29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi láta koma hér fram. Hæstv. iðnmrh. hefur svarað þeim fsp., sem til hans var beint af hv. 6. þm. Sunnl. varðandi þau sjónarmið, sem ríkisstj. mundi fylgja í þessum efnum. Ég tel rétt, að það komi fram hér, og að ég skýri frá því sem formaður þeirrar samningan., sem hefur haft með málið að gera við Johns Manville, að eitt atriði í þeim samningum, sem ekki hefur enn þá verið afhent ríkisstj. sem formleg till., vegna þess að þessari samningagerð er ekki lokið, er það, að það er gert ráð fyrir því, að deilumálum milli aðila, ef upp rísa, geti orðið skotið til gerðardóms, og það er gert ráð fyrir því, að þessi gerðardómur verði þannig skipaður, og ég tel nokkurn veginn öruggt, að um það náist samkomulag við Johns Manville, að í fyrsta lagi, eins og hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, þá lúti þetta að sjálfsögðu íslenzkum lögum, það hefur aldrei komið annað til álita. En í annan stað, að þessi gerðardómur verði þannig skipaður, að hvor aðili um sig skipi aðila í gerðardóminn og þeir komi sér saman um oddamann, en ef það samkomulag næst ekki, þá tilnefni Hæstiréttur Íslands oddamanninn.