25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Afstaða okkar fulltrúa Framsfl. í sjútvn. þessarar d. til frv. um Fiskveiðasjóð kemur fram í nál. á þskj. 537. Við leggjum þar aðallega til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Með það fyrir augum, að frv. það, sem fyrir liggur, um Fiskveiðasjóð Íslands verði endurskoðað milli þinga í samráði við stjórnir Fiskveiðasjóðs Íslands, Stofnlánadeildar sjávarútvegsins og Landssambands ísl. útvegsmanna, og þá m.a. að því stefnt að auka fjármagn til stofnlána í þágu sjávarútvegsins, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Til vara flytjum við nokkrar brtt. á sama þskj. Áður en ég vík að þessari till. okkar, langar mig almennt í örfáum orðum að lýsa yfir þeirri stefnu, sem ég tel, að eðlilegt sé, að fylgt verði um stofnlánamál sjávarútvegsins, en hún er sú, að ég er því alls ekki mótfallinn, að hinir ýmsu stofnlánasjóðir sjávarútvegsins séu sameinaðir í einn sjóð, eins og að vissu marki er stefnt að með þessu frv. Ég tel einmitt, að í því felist ýmislegt hagræði og sé á margan hátt eðlilegra en sú skipan málanna, sem nú er í gildi, þar sem segja má, að a.m.k. 3 stofnlánasjóðir séu til í landinu, er annist stofnlán til sjávarútvegsins. Ég viðurkenni, að með frv. þessu, sem aðallega miðar að því að sameina Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeild sjávarútvegsins, er stefnt í þessa áttina, og út af fyrir sig hef ég ekkert við því að segja. En ef fylgja á þeirri stefnu, eins og mér skilst af frv. og grg. þeirri, er því fylgir, að stefnt sé að, sakna ég þess, að frv. skuli ekki einnig vera látið ná til Fiskimálasjóðs, sem veitir stofnlán til vissra framkvæmda í sjávarútveginum. Ég tel enn fremur, að starfsemi stofnlánasjóðs sjávarútvegsins, þ.e.a.s. Fiskveiðasjóðsins, sé eðlilegt að gera sem sjálfstæðasta og skipa honum sérstaka stjórn, sem ekki sé of mikið bundin þeim viðskiptabönkum, sem annast lánveitingar, og þá fyrst og fremst reksturslán, til sjávarútvegsins. Ég vildi láta þetta koma fram áður en ég vík að þeirri till., sem við fulltrúar Framsfl. í hv. sjútvn. flytjum á þskj. 537. Aðalástæðan fyrir því, að við leggjum til, að frv. verði að þessu sinni afgr. með rökst. dagskrá, er sú, að eins og frv. ber með sér, á að auka mjög verulega verksvið Fiskveiðasjóðs frá því, sem er í gildandi l. Þetta á að gera með því að leggja niður Stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem lánað hefur stofnlán til vissra framkvæmda í sjávarútvegi. Nú á að leggja þá stofnlánadeild niður og leggja hana undir Fiskveiðasjóð og verður þá Fiskveiðasjóður að sjálfsögðu að taka við þeim verkefnum, sem Stofnlánadeildin hefur til þessa lánað út á. Nú er það svo, að Fiskveiðasjóður er rúml. 60 ára gömul stofnun, sem á verulegar eignir eða um rúmar 600 millj. kr. Einnig hefur Fiskveiðasjóður að gildandi l. árlegan, fastan tekjustofn, sem mun nú nema einhvers staðar á milli 100 og 200 millj. kr. Hins vegar er Stofnlánadeild sjávarútvegsins svo til eignalaus. Hrein eign hennar mun talin nema um 2 millj. kr., og hún hefur á engum föstum tekjustofni að byggja. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að þegar útvíkka á verksvið Fiskveiðasjóðs svo mikið sem frv. gerir ráð fyrir, er nauðsynlegt að afla Fiskveiðasjóði nýrra tekna til þess að standa undir þeim nýju verkefnum, sem leggja á á hann að frv. samþ. Þetta er ekki gert í frv. nema síður sé. Enginn nýr tekjustofn er þar settur inn, sem eykur tekjur sjóðsins, en hins vegar er niður felldur einn tekjustofn, sem verið hefur allt frá 1960, að ég held, þ.e.a.s. 2 millj. kr. fjárframlag á fjárl. ríkisins, sem með frv. á að fella niður. Við fulltrúar Framsfl. í sjútvn. teljum, að það sé eðlilegt að reyna til hlítar með frekari samningum og frekari viðræðum þeirra aðila, sem þetta mál varðar, að reyna að tryggja Fiskveiðasjóði auknar tekjur til þess að standa undir þessum auknu verkefnum. Á því byggjum við aðallega rökstuddu dagskrártill. okkar. Einnig er á það að líta, að nú er komið að seinustu dögum þessa þinghalds og mörg mál þarf að afgreiða í flýti, og við fáum ekki séð, að frestun fram á haustið, þar til næsta þinghald byrjar, geti skaðað málið á nokkurn hátt, en hins vegar gæfist ráðrúm til frekari athugunar á möguleikum frekari tekjuaukningar heldur en frv. þetta gerir ráð fyrir. Á þessu er rökstudda dagskráin byggð fyrst og fremst.

