28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

188. mál, landshöfn í Þorlákshöfn

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í sambandi við þær tvær ræður hv. þm., sem haldnar hafa verið frá framsöguræðu minni, vil ég aðeins taka það fram varðandi ræðu fyrri þm., hv. 3. þm. Suðurl. (SJJ), að þó að ég nefndi það sem eina af ástæðunum, eru það alls ekki nein höfuðrök, að Vestmanneyingar gætu e.t.v. ekki bætt á sig allri þeirri þjónustu, sem sístækkandi fiskveiðifloti hlyti að krefjast á ókomnum árum, það eru engin grundvallarrök út af fyrir sig fyrir hafnargerðinni í Þorlákshöfn, heldur hitt, að það hefur sýnt sig, eins og ég lagði nú höfuðáherzlu á í minni ræðu, að á þeim litlu framkvæmdum, sem þegar hafa átt sér stað í Þorlákshöfn, hefur verið full þörf og að framhaldsframkvæmdir munu ekki eiga sér stað í þessari höfn, ef aðstoð ríkisins í formi landshafnaraðstoðar kemur ekki til greina. Það er því um það að velja að hafa höfnina þannig hálfgerða, eins og hún er nú, eða að ríkið komi í ríkari mæli til aðstoðar þessari nauðsynlegu höfn en gert er með almennri hafnaraðstoð. Ég vænti þess, að þetta dugi sem svar við aths. hv. þm.

Varðandi þá fsp., sem hv. 2. þm. Vestf. (SB) beindi til mín sérstaklega og taldi að gæti varðað afstöðu sína til afgreiðslu þessa frv., þ.e.a.s. þá yfirlýsingu mína, sem ég gaf í framsöguræðunni, að hugað væri að lúkningu endurskoðunar á hafnarlögunum, sem yfir hefur staðið of lengi, þá skal ég taka undir það með hv. þm., en það hefur nú reynzt ýmsum erfiðleikum háð að fá samstöðu um þá endurskoðun og þó kannske öllu frekar um útvegun þess fjármagns, sem nauðsynlegt er til þeirra framkvæmda, sem allir eru sammála um, að nauðsynlegar séu. Ég vil lýsa því yfir sem skoðun minni, að að því mun verða stefnt, að niðurstaða þessarar endurskoðunar liggi fyrir í frv.-formi til afgreiðslu á næsta Alþ.