21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég verð að segja það, að ég skil ekki orð míns gamla skólafélaga, hv. 5. þm. Austf., þegar hann er að lýsa þessu frv. og hver sé mestur ágalli þess: Hann segir, að það sé mestur ágalli þess, að það sé verið að blanda saman tvennu, rekstrarlánum eða lánveitingum til stofnframkvæmda og reksturs fyrirtækjanna. Og hann spyr: Af hverju hafa menn verið að greina á milli stofnlánasjóða og rekstrarlána? Þetta fer mjög illa saman, segir hann. Hann segir, að þeirri reglu hafi verið slegið fastri, að rétt væri að greina í sundur stofnlánasjóði og rekstrarlánasjóði banka. Ég þekki ekki, að þetta sé rétt. Ég veit ekki betur en stjórn Fiskveiðasjóðs hafi verið í höndum bankastjóra rekstrarbankans, viðskiptabankans, Útvegsbankans, og þó að hann sé forstjóri fyrir sjóðnum, er það ekki hann, sem veitir lánið. Og ég hef nokkurn kunnugleika af því. Ég veit, að hún hefur verið mikilsverð, hans forstaða fyrir sjóðnum. En mér er líka kunnugt um það, að iðulega hafa ákvarðanir um lánveitingar markazt af þeirri þekkingu, sem innan bankastjórnar Útvegsbankans var fyrir hendi á rekstrarafkomu fyrirtækja, þegar ákvörðun um stofnlán var tekin. Og það var auðvitað algengt, meðan ég var í stjórn Útvegsbankans, að forstjóri sjóðsins var einmitt að bera ráð sitt saman við okkur bankastjórana um rekstrarlánaafkomu fyrirtækjanna, sem höfðu leitað til Fiskveiðasjóðs og hann hafði til athugunar, áður en sjóðsstjórnarfundur væri haldinn, en sambandið á milli forstjórans og bankastjóranna var þar svo náið sem verða mátti, og alltaf voru að jafnaði haldnir þarna vikulegir fundir og þess á milli ýmist ræddum við við forstjórann, bankastjórarnir, eða forstjórinn við okkur bankastjórana í sambandi við stofnlánin og rekstrarlánin. Hér er ekkert nýtt verið að taka upp. Hvernig er það þá með stofnlánadeildina? Voru það ekki bankastjórar, sem veittu stofnlánin þar, bankastjórar rekstrarlánabanka? Hvernig er það í Búnaðarbankanum? Eru það ekki bankastjórar Búnaðarbankans, sem veita stofnlánin til stofnlánadeildarinnar í Búnaðarbankanum? Það er m.ö.o. í öllum þessum stofnlánasjóðum sjávarútvegs, Fiskveiðasjóðs, stofnlánadeildar og stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það eru alls staðar bankastjórar viðskiptabankanna, sem taka ákvarðanir um lánin. Hvernig er þá hægt að vera að tala hér um, að hér sé verið að taka upp einhverja nýja reglu og þetta sé mesti annmarkinn á frv., að það sé verið að blanda því saman, sem blandað hefur verið saman?

Ég skal ekki að öðru leyti fengja umr., en mér finnst ekki, að hv. þm., sem þekkja nú alveg til, og alveg sérstaklega þessi hv. þm., sem er þar að auki í bankaráði Útvegsbankans, þá mega menn ekki telja það mestu annmarka á frv., að það sé verið að taka upp einhverja reglu, sem ekki hafi þekkzt, þegar það liggur fyrir, að hún er og hefur verið notuð í öllum þessum stofnlánasjóðum, sem ég hef hér talað um.