Um brtt. get ég verið stuttorður. Við fulltrúar flokksins stöndum ásamt öðrum nm. í sjútvn. að nokkrum till., sem fluttar eru af meiri hl. á þskj. 539. Þ.e.a.s., það er 1. stafl., 3. stafl., 6., 7. og 8. stafl. Að þessum breyt. stöndum við, en til viðbótar þeim flytjum við nokkrar brtt., sem að mestu leyti eru samhljóða þeim till., sem L.Í.Ú. hefur lagt til, að teknar verði upp við frv., auk þess sem aðrar minni háttar till. eru einnig fluttar af okkur samkv. ábendingu framkvæmdastjóra Fiskveiðasjóðs, Elíasar Halldórssonar.

1. brtt. er þannig, að við leggjum til, að við 1. gr. frv. á eftir orðunum „í eigu ríkisins“ komi: upphaflega stofnaður með l. nr. 52 10. nóv. 1905. Þessi breyt. skýrir sig sjálf og þarf ekki að ræða hana frekar.

2. brtt. okkar er við 4. gr. frv. Hún hljóðar þannig: Framlag úr ríkissjóði, það stendur 3 millj. kr., en hér hafa orðið mistök. Meiningin er, að brtt. geri ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi á fjárl. 2 millj. kr. á ári til Fiskveiðasjóðsins, eins og verið hefur, og bið ég hv. alþm. velvirðingar á þessum mistökum og vona, að þau komi ekki að sök.

3. brtt. okkar er við 7. gr. frv. Hún er um skipan stjórnar Fiskveiðasjóðs og hljóðar þannig, að í stað orðanna „tveimur fulltrúum Landsbanka Íslands og tveimur fulltrúum Útvegsbanka Íslands“ komi: einum fulltrúa Landsbanka Íslands, einum fulltrúa Útvegsbanka Íslands, einum fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna og einum fulltrúa A.S.Í.

Eins og frv. er úr garði gert, er gert ráð fyrir því, eins og ég hér las áðan, að viðskiptabankarnir tveir, Landsbanki Íslands og Útvegsbankinn, eigi tvo menn hvor í 5 manna stjórn Fiskveiðasjóðs. Við teljum eðlilegt, að þessu sé breytt á þann veg, að bankar þessir hafi aðeins 1 mann hvor í stjórninni, en fulltrúa frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og einum fulltrúa frá A.S.Í. verði bætt í stjórnina í stað þessara fulltrúa viðskiptabankanna. Við byggjum þetta á því, að aðaltekjustofn Fiskveiðasjóðs á að vera samkv. frv., eins og verið hefur hingað til, tekjur af útflutningsgjaldi, sem borgað er af útvegsmönnum og sjómönnum, og við teljum því eðlilegt, að fulltrúar frá þessum stéttum eigi setu í stjórn Fiskveiðasjóðs og hafi þar sitt að segja um það, hvernig hann er rekinn. Þetta er einnig í samræmi við þá skipan mála, sem nú mun vera um iðnlánasjóðinn, þar sem fulltrúar iðnaðarins eiga fulltrúa í sjóðsstjórninni.

4. brtt. okkar er við 10. gr., svo hljóðandi: Í stað orðanna „Útvegsbankinn og forstjóri sjóðsins skulu“ komi: Forstjóri sjóðsins skal.

Þetta er ekki stórvægileg breyting, en hún er tekin upp eftir till. frá forstjóra Fiskveiðasjóðs Íslands, Elíasi Halldórssyni, og finnst okkur þetta eðlilegt og í samræmi við þær óskir okkar, að starfsemi Fiskveiðasjóðsins verði gerð sem sjálfstæðust og óháðust starfsemi viðskiptabankanna.

5. brtt. okkar er við 13. gr. frv. Hún er þannig, að í stað orðanna „og lán út á skip 15 ár“ komi: lán út á skip 20 ár, vélakaupalán 8 ár og tækjakaupalán 5 ár.

Þessi till. er tekin beint upp úr till. frá L.Í.Ú., sem mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að vitna hér örlítið til, en þar segir:

„Hámarkslánstími verði lengdur. Lán út á skip verði 20 ár í stað 15 ár. Lánstími Fiskveiðasjóðs út á skip var til ársins 1960 20 ár, en með l. nr. 4 frá 1960 var ríkisstj. gefin heimild til þess að ákveða lánstíma sjóðsins og var hann þá styttur í 15 ár. Telja verður með öllu óeðlilegt, að lánstími út á fiskiskip sé styttri en 20 ár miðað við gæði þeirra skipa, sem byggð eru í dag. Auk þess er rekstrarafkoma fiskiskipaflotans þannig með fáum undantekningum, að hún leyfir ekki, að skip séu greidd að fullu á 15 árum. Vegna betri rekstraraðstöðu fyrstu 10 árin teljum vér, að til greina gæti komið, að afborganir yrðu miðaðar við, að 60% af lánsupphæðinni yrði greitt fyrstu 10 árin, en 40% á síðara 10 ára tímabilinu. Ekki er getið um lánstíma vegna lána til véla- og tækjakaupa, en hann mun hafa verið 5–8 ár til vélakaupa og 3 ár til tækjakaupa. Vér teljum, að lán til vélakaupa þurfi að vera til 8 ára og til tækjakaupa til 5 ára.“ Við tökum sem sagt þessa till. L.Í.Ú. alveg fyllilega upp í okkar brtt.

