21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mitt mál verður mjög stutt, enda hér um l. umr. að ræða. Það er vafalaust hárrétt, sem hæstv. sjútvmrh. sagði í dag, að í þessu langa frv. eru aðallega tvær breyt., sameining Stofnlánadeildar og Fiskveiðasjóðs og svo breyt. á stjórn sjóðsins. Ég hef hins vegar ekki haft aðstöðu til, síðan frv. kom fram, að bera það gr. fyrir gr. saman við gildandi l. um Fiskveiðasjóð, en geri ráð fyrir, að þetta sé rétt, að það séu ekki margar aðrar breyt. í þessu frv.

Aðalbreyt. er þá sem sagt sú, að í stað þess að Útvegsbankinn hefur haft með stjórn Fiskveiðasjóðsins að gera að undanförnu, á nú að setja stjórn hans undir Seðlabankann, Landsbanka Íslands og Útvegsbankann. Við deildum um það í dag, sérstaklega við hæstv. forsrh., hvort hér væri um það að ræða að færa hluta af verkefni viðskiptabankanna aftur yfir til Seðlabankans, og hæstv. forsrh. taldi það ekki vera gert með frv., sem þá var til umr. En það fer þó ekkert á milli mála, að hér er að því stefnt með þessu frv. að færa nokkuð af verkefni viðskiptabanka, hrein viðskiptabankaverkefni, undir stjórn Seðlabankans að hluta til og ég endurtek það, sem ég sagði í dag, að ég er andvigur breytingum í þá átt og tel þar vera rangt stefnt. Og það liggur í augum uppi, að það er rangt stefnt, ef það hefur verið rétt stefna á sínum tíma að setja Seðlabankanum sérstök l. og aðskilja hann og starfsemi hans frá Þjóðbankanum sem viðskiptabanka.

Hv. síðasti ræðumaður fullyrti, að þessi breyt. væri ekki gerð að óskum og ráðum útvegsmanna, og ég hygg, að þetta sé rétt hjá honum. En ef hann fer þarna með rangt mál, þá leiðréttir hæstv. sjútvmh. það sjálfsagt og skýrir frá því, hvaða óskir hafi komið frá útvegsmönnum um það að breyta stjórn Fiskveiðasjóðs í þá átt, sem hér er lagt til, en ég á ekki von á því, að hæstv. ráðh. leiðrétti þetta.

Hins vegar var meginerindi mitt hér í ræðustól að þessu sinni að spyrja um það, sem raunar ætti nú ekki að þurfa að spyrja um. Það hlýtur að vera þannig, að einhverjir hafi óskað breyt. eða talið þörf á breyt. á gildandi l. um Fiskveiðasjóðinn. Ef ekki útvegsmenn, þá eru kannske óskirnar komnar frá núv. stjórn Fiskveiðasjóðs og Útvegsbanka Íslands. Ég tel það svo sjálfsagt, að þetta hljóti að vera gert að óskum þeirra aðila. Ef ekki er vegna umkvartana frá þeim, sem njóta eiga lána úr Fiskveiðasjóði, um að sjóðnum hafi verið illa stjórnað, þá gæti vel hugazt, að stjórnendur sjóðsins, stjórn Fiskveiðasjóðs og bankaráð Útvegsbanka Íslands hafi borið fram við hæstv. ríkisstj. rökstuddar óskir um það að breyta lögunum og þá sérstaklega að breyta stjórn hans á þann veg, að þar yrðu húsbændur Seðlabanki Íslands og Landsbankinn auk Útvegsbanka Íslands.

Ég tel sjálfsagt, að þetta frv. hljóti að vera fram borið í nánu samráði við núv. stjórnendur Fiskveiðasjóðs og Útvegsbanka Íslands. En ég vil a.m.k. fá að vita um það, hvort svo sé ekki, og þess vegna spyr ég hæstv. sjútvmrh., af því að ég heyrði það ekki koma fram í hans ræðu í dag, hvaða nauðsyn hefði rekið hæstv. ríkisstj. til að bera þetta frv. fram. Þá spyr ég hæstv. ráðh.: Er þessi breyt., sem í frv. felst, gerð í fullu samráði við núv. stjórn Fiskveiðasjóðs og bankaráð Útvegsbanka Íslands?