29.04.1966
Neðri deild: 81. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

7. mál, atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér er það ljóst, að það frv., sem var afgreitt hér í gær um menntun vélstjóra og þetta frv., sem liggur hér fyrir, eru mjög samtvinnuð, og fyrst annað frv. fór í gegn, er eðlilegt, að þetta frv. fari einnig í gegn, því að annars kemur þar gloppa frá því sem nú er, ef við eigum, eftir að vera búnir að setja nýja löggjöf um menntun vélstjóra, að búa við óbreytt atvinnuréttindi. Hins vegar vil ég ekki láta hjá líða að láta í ljós óánægju mína yfir því í fyrsta lagi, hvernig sú n., sem þetta frv. og bæði frv. samdi, hvernig hún var skipuð. Í þessari n. átti enginn maður sæti frá útveginum eða frá þeim, sem eiga að borga hlutina, en að vísu skal það viðurkennt, að þessi n. hafði samráð við n. frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, en tók ekki nema að mjög litlu leyti tillit til þeirra skoðana, sem þar komu fram. Ég tel það fráleitt, þegar slík löggjöf sem þessi er endurskoðuð, að ekki skuli eiga sæti í þeirri n., sem á að endurskoða löggjöfina, bæði fulltrúar frá sérhagsmunasamtökunum, stéttarsamtökunum og sömuleiðis frá útvegsmönnum, og þá hefði kannske náðst betra samkomulag en í raun og veru er fyrir þessu frv.

Á þessu stigi ætla ég ekki að þvælast fyrir samþykkt frv. En ég ætla að lýsa því hér með yfir, að ég hygg á það að hausti að semja víðtækar brtt. aftur um atvinnuréttindi vélstjóra, og ég ætla að minna á það, að fyrir tveimur árum fluttum við þm. úr öllum flokkum frv. um breytingu á l. um atvinnuréttindi vélstjóra, og í því frv. gerðum við ráð fyrir því að hækka þau réttindi, sem núna eru að 400 hestöflum í 600 hestöfl, og ég hygg, að með því að leggja slíkt frv. fram, sé að vissu marki lýst yfir ákveðnum vilja Alþ. að stíga þetta spor, en þessi hv. n., sem fékk þetta mál til umráða, fékkst ekki til þess að sinna þessu atriði nema að örlitlu leyti eða hækka réttindin úr 400 hestöflum í 500 hestöfl. Ég vil líka láta bæði hæstv. ráðh. og aðra vita það, að það er ekki sameiginlegt áhugamál vélstjórastéttarinnar, hvernig þetta frv. ber að og hvernig það er lagt fram, því að það er mikil óánægja hjá hinum minni vélstjórafélögum úti um land, og ég hef hér í fórum mínum bréf út af því, sem ég kom á framfæri við formann hæstv. n. í Ed. En ég sé það, að n. hefur lagt til, að frv. færi óbreytt í gegnum þingið, og í umsögn stórvélstjóra segir, að það geti raskað öllu jafnvægi, ef stafkrók sé breytt í frv. En af þeirri ástæðu, að þingi er að ljúka, ætla ég ekki að flytja brtt. við þetta frv., en mun, eins og ég sagði áðan, beita mér fyrir því, að það verði flutt frv. á komandi hausti um breytingar á þessum l. um atvinnuréttindi vélstjóra. Og það standa bæði útvegsmenn að slíkum breytingum og stór hópur hinna minni vélstjóra, því að það er hvergi nóg gert af því að taka tillit til þeirra manna, sem hafa stundað þessi störf í fjöldamörg ár, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að menn, sem eru komnir fram yfir miðjan aldur, setjist á skólabekk hér í Reykjavík, enda eru þeir eins vel færir um að sinna og gegna sínu starfi áfram, þó að um stærri vélar sé að ræða, og þeir, sem setjast á skólabekk án þess að ég vilji á nokkurn hátt rýra gildi menntunar.