30.04.1966
Neðri deild: 84. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mig langaði til að segja nokkur orð, áður en þetta mál fer til n. Í fyrsta lagi vildi ég koma með fsp., — hún þarf ekki endilega að vera til hæstv. iðnmrh., og þetta yrði upplýst í fjhn. Hvað veit ríkisstj. mikið um það, af hverju hollenzka fyrirtækið dró sig til baka? Það er kannske sagt eitthvað og eitthvað á yfirborðinu, en ég álít, að það væri ákaflega gott, ef við fengjum alveg hreinar upplýsingar um það, hvort það muni vera svo, að þegar þetta fyrirtæki, hvað það nú er kallað, þetta hollenzka fyrirtæki, fór að leita fyrir sér alvarlega á Evrópumarkaðinum og víðar í þessum efnum,hvort það hafi þá fengið vísbendingu frá þessum ameríska einokunarhring, Johns Manville, um að vera ekki að skipta sér af þessu. Ég geng út frá því, að þegar lagafrv. er lagt fyrir Alþ., eins og var um kísilgúrverksmiðjuna í fyrra, og lögð áherzla á það af hálfu hæstv. ríkisstj., og það var nú það, sem gerði, að þetta mál mætti tiltölulega lítilli mótspyrnu hér þá, að við ætluðum að reyna að vera ofurlítið sjálfstæðir Íslendingar, við ætluðum að víta, hvort ríkið, okkar eigið ríki, gæti ekki ráðið nokkuð við þetta, og við ætluðum eiginlega að taka í okkar þjónustu útlendan agent, eiginlega eins konar sölufyrirtæki, sem við hefðum samvinnu við, en hefðum full tök á. Þá var sem sé meiningin, að við ynnum mjög sjálfstætt að þessu, allt vald í þessu væri alveg svo að segja í höndum íslenzka ríkisins. Svo gerist þetta allt í einu, eftir að Alþ. er búið að samþykkja lög í þessum efnum, hæstv. ríkisstj. og sú n., sem í þessu hefur unnið, búin að vinna á þessum grundvelli, að þetta fyrirtæki kippir allt í einu að sér hendinni. Ég held, áð hæstv. ríkisstj. hljóti að hafa rannsakað það, hvernig á slíku stendur, og hafi ekki tekið neinar yfirskinsráðstafanir eða yfirskinsafsakanir fullgildar í því efni. Og það, sem mér dettur fyrst og fremst í hug, er þetta, vegna þess að mér er ósköp vel ljóst, hver styrkleikur Johns Manville er, að þessi ameríski einokunarhringur hafi bara sagt við þetta litla hollenzka fyrirtæki: Verið þið ekki að skipta ykkur af þessu. Þetta ætla ég að yfirtaka. — það væri mjög gott, að það kæmi alveg hreint í ljós hér við 2. umr. þessa máls, hvernig þetta hefur verið.

Það frv., sem nú liggur fyrir, þýðir gerbreytingu á allri afstöðu frá þeim lögum, sem áður voru samþ. um þetta. Í verksmiðjunni átti áður hollenzka fyrirtækið að eiga minnst 10% og mest 20%, en hitt áttu Íslendingar sjálfir að eiga, íslenzka ríkið 51% og aðrir Íslendingar, sveitarfélög og aðrir aðilar, þannig að mér skildist alltaf, að hollenzka fyrirtækið mundi aldrei eiga meira en 10% þarna og það yrðu eins konar fríhlutabréf af þeirra samstarfi við þetta og annað slíkt, án þess að ég hafi nokkuð haft meira fyrir mér í því. Þess vegna var það eðlilegt, þegar verið var að ræða um þetta hér, að menn litu ekki á það sem neina hættu upp á fjárhagslegt eða efnahagslegt sjálfstæði eða tök erlends fyrirtækis á slíku, þó að það ætti þarna 10 eða jafnvel 20%, og þar að auki var þarna nm smáfyrirtæki að ræða, þegar það er athugað á heimsmælikvarða. Í sölufyrirtækinu var áður meiningin, að framleiðslufyrirtækið hér heima, sem íslenzka ríkið réði, ætti 40%, þ.e.a.s. 40% af hlutafé í sölufélaginu átti að vera eign íslenzka ríkisins, eða kontrolerað af íslenzka ríkinu, af því að framleiðslufélagið hér heima átti að eiga það. Nú aftur á móti er þetta svo gerbreytt hvort tveggja, að nú getur ameríski kísilgúreinokunarhringurinn Johns Manville átt 39% í verksmiðjufyrirtækinu og gæti jafnvel eignazt allt upp í 49%, og ameríski einokunarhringurinn á að eiga allt sölufyrirtækið algerlega. Ég veit, að ríkið á að mega tilnefna einn mann þar í stjórn eða eitthvað slíkt, en það er algerlega einokunarhringurinn sjálfur, Johns Manville eða hvað nú hann heitir, sem á að eiga sölufyrirtækið. Þarna er sem sé um algera breytingu að ræða frá því, er þetta mál var áður lagt fyrir Alþ., fyrst og fremst efnahagslega séð.

