21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Félmrh. ( Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem þegar er orðið. Það er þó ástæða til þess að taka fram þegar í upphafi og ítreka það, sem kom fram hjá hv. 7. landsk. þm., að frv. þessu eða einstökum ákvæðum þess er ekki og hefur aldrei verið hugsað, að þeim væri beint gegn einum starfsmanni eða trúnaðarmanni, sem unnið hefur að framkvæmdum og hefur verið í forsvari fyrir Fiskveiðasjóð undanfarið langt tímabil og hefur þá sérstaklega verið nefndur forstjóri sjóðsins. Það ber ekki að skilja eitt einasta ákvæði þessa frv. á þann veg og er, að ég vil segja, svona a.m.k. óhætt að hafa grunsemdir uppi um það, að það sé vísvitandi rangtúlkun á þessu frv. að ætla því slíkan tilgang.

Varðandi þau önnur atriði, sem hér hafa verið gerðar beinar fsp. um til mín, hefur hæstv. dómsmrh. svarað sumum þeirra rækilega og sér í lagi þá varðandi öll tildrög þessa máls og undirbúning þess, en töluverður hluti þess undirbúningsstarfs hafði verið unninn, þegar ég tók við þessu starfi mínu og er ekki ástæða til þess að rekja það öllu frekar. Ég læt nægja í því efni að vitna til ummæla hans um það, að Alþ. sjálft hafi samþykkt áskorun um þá athugun, sem birtist í þessu frv. og frv. ber að skoða sem niðurstöður af þeirri athugun og ákvörðun ríkisstj. raunar um að fara þá leið, sem það frv. boðar. Þar með tel ég, að bæði fsp. hv. 5. þm. Vestf. og 7. þm. Reykv. sé að því leyti svarað.

Ég get farið örfáum orðum frekar um það, ef hv. þm. telur það ekki fullnægjandi svar, þá er, eins og hæstv. dómsmrh. skýrði frá, engin forsenda fyrir flutningi máls, að einhver aðili hafi óskað eftir því. Það er ákvörðun ríkisstj. eftir viðræður við þessa aðila frá því í sumar að flytja þetta frv. í því formi, sem það er nú. Og þurfa engar óskir að koma um það frá neinum aðilum, til þess hlýtur ríkisstj. að hafa fullar ástæður, svo sem hún færir rök fyrir því í grg. frv.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. hafði það að meginuppistöðu í sinni ræðu hér áðan, að sem dæmi um þá aðför, sem þetta frv. væri að útvegsmönnum væri það m.a., að dráttarvextir væru hér ákveðnir 1/2% í frv. Samkv. þeim l., sem sjóðurinn starfar að meginefni til eftir, l. nr. 40 frá 1955, segir í 6. gr. þess frv., að dráttarvextir skulu vera 3/4%, þannig að ég fæ nú ekki betur séð en að hér sé um lækkun um 1/4% að ræða á þessari stóru meinsemd, sem

hv. þm. taldi þetta frv. vera. (Gripið fram í.) Það er rétt, það er fyrir hvern mánuð í l., það er alveg rétt. Hitt er hálfsmánaðarlega. það er töluverður skilsmunur á. Ég tel, að það sé rétt að hafa það, sem sannara reynist í því. Það er rétt, féð stendur fyrir hvern mánuð, en í frv. fyrir 1/2 mánuð, þannig að mismunurinn er nú samt sem áður ekki ýkja mikill. Þess vegna er ekki a.m.k. ástæða til að telja það vera rök fyrir því, að málið skuli ekki ná fram að ganga. Og enn fremur vitnaði hann til þess, að vextir væru lögfestir í l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Mér er tjáð af mönnum, sem hafa starfað við þá deild um langan tíma, að svo sé ekki, það ákvæði sé á valdi Seðlabankans svo sem um vexti annarra stofnlánadeilda. Ég held, að að öðru leyti hafi þeim efnisatriðum, sem fram hafa komið hér, verið svarað. Það er rétt um þetta mál sem um flest önnur, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan í sinni fyrri ræðu, að það orkaði mjög tvímælis að setja slík lög sem þessi. Ég vildi þá spyrja á móti: Hvaða nýsmíði er það, sem ekki orkar tvímælis hér? Ég hygg, að það sé í færri atriðum, sem ekki megi vefengja einstök atriði þess.

Ég vil svo að lokum aðeins segja þetta. Það er niðurstaða ríkisstj. eftir, ég vil segja, mjög vandlegan undirbúning þessa máls, að hér sé um verulegar endurbætur að ræða með lagasetningu þessa efnis, svo sem frv. þetta gerir ráð fyrir, og allur undirbúningur málsins til þessa hefur sannfært ríkisstj. um, að svo sé. Eðlilegt er, eins og hér hefur komið fram, að einstök atriði frv. fái athugun í n. og sé þar hægt að bæta eitthvað um og n. geti orðið sammála um það, er eðlilegt, að þau atriði séu vandlega könnuð, áður en frv. fær endanlega afgreiðslu.