins gamla Fiskveiðasjóðs, að bankastjórar Útvegsbankans skyldu vera þar í stjórn, en ég játa, að vegna þeirrar sérstöðu, sem forstöðumaður sjóðsins var búinn að fá, og óumdeilanlegrar viðurkenningar, sem hann naut hjá bankastjórum Útvegsbankans, þá fór það ekkert á milli mála, að það var forstöðumaður sjóðsins, sem fyrst og fremst réð þar framkvæmdum mála.

Ég hefði því óskað eftir því í þessu tilfelli, að hér hefði verið sérstaklega kosin stjórn fyrir þennan nýja Fiskveiðasjóð annaðhvort af Alþingi eða þá af samtökum ýmissa þeirra aðila, sem hér eiga mjög hlut að máli, og þar tel ég bæði samtök útvegsmanna og sjómanna koma til greina.

Ef þessari stefnu á að halda áfram, býst ég við því, að næsta skref verði það, að lagt verði til, að Stofnlánadeild landbúnaðarins eigi að taka við sem stjórnarfulltrúum hjá sér mönnum frá Landsbankanum, vegna þess að það er vitað mál, að Landsbankinn lánar mjög mikið til landhúnaðarins. Og þannig má búast við því, að bæði Landsbankinn og Útvegsbankinn færu að reyna að koma því inn, að þeir ættu sérstaka fulltrúa í Stofnlánadeild iðnaðarins, af því að það er sannað mál skv. reikningum þessara banka, að þeir lána jafnvel mun meira fé til iðnaðarins heldur en Iðnaðarbankinn getur gert.

Ég er á móti þessari stefnu, ég tel hér vera farið inn á ranga braut. En að öðru leyti er ég samþykkur því að sameina Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeildina, en tel, að það hefði þó þurft að gera með þeim hætti að auka talsvert við tekjur Fiskveiðasjóðs, svo mikið verkefni sem hann á að hafa.

Það er nú komið hér alllangt fram yfir fundartíma, og ég veit, að það er ekki hægt að halda þessum fundi lengur áfram nú. Ég mun því láta máli mínu lokið, en vildi að þetta kæmi fram hér við l. umr. málsins, en frekar mun ég gera grein fyrir minni afstöðu til þessa frv., þegar það kemur úr nefnd. — [Fundarhlé.]