Það er alveg auðséð á þeim ákvæðum, sem hér er verið að setja inn í með þessu frv., að hvað skattgreiðslu snertir eru samningarnir við alúminíumhringinn farnir að vera fordæmi fyrir sköttum á félögum, sem að meiri hl. til eiga að heita íslenzk, þannig að mér sýnist, að það hafi ekki verið langt að bíða þess, að ef sá asni, er klyfjaður væri gulli, væri kominn inn fyrir borgarhliðið, þá kæmu fleiri þarna á eftir. Nú á alúminíumsamningurinn sem sé að vera fyrirmyndin, sem að meira eða minna leyti á að sniða kísilgúrfyrirtækið eftir, og ríkisstj. á svo að gefa með þessu lagafrv. mjög víðtækar heimildir í þessum efnum. Það er ekki einu sinni svo, að samningurinn sé nú lagður fyrir, heldur bókstaflega svo að segja heimildir um allt mögulegt. Það, sem ég álít, að hefði verið rétt, er, að hæstv. ríkisstj. hefði upplýst Alþ. nákvæmlega um, þegar þetta mál er lagt fyrir, hvers konar aðili þessi Johns Manville er. Jú, það er sagt hér, að það sé stórt fyrirtæki, hann ráði miklu á sviði kísílgúrframleiðslu. Sannleikurinn er, að þetta fyrirtæki, sem er einn stærsti hringur heimsins í öllum byggingarvörum, jafnt asbesti og öðru slíku, þessi hringur hefur núna á síðustu árum orðið eitt af 15 ríkustu fyrirtækjum í veröldinni og er einn þáttur í Morgan-samsteypunni amerísku, þannig að þarna er um að ræða fyrirtæki, sem er mjög voldugt á heimsmælikvarða, eitt af sterkustu fyrirtækjum, sem til eru í veröldinni, þ.e.a.s. einokunarhringur, sem drottnar alveg hreint á þessu sviði, jafnt kísilgúr sem byggingarefnis, asbests og öllu mögulegu slíku. Hann á námur í veröldinni í ótal álfum og hefur sem sé alveg heims-organisation í þessu, er einokunarhringur, og maður er gersamlega ofurseldur vilja og valdi þessa hrings, þegar maður einu sinni gengur inn á það að ánetjast honum. Ég segi þetta sérstaklega vegna þess, að það er öðru hverju verið að telja okkur trú um, að það sé til eitthvað, sem heitir frjáls samkeppni, og það var jafnvel talað um það í fyrra, þegar kísilgúrfrv. lá fyrir, að við Íslendingar ætluðum að vera eitthvað stórir aðilar, við ætluðum að keppa þarna sjálfstætt, við ætluðum að vinna að því að útvega markaði, við ætluðum jafnvel að standa þarna í styrjöld við einokunarhringi og annað þess háttar. En það var runnið á rassinn með allt slíkt.

Það, sem nú hefur gerzt, er, að við erum settir í vasann á þessum einokunarhring, og að þessi einokunarhringur er það voldugur á þessu sviði og í það góðum samböndum við Morgan-samsteypuna, eina voldugustu samsteypu í veröldinni, að það væri blekking við Alþ. að vera að telja mönnum trú um, að við værum að gera nokkurn skapaðan hlut annan en ofurselja þessar námur, sem þarna kunna að vera, alveg í hendurnar á einum voldugasta einokunarhring veraldarinnar. Þessa á ekki að dylja menn. Menn eiga að vita um þetta, áður en menn taka sínar ákvarðanir. Það á ekki að vera hægt að fara með okkur, eins og við værum — eins og Reykvíkingar mundu segja — „saklausir sveitamenn“ í þessum efnum. Við eigum að vita, út í hvað við göngum. Ef við viljum fara í vasann á þessum hring, skulum við gera það vitandi vits. Við skulum ekki láta narra okkur þar niður í.

Ég held, að það sé nauðsynlegt, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, athugi þessa hluti, og ég vil alveg sérstaklega skora á hana að gefa okkur hér við 2. umr. nákvæmar upplýsingar um fjárhagslegan status þessa hrings. Það var sagt hér frá því, hvað svissneski alúmínhringurinn ætti í fjármagni, var það ekki 15 þús. millj. ísl. kr.? Við höfðum alveg hugmynd um það, þegar gengið var að því af meiri hl. Alþ., og það er bezt, að það liggi alveg hreint fyrir líka, hvers konar samsteypa það er, sem við erum þarna að afhenda þessi auðæfi.

Eins og hæstv. iðnmrh. upplýsti og hv. 5. þm. Austf. vakti athygli á, er mjög eftirtektarvert, að sölulaunin hjá þessum hring fara hækkandi prósentuvís því meiri sem framleiðslan er. Það hefur nú áður stundum þótt réttara, að slíkt lækkaði prósentuvís en hitt, en það er auðséð, að þessi hringur ætlar frá upphafi að tryggja sig þarna alveg sérstaklega vel.

