29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Árið 1964, 21. maí, voru samþ. l. hér á hv. Alþ. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Skv. l. gr. þeirra l. er svo fyrir mælt, að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er reisi og reki verksmiðju við Mývatn og Námaskarð í Suður-Þingeyjarsýslu, og til þess voru í l. ríkisstj. veittar heimildir ýmiss konar, sumar takmarkaðar, aðrar opnar, eftir því sem þurfa þótti og við átti, eins og þá horfði í þessum málum. M.a. var ríkisstj. heimilað að taka þátt í stofnun sérstaks hlutafélags til bráðabirgða, áður en framleiðslufélagið skyldi stofnað, og skyldi það bráðabirgðafélag annast skipulagningu kísilgúrverksmiðjunnar og annan undirbúning að byggingu og rekstri hennar, enda skyldi stefnt að því, að framleiðslufélagið tæki við af slíku undirbúningsfélagi.

Er l. voru sett, var gengið út frá því, að í framleiðslufélaginu og undirbúningsfélaginu einnig yrði þátttakandi hollenzka fyrirtækið AIME, og var frá því skýrt allítarlega í grg. frv. að l., þótt nafn fyrirtækisins væri ekki tekið inn í l. sjálf, enda var ekki búið að fullganga frá samningum við það fyrirtæki. Í l. var heimilað, að framleiðslufélagið mætti festa kaup á hlutabréfum í erlendu hlutafélagi, sem stofnað kynni að verða til sölu og dreifingar á framleiðslu kísilgúrverksmiðjunnar erlendis. Rætt var þá um, að það félag mundi hafa heimili í Hollandi.

Ég tel mér skylt að fara fljótt yfir sögu vegna þess, hve hv. Alþ. hefur nú orðið nauman tíma til starfa. Undirbúningsfélagið var stofnað af ríkinu og AIME.

Var því gefið nafnið Kísiliðjan h. f. Hóf það undirbúningsstörfin, eins og til var ætlazt. Fljótlega kom í ljós, að hollenzka fyrirtækið taldi sig tæplega hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir fyrirtækinu, svo að vel væri, enda bundið öðrum verkefnum. Og annað, sem verra var í þessu sambandi, var það, að AIME gat ekki tryggt á viðunandi, hvað þá æskilegan hátt, sölu framleiðsluvörunnar, þ.e. kísilgúrsins. AIME hafði að vísu sölukerfi með ýmsar annars konar vörur, en það kerfi var ekki líklegt til að geta leyst söluvandann með kísilgúrinn, því að sala þeirrar vöru er sögð mjög bundin í höndum sterkra fyrirtækja og óárennilegt fyrir byrjanda að komast með nýtt vörumerki inn á þann markað, án samvinnu við sterkan aðila, sem þar er fyrir.

