04.05.1966
Neðri deild: 88. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Með l. nr. 22 frá 21. maí 1964 var ríkisstj. falið að beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er reisti og ræki verksmiðju við Mývatn til þess að vinna markaðshæfan kísilgúr úr botnleðju vatnsins. Áður hafði verið leitað eftir samkomulagi við hollenzka fyrirtækið AlME um væntanlega byggingu og rekstur slíkrar verksmiðju. Í framhaldi af nefndri lagasetningu var undirbúningsfélag, Kísiliðjan hf., stofnsett með þátttöku hollenzka fyrirtækisins. Þegar á átti að herða, kom það hins vegar í ljós, að fyrirtækið taldi sig ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að gerast aðili að stofnun framleiðslufyrirtækis þess, er annast skyldi byggingu og rekstur verksmiðjunnar. Var því ekki lengur grundvöllur fyrir frekari samvinnu við hollenzka fyrirtækið, eins og lýst er í grg. fyrir frv. þessu.

Þetta frv. er flutt vegna hinna breyttu viðhorfa, en til boða stendur að semja við bandarískt fyrirtæki, Johns Manville, um samvinnu í kísilgúrmálinu. Gerir frv. ráð fyrir að veita lagaheimildir, sem hið fyrirhugaða samkomulag við Johns Manville þarfnast, til viðbótar þeim heimildum, sem fyrir hendi eru í l. 1964. Gert er ráð fyrir því í stuttu máli að stofna tvö hlutafélög, framleiðslufélag og sölufélag. Framleiðslufélagið reisi og reki kísilgúrverksmiðjuna, en sölufélagið annist sölu framleiðslunnar erlendis. Fyrirkomulagið á hinni fyrirhuguðu samvinnu við Johns Manville verður einkum að því leyti frábrugðið samkomulaginu við hollenzka fyrirtækið, að í stað þess að staðsetja sölufélagið erlendis eins og samkomulagið gerði ráð fyrir, yrði það nú staðsett hér á landi og greiddi þá hér skatta. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að Johns Manville verði einn eigandi sölufélagsins. Að þessu er vikið í grg. frv., og hæstv. iðnmrh. gerði málinu ítarleg skil við 1. umr.

Athuganir, sem fram hafa farið, hafa ótvírætt leitt í ljós, að stofnsetning kísilgúrverksmiðju við Mývatn geti orðið upphafið að þýðingarmiklum útflutningsiðnaði og kæmi þannig til með að auka fjölbreytnina í atvinnulífi landsmanna. Vegna þess, hvernig markaðsmálum er háttað, sölumöguleikar munu vera takmarkaðir, hefur verið talið óráðlegt að ráðast í þessa framkvæmd án samvinnu við aðila, sem tryggt gæti, eftir því sem frekast er kostur, sölu framleiðslunnar erlendis. Fái ríkisstj. þær heimildir, sem frv. þetta fjallar um, hefjast framkvæmdir við byggingu sjálfrar kísilgúrverksmiðjunnar sennilega nú á þessu ári. Eins og fram kemur í nál., hefur fjhn. athugað þetta frv., og meiri hl. hennar leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en minni hl. n. hafa skilað sérálitum.