Viðvíkjandi útflutningsverðinu er það þessi hringur, sem algerlega ræður því í veröldinni. Það er hann, sem mótar það. Við eigum bara að heyra og hlýða, hvað það snertir, a.m.k. meðan ekki eru komnar einhverjar vörur, sem hægt er að setja þarna í staðinn fyrir, og þá náttúrlega veit maður, hvernig fer. Ef einhverjar slíkar vörur eru framleiddar á kemískan hátt, sem gætu verið í samkeppni við þetta, þá eru náttúrlega þær nýlendur, sem hringurinn hefur ítök í, látnar sitja á hakanum, ef til einhverrar kreppu kemur í slíku, og þessi sölusamningur mun vera til 20 ára. Við erum við hann bundnir allan þann tíma. Það er jafnframt upplýst af hæstv. iðnmrh., að þessi hringur er um leið lánardrottinn hvað snertir 35 millj. kr. af því fjármagni, sem byggingin á að kosta og í þetta er lagt. Ég vildi nú aðeins láta þetta koma fram, þessar hugmyndir, sem ég hef um þennan hring, og hef ég þó ekki getað rannsakað það til fullnustu, sérstaklega ekki þær allra nýjustu, en ég vil vonast til þess, að fjhn. sjái til þess, að hún fái þessar upplýsingar.

Svo er hitt málið, sem aftur snertir allt annan hlut en þetta. Og það er spurningin um Mývatn sjálft og þess náttúrufegurð. Ég flutti till. um það, þegar gamla frv. var til umr. hér, að það yrði nú ekki haldið allt of stíft á því að ætla sér endilega að einbeita sér að þessari kísilgúrframleiðslu, heldur yrði sú fjárupphæð, sem gengið yrði út frá, að fyrirtækið mundi kosta, sett til ráðstöfunar sveitarfélaganna á Norðurlandi til þess að leggja máske í önnur fyrirtæki, sem þau teldu heppileg sér til handa. Ég álít, að áður en í þetta er lagt og með þeim l., sem hér yrðu samþykkt, ef þetta frv. nær fram að ganga, þurfi að ganga algerlega út frá því, að það sé engin áhætta til, engin áhætta til í sambandi við náttúrufegurð Mývatns, ef þetta frv.. er gert að l. Það verður að vera harðvítuglega frá því gengið í þessum lögum. Náttúruverndarráð eða hvaða sérfræðingar, sem þarna eru, verða að vera einróma samþykkir, áður en það sé hægt að framkvæma þetta frv. Ég álít, að það dugi engin eftirkaup í þessu efni, og það megi ekki koma fyrir, að eftir á sé sagt: Ja, við reiknuðum nú ekki með þessu. Við reiknuðum nú ekki með olíubrák af olíuvinnslunni eða öðru þess háttar, og þetta hefur verið vanræksla einhverra og einhverra. Ég álít, að við eigum ekki að eiga á hættu, að nokkur skapaður hlutur af slíku geti komið til á eftir. Þeir menn, sem eiga að vera sérfræðingar á þessu sviði, verða að taka persónulega ábyrgð á því, að þetta geti að engu leyti orðið til að granda náttúrufegurð Mývatns. Ég vil segja það alveg beint út, að í fyrsta lagi þá allt ég, að við eigum að setja þá náttúrufegurð og þá sérstöku náttúru, sem þar er, það hátt, að þó að einhver gróði eða slíkt væri þarna í boði, þá vísum við því frá, ef um það er að ræða. Svo vil ég í öðru lagi hins vegar benda á það, að með eins sérkennilegt landslag,dýralíf og annað slíkt og þarna er að öllu leyti, er vafalaust, ef almennilega er um það hugsað, hægt að festa fé við Mývatn á miklu skynsamari máta með ýmsum sumarbúðum og öðru slíku. Við skulum gá að því, að eitt af því, sem eykst mest í veröldinni núna og meira en jafnvel nokkur framleiðslugrein, eru sumarferðalög manna um allan heim, og þau eiga eftir að margfaldast þannig á næstunni, að þeir staðir í veröldinni, sem hafa upp á eitthvað sérstakt að bjóða, verða dýrmætari vegna sinnar náttúrufegurðar en þeir nokkru sinni gætu verið vegna einhverrar framleiðslu, sem þar væri hægt að hafa. Meira að segja þeir menn, sem eingöngu vilja athuga alla hluti frá peninganna sjónarmiði og ekki taka tillit til fegurðar eða neins annars, ættu að hugsa sig um tvisvar sinnum, áður en þeir gera ráðstöfun, sem gæti að einhverju leyti orðið til að draga úr eða skemma eða jafnvel eyðileggja að einhverju leyti þá sérstöðu, sem Mývatn hefur, því að þeir gætu vafalaust í framtíðinni, þeir menn, sem fyrst og fremst hugsa um peninga og gróða í þessu sambandi, haft miklu meira upp úr því að gefa almenningi, ekki aðeins á Íslandi heldur erlendis, aðstöðu til þess að geta notið þess unaðar, sem þar má fá.

Ég vildi nú aðeins, áður en þetta mál færi til n., láta þessar aths. mínar koma fram, en ég skil það vel, að af því að málið kemur svona skyndilega inn til okkar, séu menn ekki,sérstaklega við því búnir að ræða það mikið.