25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég vil þakka n. fyrir þessar brtt., sem hún hefur komið með. Ég álít þær flestar til bóta, einkum hjá minni hl. flokkunum, og raunar má segja hjá meiri hl. líka, að þær séu til bóta, það sem þær ná, en þær ná bara of skammt. Ég skal ekki endurtaka það, sem frsm. nál. hafa sagt. Ég vil þó aðeins taka undir það, sem þeir hafa sagt viðvíkjandi stjórn Fiskveiðasjóðsins, að mér finnst þetta fyrirkomulag, sem er í frv., óþolandi. Þarna eiga 3 bankar að skipa stjórnina. þetta er hliðstæð stofnun við Búnaðarbankann, Iðnaðarbankann og það má segja Verzlunarbankann. Bændur borga visst skattgjald til Búnaðarbankans, útgerðarmenn gera það einnig til Fiskveiðasjóðsins. Sama er að segja um Iðnaðarbankann. Iðnaðarmenn borga þangað fjárhæðir árlega og ríkið leggur nokkurt fé til hans einnig og því á þetta ekki að vera hliðstæð stjórn? Það væri þá bezt að fara að hafa það þannig, að þessir stærri bankar veldu menn í stjórn hjá öllum þessum bönkum, það væri alveg hliðstætt. Það er alls ekki þolandi fyrir útgerðarmenn, að þeirra lánastofnun búi við allt annað skipulag heldur en þessir bankar og séu á allan hátt ófrjálsari. Það nær náttúrlega engri átt, eins og það, að það eigi að afhenda einhverjum bankanum þessar lánbeiðnir og annað slíkt. Ég tek undir það með hv. 5. þm. Austf., að þetta á að vera alveg sjálfstæð stofnun, og þannig á að velja stjórnina. Það er engin ástæða til annars. Við höfum sannarlega nóg af þessu bankavaldi, og ef það teygir fingurna í þessa lánastofnun, sem er einhver þýðingarmesta lánastofnunin, er alveg eins eðlilegt og réttlátt, að þessir herrar fari að stjórna öllum minni bönkunum, þingið hætti að velja í bankaráðin eða þeir aðilar, sem eiga þá að einhverju leyti. Hins vegar gæti ég vel gengið inn á það, að útvegsmenn ættu þarna fulltrúa og A.S.Í. einnig. Þessi lánastofnun kemur sjómönnum við alveg eins og útvegsmönnum. Þeir njóta þess, ef útgerðarmenn fá hagstæð lán til skipanna, þá eru möguleikar að láta þá fá betri kjör. Að öðru leyti fer ég ekki út í einstök atriði í þessum brtt.

Meiri hl. leggur til, að það sé hvorki ákveðið um vexti eða dráttarvexti. Seðlabankinn og ríkisstj. ráði þessu. Ég er þessu mótfallinn. Það er verið að afhenda allt vald í fjármálum í landinu í hendur Seðlabankans eða ríkisstj., bæði hvað snertir skráningu gengisins, vexti og lánin yfirleitt. Nú er þannig ástatt fyrir bönkunum, að í gegnum þetta haftakerfi eru þeir svo að segja allir alveg peningalausir og geta alls ekki sinnt þörfum viðskiptamanna sinna. Helzt eru það sennilega Búnaðarbankinn og Landsbankinn, sem hafa einhverja aura, þó að litlir séu. Í ofanálag á bindinguna í Seðlahankanum er tekið til fjárfestingarinnar ég held eitthvað 10% af aukningunni, og þetta þrengir þannig þeirra kosti, að þeir hafa ekki möguleika á að fullnægja svipað því eftirspurn víðskiptamannanna, jafnvel þó að það séu alveg tryggir viðskiptamenn. Ég tel þetta of langt gengið.