Í fáum orðum sagt. AlME vill draga sig til baka og hefur dregið sig til baka. Teknar voru, þegar þetta kom í ljós, upp í staðinn viðræður við bandaríska fyrirtækið Johns Manville, sem er mikill framleiðandi kísilgúrs og hefur mikið og sterkt sölukerfi, sem selur m.a., að því er talið er, 65% af öllum kísilgúr, sem notaður er í Evrópu, auk þess fjársterkt fyrirtæki, sem nýtur mikillar tiltrúar. Virtist Johns Manville strax hafa talsverðan áhuga á aðild að málinu, en taldi sig hins vegar verða að láta rækilega rannsaka og prófa hráefnið og öll skilyrði til vinnslu þess, svo og áætlanir um rekstur væntanlegs fyrirtækis. Athuganir þessar voru talsvert fyrirhafnarsamar og tímafrekar, af því að hvergi í heiminum hefur hráefnið fyrr verið tekið úr vatni, heldur úr þurrum jarðlögum eða uppþornuðum vatnsbotnum. Lengst vafðist fyrir, hvernig væri á hagkvæman hátt hægt að ná vatninu úr hráefninu og járni, sem það taldist innihalda í of miklum mæli. Nú teljast ráð til þessa fundin, og nú hefur Johns Manville ákveðið sig til þátttöku, ef um semst. Dagana 14. og 15. þ.m. voru hér í Reykjavík fulltrúar fyrirtækisins til þess að ræða við fulltrúa ríkisstj. um þetta og meginatriði væntanlegra samninga, og varð samkomulag um aðalatriðin, þótt ekki væru þau sett upp í samningsform. Bæði hinir erlendu aðilar og hinir íslenzku höfðu fyrirvara um, að umbjóðendur samþykktu, og veit ég ekki betur en að tilkynning sé komin um, að Johns Manville fallist fyrir sítt leyti á umrædd meginatriði, en vill hins vegar ekki ganga til samstarfsins, fyrr en Alþ. hafi veitt mótaðilanum, þ.e. ríkisstj., fullt umboð til að undirrita. Að nokkru leyti felst slíkt umboð í l. frá 1964, en að því er á skortir, að það sé fullt, er þess leitað með breytingum og viðbótum þeim, sem felast í frv. því til breyt. á l., sem hér liggur fyrir.

Undirbúningsfélagið Kísiliðjan h.f. hefur orðið að hafast allmikið að með undirbúningsstarfi. Kaupa varð dæluskip til að sannprófa þann hluta hinna verklegu framkvæmda. Koma varð upp dælustöð og röraleiðslum frá henni 3 km leið til verksmiðjustæðisins til þess að sannprófa, hvort hráefnið þyldi slíka meðferð. Enn fremur varð að kaupa svokallaðar skiljur til þess að aðgreina hráefnið. Rétt þótti að koma upp húsi fyrir skrifstofuaðstöðu og fyrir mötuneyti. Er því húsi að verða lokið, svo að sú aðstaða verður til reiðu í sumar, eins og nauðsynlegt er, ef ekki á að slitna framkvæmdaþráðurinn. Búið er að jafna verksmiðjugrunninn. Mikil verkfræðileg vinna hefur átt sér stað við undirbúning sjálfrar verksmiðjunnar, fyrirkomulag hennar og vélakost. Búið er að tryggja með pöntun kaup á öllum helztu nauðsynlegum vélum til verksmiðjunnar, eftir ítarlega athugun á því, hvað hentar bezt og fæst jafnframt með beztu kjörum.

Allt krefst þetta áframhalds, ef að gagni á að verða, enda hefur alltaf verið gengið út frá því, að verksmiðjan yrði reist, svo sem l. frá 1964 mæla fyrir um, þó að AlME skærist úr leik. Vonir hafa jafnframt verið um þátttöku Johns Manville, þó að vissu hafi skort um, að þeir tækju þá ákvörðun með aðgengilegum skilmálum fyrir okkur þangað til nú, að svo er komið.

Fyrir mitt leyti álít ég málinu miklu betur borgið með aðild Johns Manville en aðild AIME. Johns Manville hefur yfir mikilli þekkingu að ráða, að því er við kemur framleiðslu kísilgúrs, en sú framleiðsla krefst mikillar nákvæmni. Það fyrirtæki er miklu öruggari seljandi og hefur í þeim efnum hina fullkomnustu aðstöðu. Það fyrirtæki er fjársterkt og hefur lofað að lána framleiðslufélaginu 800 þús. dollara eða yfir 30 millj. ísl. kr. tryggingarlaust, og má endurgreiðsla annarra stofnskulda ganga á undan skilum á þeirri upphæð. Rannsóknir þær, sem Johns Manville hefur látið fram fara á hráefninu,og áætlanir þær, sem þeir hafa tekið þátt í að gera um arðvænleik hinnar íslenzku kísilgúrvinnslu, tel ég, að séu mjög þýðingarmiklar. Vegna þeirra rannsókna og áætlana er öryggislegra en ella hefði verið að ráðast í kísilgúrvinnsluna.

