21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggur nú fyrir hv. d. til l. umr. frv. til nýrra I. um Fiskveiðasjóð Íslands flutt af hæstv. ríkisstj. og hefur verið rætt nokkuð hér í dag.

Ekkert er þess getið í grg. frv., svo ég hafi veitt því athygli, að lögin um Fiskveiðasjóð hafi verið endurskoðuð, þó að það hafi að sjálfsögðu verið, eða hverjir þá hafi framkvæmt þá endurskoðun, sem liggur til grundvallar þessu frv.

Hæstv. ráðh. gat þess í framsöguræðu sinni, að Fiskveiðasjóður Íslands hefði verið stofnaður árið 1905, þ.e.a.s. væri nú rúmlega 60 ára gamall. Þetta má til sanns vegar færa. Sjóðurinn með því nafni var stofnaður með lögum það ár. Landssjóður lagði fram til hans eins og segir hér í grg. 100 þúsund krónur, að mestu í skuldabréfum fyrir lánum úr viðlagasjóði, og síðan var honum ætlað 6 þús. kr. árlegt framlag úr ríkissjóði, en fastar tekjur hans að öðru leyti voru lengi 1/3 hluti sektarfjár fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi ásamt 1/3 af andvirði upptæks afla og veiðarfæra. Það má nú sennilega segja, að meðan þessi lög giltu hafi sjóðurinn ekki líkzt mjög mikið þeirri stofnun, sem nú starfar, en árið 1930 var löggjöfinni um sjóðinn breytt, og má þá segja, að grundvöllur hafi verið lagður að núv. starfsháttum sjóðsins. Þá var honum fenginn tekjustofn, sem hann hefur enn, en hefur verið aukinn síðan oftar en einu sinni, sem er gjald af útfluttum sjávarafurðum, og þá var sjóðurinn fenginn Útvegsbanka Íslands til vörzlu og hefur verið svo síðan. Á þessum 35 árum eða rúmlega það, sem liðin eru síðan Fiskveiðasjóðurinn var þannig endurskipulagður, hefur sjávarútvegurinn byggt hann upp með útflutningsgjaldinu, þannig að hann er orðinn nokkuð öflug stofnun. Talið er, að hann eigi í stofnsjóði sínum, sem að sjálfsögðu er að mestu útistandandi í lánum, hátt á sjötta hundrað milljóna og hinn 31. jan. s.l. námu útistandandi lán sjóðsins nálega 1200 millj. króna. Hann hefur enn sem fyrr fastar tekjur af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, en nú fyrir skömmu, þegar útflutningsgjaldið var lækkað, tók ríkissjóður að sér að greiða sjóðnum árlega upphæð sem svarar því, sem tekjur hans af útflutningsgjaldinu voru lækkaðar um.

Sjávarútvegurinn hefur sem sagt byggt upp á þessum árum stofnlánasjóð sinn fyrir bátaflotann, og Fiskveiðasjóður Íslands hefur á sama tíma að verulegu leyti byggt upp hinn íslenzka bátaflota, sem nú mun telja fram undir 800 þilskip, að öðru leyti en því, sem veitt var af lánum úr Stofnlánadeild sjávarútvegsins á fyrstu árunum eftir stríðið til bátakaupa.

Nú er það svo, að ef lög Fiskveiðasjóðs Íslands væru orðin 60 ára gömul eins og sjóðurinn eða frumgerð hans og jafnvel þó þau væru ekki nema 35 ára gömul eða frá þeim tíma, þegar sjóðurinn tók til starfa í svipaðri mynd og nú, þá mætti með sanni segja, að ástæða væri til endurskoðunar þeirrar löggjafar og setningar nýrra laga. En svo er ekki. Lögin um Fiskveiðasjóð Íslands eru frá 1955 og hafa þó verið að verulegu leyti endurnýjuð síðan og var síðast breytt á árinu 1961, og hið sama ár, þ.e.a.s. 1961, var einnig umsaminn sá kafli í lögum um Útvegsbanka Íslands, sem fjallar um Fiskveiðasjóð. Eiginlega er því ekki hægt annað að segja en að Alþingi hafi fylgzt nokkuð með þessari löggjöf og gert á henni breyt. í seinni tíð, þegar þess hefur þótt vera þörf, og sjálfur lagastofninn ekki nema tíu ára gamall, þannig að eiginlega virðist mér að það þyrfti að vera einhver sérástæða til þess að setja honum ný lög og afnema þau gömlu um sjóðinn.