Þá er farið að styrkja sjávarútveginn, sennilega eru það 80 millj., sem varið er til þess að aðstoða hann í ár. Það er talið hagræðingargjald til fiskvinnslustöðvanna. Það má vera, að þetta hafi verið nauðsynlegt, en ég álít, að hægt hefði verið að fara aðrar leiðir. Það er dregið úr niðurgreiðslunum, því að fé er ekki fyrir hendi í ríkissjóðnum og er það fyrir það, að vísitalan hækkar. Raunar er ég sammála því, að það sé að ýmsu leyti rétt að hætta niðurgreiðslum á fiski, vegna þess að ég er sannfærður um það, að þær skýrslur hafa ekki allar verið réttar. Það getur einnig verið réttlætanlegt að hætta niðurgreiðslum á smjörlíki, en þá á bara að auka niðurgreiðslur á öðrum vörum, þannig að vísitalan hefði ekki þurft að hækka þess vegna. Ég get bara bent á einn lið, sem hefði verið hægt að létta af útgerðinni í stað þess að styrkja hana með hagræðingargjaldinu og það er launaskatturinn. Það sagði mér einn stærsti útgerðarmaður og fiskverkandi hér við Faxaflóa, að það væri svipuð upphæð, sem hann þyrfti að borga í launaskatt, eins og hagræðingargjaldið væri, sem hann fékk. Ríkisstj. hefði getað útvegað þetta fé með því að selja vísitölubréf eða útvega lán á annan hátt, en ekki að skattleggja útgerðarmenn til þess að standa undir húsbyggingum eða lánum til þeirra. Það ætti að vera hlutverk allra annarra frekar heldur en þeirra.

Þá eru vextirnir. Ef þeir væru lækkaðir eitthvað, mundi það létta á útgerðinni. Þá er t.d. greitt orlof á hlut. Bæði hefur L. Í. Ú. hreyft því, að það væri ranglátt og eins hefur verið talað um það bæði af mér og öðrum hér. Ég er ekkert á móti orlofi, en að borga það á hæstu hlutina er eins og hver önnur fjarstæða, þannig að skipstjóra, sem hefur 1 millj. kr. í tekjur á ári, þarf útgerðarmaðurinn að borga 70 þús. kr. í orlofspeninga. Svo er megnið af þessu fé tekið, eða 60%, af bæjarfélögum og ríki, þannig að þarna er beinn skattur til opinberra aðila.

Þá er t.d. eitt atriði í l. og það er það að greiða hlut, ef t.d. einhver yfirmaður á skipi verður veikur, þarf hann að fá meira heldur en trygginguna. Það þarf að greiða honum hlut líka og ef þetta er skipstjórinn með háan hlut, getur þetta orðið ónotaleg upphæð fyrir útgerðina.

Allt þetta gæti ríkisstj. lagað, ef hún vildi, með breyttri löggjöf. Ef ýmsir svona hlutir væru gerðir til hagræðingar við útgerðina, þyrftum við ekki á beinum styrkjum að halda. Það eina, sem á þyrfti að halda, væri þá einhver aðstoð við línuútgerð, til að hún leggist ekki alveg niður og það væri hægt að gera þetta, án þess að verðbólgan ykist eins og nú er með því að taka þessar niðurgreiðslur af og láta vísitöluna hækka. Þetta er fjármálaleg glópska, sem þarna er verið að framkvæma, og svo á að fela þessum mönnum, sem ráða fjármálum í landinu, sem við skulum segja, að sé Seðlabankinn, að halda áfram að framkvæma meiri glópsku. Sannleikurinn er sá í þessum kjaramálum, að þá er ekki nema tvennt til. Það er annaðhvort að semja um þau eða þá að lögbjóða þau. En nú er það þannig, að löggjafarvaldið er að grípa inn í með viss lagaákvæði, en svo eru aðrir aðilar að semja, þannig að úr þessu verði meiri og minni vitleysa. Þannig er t.d. með vinnuna á togurunum. Það eru lögákveðin vaktaskiptin og allt slíkt og það er engu hægt að breyta. Þetta ætti bara að vera samningsatriði og það ætti að vera samkomulag á milli sjómannasamtakanna og togaraeigendanna, hvernig væri hægt að hagræða vinnunni, þannig að togararnir bæru sig betur, og væri þá um leið hægt að láta háseta og yfirmenn hafa betri kjör. Það horfir til vandræða. Þeir hafa ekki nægilega góð kjör, til þess að þangað veljist góðir menn, og þeir verða að sæta því að taka þá sem eru lélegri, en bátarnir hafa alla beztu mennina, svo að það er ekki von, að togararnir beri sig vel.

