21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði. Hið fyrra er það, að hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vestf., kom ekki inn í þingsalinn fyrr en verulega var liðið á mína framsöguræðu, og ég get ekki þreytt þingheim á að fara að rifja það upp, hvað ég sagði í henni, en læt nægja að vísa til hennar.

Hið síðara er það, að forstöðumaður Fiskveiðasjóðs er staddur hér í þinghúsinu um þessar mundir og hefur tjáð mér varðandi það atriði, sem nefnt var hér í umr. áðan, bæði af 5. þm. Norðurl. v. og síðan af mér, að það sé á dálitlum misskilningi byggt. Frv. um þetta ákvæði sé nákvæmlega staðfesting á því, sem er í gildi í dag. Það er gert ráð fyrir 1% dráttarvöxtum á mánuði í dag, en frv. gerir ráð fyrir 1/2% á hálfum mánuði. Þetta vildi ég, að kæmi fram, áður en þessari I. umr. lýkur.