Þetta er í sjálfu sér ekki stórfyrirtæki. Stofnkostnaður eitthvað í kringum 150 millj. kr. eftir því, sem áætlað er, en lítur hins vegar út fyrir að geta orðið allvel arðgæft, þegar það er komið í fullan gang.

Gert var ráð fyrir því 1964, þegar gildandi l. voru sett, að stofnað yrði erlent sölufélag úti í Hollandi á vegum AIME til að selja og dreifa framleiðslunni frá íslenzku verksmiðjunni, eins og ég minntist á áðan. Nú er talað um, að Johns Manville komi upp sölufélagi, sem hafi heimili hérlendis og annist söluna á kísilgúrnum erlendis sem umboðssali. Einn maður íslenzkur sé kjörinn í stjórnina af Íslands hálfu til þess að fylgjast með framkvæmdum umboðssölunnar og annar hvor maður af þeim, sem útlendingarnir kjósa í stjórnina sé íslenzkur ríkisborgari, svo að meiri hlutinn sé Íslendingar. Félagið lúti íslenzkum lögum. Leitað er heimildar með frv. fyrir þessari breyt. að því er snertir sölufélagið. Það er eingöngu vegna óska frá okkur, sem að samningagrundvellinum höfum unnið, að Johns Manville hefur fallizt á, að sölufélagið telji sér heimili á Íslandi, nánar tiltekið á Húsavík. Johns Manville telur sér alls ekkert hagræði að því, síður en svo, en með því vinnst það, að umboðslaunin verða skattskyld á Íslandi. Er samkomulag fengið um, að félagið greiði 45% í skatta af umboðslaununum, en frá álögustofninum dragist aðeins tilkostnaður félagsins hérlendis, og hann verður mjög lítill. Mannahald félagsins á heimilisstað má áætla 2–3 menn. Aðalsölutilkostnaðurinn verður vitanlega erlendis. Lít ég fyrir mitt leyti svo á, að skattskylda sölufélagsins sé eins og fundið fé miðað við áður hugsað fyrirkomulag.

Ég hef ekki rætt um einstakar gr. frv., en leyfi mér að skírskota um þær til aths., sem fylgja frv. Ég hef hins vegar talið gagnlegra að stikla á stóru í frásögn um framkvæmd I. frá 1964 og lýsa breyt. þeirri, sem hefur orðið um viðsemjendur. Um leið á þá að skýrast þörfin á þeim breyt. á l. og viðaukum heimilda, er frv. inniheldur. Ég tel viðhorfin betri en 1964, þegar af stað var farið. Ég tel, að afgr. frv. sé nauðsynleg á þessu þingi, því að annars mundi framkvæmdaþráðurinn slitna meira eða minna. Enginn veit heldur, hvað viðsemjandinn, Johns Manville, yrði þolinmóður að bíða. Vel gæti snurða hlaupið á samningaþráðinn, sem nú er sléttur, ef bið yrði til næsta Alþ. Málið er seint lagt fyrir þing, en það er ekki vegna neins tómlætis af hálfu hæstv. ríkisstj., það get ég vottað, enda er allt annað fyrir Alþ. afgr. á stuttum tíma framhaldsmál eins og þetta en að móta og afgr. nýtt mál.

