03.05.1966
Efri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki átt þess kost að kynna mér rækilega þetta frv. og, enda þótt það sé sitt hvað við það að athuga, mun ég ekki gera neinar aths. við það, en það er eitt atriði, sem mig langaði þó til að kæmi hér fram undir þessum umr. Það er í sambandi við það, að Fiskveiðasjóður lánar út á erlendu skipin og lætur andvirði lánanna inn á innistæðureikning, en lántakendurnir fá það ekki til ráðstöfunar, heldur greiðir Fiskveiðasjóður það svo aftur á gjalddögum hinna erlendu lána. Í sambandi við þetta hefur mér alltaf fundizt óréttlátur sá kostnaðarauki, sem kemur fram í þessum krókaleiðum og lendir með fullum þunga á þeim mönnum eða aðilum, sem kaupa bátana. Þar á ég við, að þegar bátur er keyptur erlendis frá, þá verður að skaffa bankaábyrgð fyrir láninu, sem tekið er erlendis. Venjulega er það lán með lakari kjörum, hærri vöxtum heldur en það lán eða þeir vextir nema, sem Fiskveiðasjóður greiðir af innstæðunni hverju sinni. Fiskveiðasjóður greiðir vexti af þessum innstæðum, jafnháa og útlánsvextir eru hjá Fiskveiðasjóði hverju sinni. Flestir erlendu bátarnir eru keyptir með frá 61/2 upp í 8% vöxtum á þeim lánum, sem tekin eru úti. En mér hefði fundizt eðlilegast, að það væri ekki verið að fara þá krókaleið að láta skaffa bankaábyrgð eða láta viðkomandi viðskiptamenn útvega bankaábyrgð, heldur að Fiskveiðasjóður tæki erlendu lánin og þessi krókaleið yrði ekki farin, vegna þess að þetta kostar hvern þann, sem kaupir bát, mörg hundruð þúsund krónur. Fyrst er tekið ábyrgðargjald af láni, sem skipasmíðastöðin skaffar úti, og hún leggur það á kaupverð bátsins, síðan þarf viðskiptabankinn hér heima að taka ábyrgðargjald af viðskiptamanninum, og þegar bátar kosta þetta frá 12 og upp í 20 milljónir, þá nemur þetta allverulegum upphæðum, áður en erlenda lánið er greitt. Mér hefur alltaf fundizt þetta óréttlátt, og ég vildi ekki láta hjá líða að koma þessu sjónarmiði á framfæri, því að það segir sig sjálft, að það munar um þennan skatt.

Annað atriði er líka, sem ég vildi láta koma fram og það er í sambandi við lánstímann. Þess eru dæmi, að menn hafi þurft að borga af eða það hefur verið ætlazt til þess, að menn borguðu af fiskveiðasjóðslánum, áður en ár er liðið frá því að lánið er veitt. Ef lán er veitt t.d. í maímánuði, þá er held ég ætlazt til þess, að fyrsti gjalddaginn sé 1. nóv., og það er yfirleitt fráleitt með þessi fjárfestingarlán, að menn þurfi að vera að borga af þeim svo fljótt sem raun ber vitni um, því að stofnkostnaðurinn er svo mikill, að þeir hafa varla nokkur tök á að gera þetta.

Ég hefði óskað þess, þótt ekki sé tækifæri til að koma þeim breyt. fram núna, að það yrði tekið til athugunar, að fyrsta afborgunin af þessum lánum yrði aldrei innt af hendi fyrr en ári eftir að lánsskjölin hafa verið undirrituð, því að annars er í raun og veru verið að stytta lánstímann.

Ég vildi aðeins bara koma þessum aths. á framfæri undir þessari umr.