21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hélt, að ég yrði á eftir ráðh., en ég var þá settur á undan. Þeir ráða alltaf, hvenær þeir tala, þessir blessaðir ráðh. Ég verð bara að biðja um orðið aftur, ef ég þarf þess. Það eru aðeins örfá orð. Það er viðvíkjandi því, að hv. 7. landsk. þm. var að tala um það, að það væri engin breyting frá því, sem nú er, þó að það væru aðilar frá þremur bönkum, sem ættu að hafa þessa stjórn, vegna þess að framkvæmdastjóri Fiskveiðasjóðs hefði orðið að bera hlutina undir Útvegsbankann. Ég skal ekki segja um hvernig það er ég veit, að löglega höfðu þeir vald til að taka ákvarðanir, en það mun ekki hafa skapað mikla árekstra og ég hygg, að framkvæmdastjórinn núverandi hafi aldrei verið gerður ómyndugur að því, sem hann lofaði einstaklingum viðvíkjandi lánum eða greiðslufresti eða öðru, þannig að það þurfti engu að breyta þess vegna. En hvaða sönnun hefur hv. 7. landsk. þm. fyrir því, að það verði engin breyting? Hann hefur enga sönnun fyrir því. Það gefur auga leið, hvort það er ekki allt annað að hafa þrjá húsbændur eða einn. Og hvaða trygging væri fyrir því, hvaða menn eru settir í þetta? Ef t.d. Seðlabankanum dytti í hug að setja Björn Ólafs., Landsbankanum Árna Jónsson, þá væri ósköp skemmtilegt fyrir útgerðarmenn að koma þangað. Ég hélt satt að segja, að það væri nær fyrir þennan hv. þm. að reyna að taka svari útgerðarmanna og þeirra, sem annast um fiskvinnsluna, að þeir verði ekki gerðir að algerum bankaþrælum og skriðdýrum, því að það er nóg að þurfa að skríða fyrir einum aðila, þó að maður þurfi ekki að skríða fyrir þremur. Og ætli það verði auðveldara að þurfa að hlaupa milli þeirra allra, þessara herra og biðja þá auðmjúklega um lán eins og lítur út fyrir, að verði að gera til að hafa þá alla góða eða snúa sér bara til eins aðila. En ég get ekki fullyrt þetta, við vitum ekkert, ef til kæmi, sem vonandi verður aldrei, að þessir þrír bankar eigi að stjórna þessu, hverjir þetta verða, en til bóta verður það aldrei, því að það er gott eins og það er.

Ég hef ekkert á móti því, að Stofnlánadeildin sé sameinuð. Það eru allir guðsfegnir að losna við að koma inn í Landsbankann og Seðlabankann. En það þarf bara ekki að breyta öllu kerfinu fyrir því. Af hverju vilja þeir losna við Stofnlánadeildina? Það er af því, að hún er plága á þessum aðilum. Ég get sagt ykkur eina smásögu. Ég skuldaði rúmlega 200 þús. við Stofnlánadeildina af bát. Það féll í gjalddaga, eftir að ég var farinn norður í vor í maí. Ég fékk tilkynningu með rauðu letri dálitlu áður en það féll í gjalddaga, tilkynningu um gjalddagann og að þetta yrði ekki krafið aftur með svona venjulegum Seðlabankahroka. Ég hafði mikið að gera í vor og sumar og nennti ekki að hugsa um þetta. Það voru 20 þús., sem ég þurfti að borga, og ég tel það nú satt að segja enga peninga það var eitt af mínum fyrstu verkum, þegar ég kom suður í haust að rölta ofan í Seðlabanka til að borga þetta. En viti menn. Búið að biðja um uppboð á bátnum án þess að aðvara mig. Við grátum ekkert, þó að við yfirgefum svona stofnun. En við kærum okkur ekkert um að hafa neinn þriðja húsbónda frá þessari virðulegu stofnun. Ég fyrir mitt leyti vildi heldur vera laus við það, og ég hygg, að þeir, sem þurfa að taka lán, vilji heldur vita, hvert þeir eiga að snúa sér en vera að hlaupa á milli einhverra þriggja stofnana og biðja um fyrirgreiðslu með allri auðmýkt.

Það er allt í lagi að sameina þetta og ég skal ekki véfengja það, sem hv. 7. landsk. hélt fram um þetta, eða það atriði, að við viljum heldur skipta við Fiskveiðasjóðinn heldur en við Seðlabankann og Landsbankann. Það geng ég alveg inn á. Við viljum bara helzt hafa einn aðila, sem við getum snúið okkur til. En á þennan hátt ræður þingið engu um, hverjir þetta eru. Þingið ræður þó alltaf bankaráðsmönnunum og hefur vanalega lag á því að kjósa ekki neina sérstaka vitmenn í fjármálum. Þegar þingið velur menn, er nú sjaldan farið eftir því, að þetta séu neinir sérfræðingar, heldur að þeir komi sér vel við flokksstjórnirnar. En þeir eru ekkert illviljaðir menn og gera þess vegna ekkert illt af sér. En þetta er bara að fjarlægja öll áhrif frá þinginu og færa það inn í þetta blessaða bankakerfi, sem öllu á að ráða í þessu landi. Þingið ræður ekki genginu, það ræður ekki vöxtunum og ræður yfirleitt engu um fjármálin. Ríkisstj. ræður vafalaust, en þingið ræður orðið engu. Það er búið að taka öll völd af þinginu. Og viðvíkjandi þessu er þetta ekkert annað heldur en spor í þessa átt. Það eru alls staðar þessir fingur, þetta atræðisvald hjá Seðlabankanum, bankarnir verða að sitja og standa eins og Seðlabankinn vill. Ég spurði einn bankastjóra að því: Því neitið þið þessu ekki? Við getum það ekki. M.a. eru allar ávísanir sendar upp í Seðlabanka og hann greinir þetta allt í sundur. Annars hefur mér meira en dottið í hug að stofna banka til þess bara að neita að gútera þessa herra. Mér hefur dottið það í hug, og ef ég hefði tíma til þess, mundi ég gera það, og það mundu koma miklir peningar í þann sparisjóð, sem ég stofnaði. Ég mundi bara segja, að þeim kæmi þetta ekkert við. Ef ég væri ekki svona upptekinn við búskap og útgerð, mundi ég gera það. Svona kúgunarvald þarf að brjóta á bak aftur, en ekki gera það enn meira, eins og hv. 7. landsk. vill gera. Þetta er nefnilega að verða alveg óþolandi, þetta bankavald fyrir atvinnurekendurna og það á að stræka á þetta alveg eins og strækað var í vor, þegar þeir lækkuðu verðið á bræðslusíldinni.