Ég hef orðið þess var, að einstaka maður heldur, að þeir sem standa fyrir athöfnum í þessu máli, séu ekki viðkvæmir fyrir því, þótt spjöll kunni að verða unnin á fágætri náttúrufegurð í Mývatnssveit og fugla og fiskilífi Mývatns. En sannleikurinn er, að á það hefur verið lögð rík áherzla í undirbúningi málsins að miða framkvæmdir við, að slík spjöll eigi sér ekki stað. Staðið hefur verið í sambandi við Náttúruverndarráð, aðalfuglafræðing landsins, Finn Guðmundsson, veiðimálastjóra, Þór Guðjónsson, og fleiri ráðunauta til þess að leita álits og fyrirsagna hjá þeim. Ein gr. í frv. miðast alveg við þessi atriði, það er 7. gr. Á þetta benti hæstv. iðnmrh. í framsöguræðu sinni við l. umr. málsins mjög rækilega, svo að ég fer ekki frekar út í það, þó að ég telji það mjög þýðingarmikinn þátt í málinu, enda ekki þakkarvert, þó að sú sé mín afstaða, þar sem ég er íbúi sýslunnar, sem Mývatnssveitin prýðir mest.

Meiri hl. fjhn. mælir með samþ. frv. eða 6 nm. af 7. Einn nm., sá 7., hv. varamaður 4. þm. Norðurl. e., fulltrúi Alþb., Hjalti Haraldsson, skrifaði ekki undir nál. og gerir hann væntanlega grein fyrir afstöðu sinni. Einn af okkur 6 nm., sem mælum með samþykkt frv., skrifaði undir með fyrirvara. Það er flokksbróðir minn, hv. 6. þm. Sunnl., Helgi Bergs. Veit ég, að hann gerir grein fyrir fyrirvara sínum, sem mun vera í því fólginn, að vegna þess hve heimildirnar til ríkisstj. eru opnar í frv. og þurfa, eins og sakirnar standa, að vera það, vill hann fá yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. um, hvernig hún muni nota þær sumar, ef hún fær þær. Mér finnst þetta vera eðlilegur fyrirvari og mundi líka hafa skrifað undir með fyrirvara á þessa leið, ef ekki stæði svo á vegna þátttöku minnar í undirbúningi málsins, að ég veit, hvernig ákveðið er að nota heimildirnar. Og vegna þessarar þátttöku minnar í undirbúningsstarfinu hef ég haft tækifæri til að kynnast því, hvernig að málinu hefur verið staðið af stjórnvöldum landsins og að hverju er stefnt, og vegna þess kunnugleika er ég þess fullviss, að óhætt er að veita ríkisstj. þessar heimildir og legg það hiklaust til, þótt ég sé andstæðingur hæstv. ríkisstj. og stefnu hennar yfirleitt í mörgum öðrum efnum.

Hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, hefur verið form. undirbúningsnefndarinnar, þ.e. stjórnar Kísiliðjunnar h.f. Hann hefur stýrt störfum stjórnarinnar og n. og farið fyrir í þessum efnum, og mér þykir hlýða einmitt í sambandi við þetta frv. og afgr. heimildanna að votta sem stjórnarandstæðingur, að hann hefur að mínu áliti sýnt mikla lagni og festu í því að ná góðum niðurstöðum gagnvart hinum erlendu aðilum í samningastappinu við þá og tekizt að láta þá frekar þurfa að hafa eftirgangsmuni, þó að okkar í milli sagt sé það áreiðanlega mikilsvert fyrir okkur, að þeir verði samstarfsaðilar okkar fyrstu árin, svo mikilsvert, að ég fyrir mitt leyti tel sjálfsagt, að gerður skuli við þá sá 20 ára samningur, sem grundvöllur hefur fengizt fyrir af þeirra hálfu. Um það að ná sem hagfelldustum samningum við Johns Manville hefur ríkt hinn bezti einhugur og samstaða hjá þeim fulltrúum stjórnarinnar, sem að málinu hafa unnið. Og mér dettur ekki í hug að ætla, að slakað verði á og sleppt þeim tökum, sem náðst hafa. þótt hin að forminu til opnu umboð verði veitt með samþykkt frv.

Endurtek ég svo það, sem ég áður sagði og nál. á þskj. 627 ber með sér, að meiri hl. fjhn. mælir með því, að frv. verði samþykkt, eins og það liggur fyrir.