Annars er nú þannig með þessa ríkisstj., að hún er yfirleitt ekki við, þagar verið er að tala um svona mál, og mér finnst það dálítið skrýtið að koma með jafnmikið mál og þetta í þinglokin og svo eru ráðh. ekki við, þegar verið er að ræða það. Annars veit ég ekki, hvort það er alvara ríkisstj. að hespa þetta mál í gegn nú, en illa er það undirbúið.

Það er sannleikurinn, að ef við ætlum að koma málum vel fyrir, atvinnumálum, þá er ekki nema tvennt til. Það verður annaðhvort að vera samningsatriði, þannig að þessir aðilar geti komið sér saman um það, að þeim sé komið sem bezt fyrir, þannig að þeir geti báðir unað því, bæði launþegarnir og vinnuveitendur, eða þá að lögbjóða yfirleitt launin í þessu landi. Ég sé ekki, að það sé yfirleitt mikið unnið við það að binda í löggjöf ýmis atriði viðvíkjandi þessu, sem auðvelt er að semja um. En ekkert af þessu fæst lagað. Ég kom með þál. í vetur um það að lækka dráttarvexti ofan í 3/4 á mánuði eða 9% yfir árið. Þeir hafa tekið undir þetta, minni hl. nm., og ég er þeim þakklátur fyrir það og þeir hafa gengið lengra. Þeir hafa komið með mikla lækkun á föstum vöxtum í Fiskveiðasjóði. Ég leyfði mér nú ekki að fara fram á svona mikið. Satt að segja gerði ég mér nú engar vonir um, að því fáist framgengt að lækka fastavexti ofan í 4% og dráttarvexti ofan í 1/2 á mánuði og ef það fæst, hef ég ekkert nema gott um það að segja. En ég hefði nú viljað fara hóflegar í sakirnar og fara á 5–6% með föstu vextina og þá ofan í 3/4 með hina. En ef þessar till. verða allar felldar, geri ég ráð fyrir, að ég og kannske einhverjir með mér, ef ég get fengið einhvern til þess, komi með brtt. við 3. umr. um hóflegri vaxtalækkun eða minni, og það verður þá að reyna á það, hve vel stjórnarliðar eru handjárnaðir í þessum efnum. Satt að segja finnst mér kjarninn ekki mikill hjá þeim, að þeir skuli ekki leyfa sér að koma með till. um einhverja ákveðna vexti í þessari lánastofnun, hún er ekki það þýðingarlítil og það er a.m.k. þannig í Búnaðarbankanum, að það er ákveðið 61/2% þar í l. Því má þá ekki ákveða í l. líka um Fiskveiðasjóðinn? Það reynir þá á, hve vel þeir eru handjárnaðir, því að ég geri ráð fyrir, að við þessi atriði verði haft nafnakall og ég er sannfærður um það, að í liði stjórnarliða eru margir menn, sem í einlægni vilja útveginum vel, og það er þá bara af því að þeir fá ekki að gera það, sem þeir hafa löngun til, ef þeir eru ekki með einhverri tilslökun á okurvöxtum, eins og dráttarvextirnir eru nú, þessi 12% á mánuði og í viðbót við það á að reikna brot úr mánuði, hvað lítið, sem það er, eins og fullan mánuð.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta. Ég býst við að ykkur sé það ljóst í aðalatriðum, enda lætur sjútvmrh., sem hefur með þessi mál að gera, ekki svo lítið að vera við, þannig að ég sé ekki að það sé til neins að halda langa ræðu um þetta.