Ég vil þess vegna segja það á þessu stigi málsins, að mér finnst það orka tvímælis, að ástæða sé til þess að gera það frv. að lögum, sem hér liggur fyrir. Mér finnst það orka tvímælis með tilliti til þessa, sem ég nú hef sagt. Meira ætla ég ekki að segja um það, enda á ég sæti í þeirri n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, og hef þá tækifæri til þess að fjalla um málið, en mér finnst þetta orka tvímælis. Mér er ekki kunnugt um, að óskir hafi verið uppi um breyt. á Fiskveiðasjóði eða sérstök óánægja hafi komið fram með gerðir þeirra manna, sem hafa stjórnað sjóðnum. Sami maður hefur nú um langa hríð haft framkvæmdastjórn sjóðsins með höndum, maður sem hv. þm. kannast vist flestir við, Elías Halldórsson, sem ég hygg að njóti almenns trausts í starfi sínu og hafi verðskuldað það. Ég hef ekki orðið þess var fremur en hv. 5. þm. Norðurl. v., sem hér talaði áðan, að frá samtökum útvegsmanna hafi borizt óskir um, að starfsemi sjóðsins yrði breytt eða um það sérstaklega, að nauðsyn bæri til þess, að stjórn hans yrði skipuð á annan hátt en hún nú er. Ég hef ekki orðið þess var. En Fiskveiðasjóði er, eins og komið hefur fram í umr., þannig stjórnað, að þar er ráðinn sérstakur forstöðumaður, sem tekur við umsóknum um lán og hefur með höndum fjárreiður sjóðsins ásamt mönnum, sem honum eru fengnir til aðstoðar, en Útvegsbanki Íslands hefur sjóðinn í sinni vörzlu og eins og lög eru nú, eru það bankastjórar Útvegsbankans, sem eru stjórn sjóðsins. Hins vegar heyrir hann ekki undir bankaráðið.

Það hefur verið talið hér af hæstv. ráðh. og kemur fram í grg. frv., að ástæða sé til að auka verkefni sjóðsins og að honum verði gert að lána til fiskiðnaðarfyrirtækja. Hingað til hefur hann einkum lánað til fiskiskipa. Af 1200 millj., sem sjóðurinn átti í útistandandi lánum 31. jan. s.l., voru 1000 millj. eða rúmlega það lán til fiskiskipa og vegna innlendra skipasmíða. Nú er talin ástæða til þess að fela sjóðnum einnig að annast lánveitingar til fiskiðnaðarfyrirtækja, en það hefur hann ekki gert undanfarið nema að litlu leyti. Hins vegar skortir það á, eins og fram kom hér í umr. í dag, að sjóðnum sé á fullnægjandi hátt séð fyrir fjármunum til þess að taka á sig þessar skyldur. Það, sem frv. gerir ráð fyrir í því sambandi, er, að Stofnlánadeild sjávarútvegsins verði sameinuð Fiskveiðasjóði og hann fái fjármuni hennar til starfsemi sinnar. Stofnlánadeild sjávarútvegsins var stofnuð fyrir 20 árum á sérstakan hátt með lánum úr Seðlabankanum og veitti þá lán til nýsköpunartogaranna, sem svo voru nefndir, og til allmargra fiskibáta, sem þá voru keyptir til landsins. Eftir það lá starfsemi deildarinnar niðri um langa hríð, en fyrir nokkrum árum var hún endurvakin og var fengið það verkefni að breyta lausaskuldum sjávarútvegsins í föst lán og var því lýst hér í dag af hæstv. ráðh. Síðan gerðist það á árinu 1965, að deildinni var fengið það hlutverk að annast lánveitingar til fiskiðnaðarfyrirtækja og var gert samkomulag um það við bankana og á milli þeirra, að þeir legðu henni til nokkurt lánsfé, sem hæstv. ráðh. drap einnig á í dag. Þetta lánsfé, sem deildin hefur aðgang að frá bönkunum, mun vera um 50 millj. kr. á ári en aðeins um takmarkaðan tíma, því að samningurinn er til takmarkaðs tíma. Og trúlega þarf að endurnýja þennan samning varðandi Stofnlánadeildina, ef hann á að gilda um þennan ráðgerða Fiskveiðasjóð Íslands. Sjálf virðist Stofnlánadeildin, eftir þeim reikningum, sem hér eru birtir í grg., vera nær eignalaus stofnun og því á engan hátt sambærileg við Fiskveiðasjóð, sem á nokkur hundruð millj. í stofnsjóði sínum, þannig að ef þessir aðilar, sem nú er talað um að slái saman í eins konar félagsbú, gera það, þá verður mjög misjafnt, sem þeir leggja til þessa félagsbús. Hins vegar er Fiskveiðasjóði ætlað í sambandi við þetta, sem hann fær frá Stofnlánadeildinni og sem er náttúrlega í miklu meira mæli skyldur en réttindi til fjár, að taka við nýrri stjórn, sem á að vera skipuð þannig, að Útvegsbanki Íslands tilnefni tvo menn, Landsbanki Íslands tvo menn og Seðlabankinn einn.