6. brtt. okkar er við 14. gr. frv., en við leggjum til, að hún verði felld niður.

7. brtt. okkar er við 15. gr. Við leggjum til, að gr. orðist svo: Vextir af lánum Fiskveiðasjóðs til skipa skulu vera 4%, en af öðrum lánum 51/2% og greiðast eftir á á gjalddögum afborgana. Stjórn sjóðsins ákveður gjalddaga lána við hina ýmsu lánaflokka. Dráttarvextir skulu vera 3/4% fyrir hvern mánuð, sem greiðsla dregst. Auk matskostnaðar og annars beins kostnaðar skulu lántakendur greiða 1/4% lántökugjald í varasjóð samkv. nánari ákvörðun sjóðsstjórnarinnar.

Það er eins um þessa brtt. að segja og þá, sem ég var að lýsa við 13. gr., að hún er tekin óbreytt upp úr till. eða aths. frá L.Í.Ú. Í þeim aths. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í l. nr. 40/1955 var ákveðið, að vextir af lánum Fiskveiðasjóðs til skipa skuli vera 4%, en af öðrum lánum 51/2%. Með heimild í l. nr. 4 frá 1960 ákvað ríkisstj., að vextir skyldu hækka í 61/2% og 8% og hafa þeir staðið óbreyttir síðan, þrátt fyrir breytingar á almennum vöxtum. Á aðalfundi L.Í.Ú. síðan 1960 hafa verið samþ. einróma óskir um, að vextir Fiskveiðasjóðs verði lækkaðir í það, sem þeir voru fyrir 1960, auk þess sem samþ. hefur verið, að lánstíminn verði lengdur í 20 ár eða í það sama og hann áður var. Eins og fyrr er vikið að, er helmingur af stofnfé Fiskveiðasjóðs framlag útvegsmanna. Sjáum vér ekki ástæðu til þess að skylda útvegsmenn til þess að greiða svo háa vexti, sem gilt hafa undanfarin ár, og óskum eindregið eftir því, að þeir verði lækkaðir í 4% eða 51/2%. Jafnframt viljum vér geta þess, að það er álit allra, sem til þekkja, að 21/2% vaxtamismunur hafi ekki mikil áhrif á eftirspurn eftir lánsfé frá Fiskveiðasjóði. Í frv. er gert ráð fyrir 1/2% dráttarvöxtum fyrir hvern byrjaðan hálfan mánuð. Við viljum leggja til, að í stað 1/2% komi 3/4% fyrir hvern mánuð. Við viljum vekja athygli á því, að dráttarvextir af lánum hjá Fiskveiðasjóði hafa í fæstum tilfellum þau áhrif, sem þeim er ætlað. Geti útvegsmenn ekki greitt afborgun af láni á réttum tíma, stafar það af því, að útgerðin hefur gengið illa og ekki er fyrir hendi fé til þess að greiða með afborganir af lánum. Í slíkum tilfellum er óttinn við að missa skipið vegna vanskila nægilegur eftirrekstur. Þeim, sem þannig er ástatt hjá, er því ókleift að greiða háa dráttarvexti og afleiðingarnar verða þær, að þeim reynist enn erfiðara að standa í skilum. Í þessu tilfelli verka því dráttarvextir eins og skattur á útgerðina. Enn fremur er gert ráð fyrir því í frv., að lántakendur greiði 1% lántökugjald og er þetta nýr tekjustofn fyrir Fiskveiðasjóð. Þessu gjaldi mótmælir stjórn L.Í.Ú. eindregið og leggur á það áherzlu, að þetta gjald verði fellt úr frv., en það mundi hafa numið 5.5 millj. kr. fyrir 4 s.l. ár samkv. upplýsingum í frv. um útlán Fiskveiðasjóðs.

Eins og ég gat um áðan, stöndum við fulltrúar Framsfl. að breyt. við 15. gr., sem getið er um í c-lið 5. gr. á þskj. 539, þ.e. um lántökugjaldið, sem ég var hér að lesa um áðan, og L.Í.Ú. leggur til, að fellt verði alveg niður. Samkomulag tókst í sjútvn. um að lækka það lántökugjald úr 1% í 1/4%, og getum við eftir atvikum fallizt á þábreyt.,enda samþykktum við hana og höfum því ekki tekið upp þennan lið í aths. L.Í.Ú. um vaxtakjörin, en að öllu öðru leyti höfum við fylgt till. þess.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta hér að þessu sinni.