28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

194. mál, ábyrgð á láni fyrir Flugfélag Íslands til kaupa á millilandaflugvél

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þessu frv. var vísað til fjhn. til athugunar. Í lagafrv. þessu felst einkum tvennt. Það er í fyrsta lagi að heimila ríkisstj. að ábyrgjast lán fyrir Flugfélag Íslands h.f. til kaupa á millilandaflugvél, og má ábyrgðin vera allt að 80% af kaupverði flugvélar með nauðsynlegum varahlutum og tækjum, þó eigi hærri fjárhæð en 238 millj. kr. Í öðru lagi er fjmrh. heimilað að auka núverandi hlutafjáreign ríkissjóðs í Flugfélagi Íslands h.f. jafnmikið og nemur fyrirhugaðri heildaraukningu hlutafjárins.

Eins og kunnugt er rekur Flugfélag Íslands bæði innanlandsflug og millilandaflug. Það á nú 3 millilandaflugvélar, sem allar eru orðnar mjög gamlar, ég hygg, að þær yngstu séu 9 ára gamlar. Það er þess vegna orðin mjög brýn þörf fyrir Flugfélagið að endurnýja flugvélakost sinn á millilandaleiðum. Þá hefur helzt komið til álita af hálfu forráðamanna Flugfélagsins að kaupa þotu af gerðinni Boeing-727, en hún mun kosta með öllu tilheyrandi tæpar 300 millj. kr. Það mun vera ráðgert, að ef úr þessum kaupum verður, komi þessi flugvél til landsins næsta vor og byrji flugferðir í maí mánuði 1967, en þá verði um leið seldar 2 af 3 millilandaflugvélum Flugfélagsins. Eins og allir vita, rekur Flugfélagið mjög mikilsverða samgönguþjónustu innanlands með sínu innanlandsflugi hér á mörgum flugleiðum. Reynslan hefur nú orðið sú, að fjárhagsafkoman af innanlandsfluginu hefur verið nokkuð erfið, en Flugfélagið hefur getað styrkt aðstöðu sína með hagnaði á utanlandsfluginu hin síðari ár. Það er þess vegna m.a. vegna innanlandsflugsins og til þess almennt að styrkja fjárhagsaðstöðu og rekstrarafkomu Flugfélagsins nauðsynlegt, að því gefist kostur á að efla millilandaflugið.

Eins og hæstv. fjmrh. gat um við l. umr. þessa máls, er hér um heimild til mjög mikillar fjárskuldbindingar að ræða, þar sem eru 238 millj. kr., og verður auðvitað að búa vel um hnútana, að ríkisábyrgð sé ekki veitt, nema það séu miklar tryggingar fyrir því, að þetta lán, sem á að ábyrgjast, verði örugglega greitt, þannig að ekki þurfi að bitna á ríkissjóði eða Ríkisábyrgðasjóði. Það er þó ljóst mál, að rekstur flugfélags til millilandaflugs er nokkuð áhættusöm starfsemi, þar sem erfitt er að vera alveg öruggur fyrir fram um það, að fjárfesting í nýjum flugvélum sé skynsamleg og muni bera tilætlaðan árangur.

Það var auðvitað enginn kostur þess fyrir fjhn. nú á síðustu og annasömustu dögum þingsins að kanna þetta til hlítar. N. fékk þó í sínar hendur allítarlega rekstrarreikninga og rekstraráætlun, sem Flugfélagið hafði látið gera, þ.e. rekstrarreikninga frá árinu 1963 og síðan rekstraráætlun fram í tímann allt til ársins 1975, miðað við að þessi Boeing-þota verði keypt á næsta vori, eins og ég hef greint frá. Þessi rekstraráætlun mun hafa verið send Seðlabankanum, og það mun í ráði að senda hana einnig til Export-lmport bankans í Washington, en þar mun Flugfélagið leita eftir lántöku til flugvélakaupanna. Ég hitti að máli framkvstj. Flugfélagsins og aðalendurskoðanda, sem skýrðu þessa áætlun út fyrir mér, og þó að það þurfi náttúrlega mikla sérþekkingu til þess að botna í þessu, verður nú ekki annað sjáanlegt af þessari áætlun en að hún sé gerð af fullri varúð og það sé rík ástæða til að ætla, að þessi kaup á millilandaflugvél séu skynsamleg fjárfesting. En þar sem hér í þessu frv. er aðeins um heimild að ræða fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast þessi lán, verður auðvitað ríkisstj. og hæstv. fjmrh. að ganga betur úr skugga um, að óhætt sé og eðlilegt að veita þessa ríkisábyrgð, þegar þar að kemur, að það liggur ljósar fyrir, á hvern hátt þess verður þörf.

Þá taldi n. eðlilegt, að jafnhliða heimildinni fyrir ríkisábyrgðinni væri fjmrh. heimilt að auka hlutafjáreign ríkisins í Flugfélagi Íslands h.f., en ríkissjóður á nú 13% af hlutafé félagsins, en eins og kemur fram í aths. við frv., þá er eitt með öðru, sem á að gera til þess að styðja þessi flugvélakaup, að auka hlutafé Flugfélags Íslands um 40 millj. kr., og er sjálfsagt og eðlilegt, að ríkissjóður haldi sínum hluta í þessu félagi, sem er auðvitað, eins og fram hefur komið, mjög nauðsynlegt þjónustufyrirtæki.

N. hefur sem sagt athugað þetta frv., eftir því sem föng voru á á stuttum tíma, og leggur einróma til, að frv. verði samþ.