Það hefur verið sagt hér í umr., að nauðsyn beri til eða það sé a.m.k. æskilegt að sameina stofnlán til fiskiskipa og stofnlán til fiskiðnaðarfyrirtækja og að það reki á eftir þessari ráðstöfun, sem hér er verið að gera, sameiningu, sem kölluð er. Út af fyrir sig fæ ég nú ekki séð, að þetta sé mjög rík nauðsyn. Stofnlánin til fiskiskipa og stofnlánin til fiskiðnaðarfyrirtækja eru tvær greinar stofnlánastarfsemi, og ég hef a.m.k. ekki á reiðum höndum röksemdir fyrir því, að nauðsynlegt sé að þær séu endilega í sömu stofnun, úr því að þær nú ekki hafa verið það. En hins vegar má sjálfsagt færa rök fyrir því, að þetta megi vel svo vera. Ég fæ ekki séð, að það sé nein brýn nauðsyn til þess.

Niðurstöðuna af þessum fáu orðum, sem ég hef nú sagt, vil ég nú endurtaka stuttlega. Í fyrsta lagi, að mér virðist ekki, að löggjöfin um Fiskveiðasjóð Íslands sé komin svo til ára sinna, að nauðsyn beri til þess að endurskoða hana og setja ný lög. Í öðru lagi, að ég hef ekki orðið þess var, að fram hafi komið óskir um það, að starfsemi Fiskveiðasjóðs væri breytt, ekki frá þeim, sem hafa lagt honum til fjármagnið að mestu leyti, og mér er víst alveg óhætt að fullyrða, ekki frá stjórn Fiskveiðasjóðs. Í þriðja lagi virðist mér, að Fiskveiðasjóði verði ekki með þessu frv., ef að lögum verður, séð fyrir því fjármagni, sem hann þyrfti að fá til þess að taka á sig þær skyldur, sem l. leggja honum á herðar. Niðurstaðan af þessu er sú, eins og ég sagði áðan, að mér finnst það mjög orka tvímælis, að ástæða sé til þess að setja þessi nýju lög, en að sjálfsögðu verður það mál skoðað í n. og geri ég þá ráð fyrir, að allir telji sjálfsagt, að leitað verði umsagnar þeirra, sem þetta mál einkum varðar, eins og stjórnar Fiskveiðasjóðs og þá stjórnar Stofnlánadeildarinnar einnig, sem hér kemur við sögu, og síðast en ekki sízt, ef verða mætti, þeirra sem lagt hafa á undanförnum áratugum Fiskveiðasjóði til meiri hlutann af starfsfé hans. Að fengnum þeim umsögnum verður væntanlega hægt að gera sér nánari grein fyrir því, hvernig eigi að fara um þetta frv., ef það hlýtur fylgi, á hvern hátt væri ástæða til að breyta því. Í sambandi við hugsanlegar hreyt. á frv., ef ástæða þætti til þess að gera það að l., vil ég alveg taka undir það, sem fram kom hér í dag í umr., að mér sýnist það mjög einkennilegt ákvæði og óvenjulegt að gera ráð fyrir því, að umsóknir um lán geti orðið afhentar öðrum en þeim, sem á að fjalla um þær og veita lánin. Að vísu er mönnum ekki gert skylt í frv., eins og það er orðað, að afhenda viðskiptabönkunum umsóknir sínar um lán, en vitanlega hefur það einhverja þýðingu, að þetta ákvæði er sett inn í frv. og hún getur engin önnur verið en sú, að það sé ætlazt til þess, að viðskiptabankarnir fái þessar umsóknir að meira eða minna leyti og fjalli um þær jákvætt eða neikvætt, áður en þær koma Fiskveiðasjóði í hendur.

Ég skal svo ljúka máli mínu að þessu sinni.