04.05.1966
Neðri deild: 88. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., þar sem fundartíma er að ljúka, þó að fróðlegt hefði verið að ræða margt af því, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv., og var sannast sagna sumt nokkuð einkennilegur málflutningur miðað við, hve gáfaður maður talaði. En af því að ákveðin fsp. kom hér fram, tel ég mér skylt að segja aðeins örfá orð. Áður en ég geri það þó, vil ég vekja athygli á þeirri brtt., sem hv. þm. flutti hér, en ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. sé öllum ljóst, að útilokað er að samþykkja hana, vegna þess að hún felur í sér slíkar skuldbindingar fyrir ákveðna nefnd, sem er Náttúruverndarráð, að það er útilokað með öllu, að slíkt ráð mundi nokkurn tíma taka á sig slíka ábyrgð og það væri því það sama og að gera út af við málið. Hitt get ég fullvissað alla hv. þdm. um, að allir þeir, sem að þessu máli standa, hafa fullan skilning á mikilvægi þess að vernda náttúruverðmæti og sérkenni Mývatnssveitar og það verða gerðar og hafa þegar verið gerðar í samráði við Náttúruverndarráð og fleiri aðila margvíslegar ráðstafanir og athuganir til þess að tryggja það, að þar verði ekki nein óhöpp. En að ætla ákveðinni n. að ábyrgjast það, að slíkt geti aldrei komið til og það verði ekki leyft nema hún ábyrgist, að ekki geti orðið nokkurt tjón á fuglalífi eða slíku, það er auðvitað ekki hægt að leggja á neinn aðila.

Það var svo aðeins þessi ákveðna fsp., sem ég vildi ræða um. Hv. 3. þm. Reykv. sá nú orðið mikinn auðhring hér og taldi, að öll málsatvik bentu til þess, að það væri ekki hægt í rauninni að byggja þessa verksmiðju öðruvísi en að koma sér í samband við auðhring, sem réði yfir markaði, og stakk það að vísu nokkuð í stúf við ummæli hv. flokksbróður hans, sem tók ekki málinu óvinsamlega, en taldi rétt að athuga það, hvort ekki væri hægt eftir þeim l., sem við höfðum í gildi, að reisa verksmiðjuna. Það mundi naumast vera hægt, ef það er rétt, að þessir hringar geri það útilokað ekki aðeins fyrir okkur, heldur hafi með hótunum getað hrætt hollenzkt fyrirtæki, sem er stórt fyrirtæki á okkar mælikvarða, að vísu ekki mjög stórt fyrirtæki á hollenzkan mælikvarða, til þess að hætta við aðild að þessu máli. Ég vil aðeins, að það komi hér fram, m.a. vegna þess hollenzka fyrirtækis, sem mjög drengilega vann með okkur að margvíslegum athugunum á málinu, markaðskönnunum og öðru, að því fer víðs fjarri, að hér hafi nokkuð óeðlilegt komið til. Þetta fyrirtæki er því miður ekki mjög stórt. Það hafði starfsemi með höndum erlendis, sem það varð að gera ýmsar breytingar á, án þess að ég geti hér farið út í að ræða einkamál þess fyrirtækis, en meginorsökin var sú, að fyrirtækið þurfti, sem því var ekki ljóst, þegar viðræður okkar hófust, að ráðast í mjög dýrar fjárfestingarframkvæmdir á sínum vegum og taldi því ekki mögulegt að gerast aðili að þessu með því að leggja fjármagn nokkurt fram í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna hér. Það vildi hins vegar mjög gjarnan taka að sér að reyna söluna, en það var mat okkar, að eins og málum væri háttað, væri ekki nægilega hægt að tryggja söluna, m.a: vegna athugana, sem við fengum sjálfstætt markaðskönnunarfyrirtæki í Hollandi til þess að annast fyrir okkur, og það skilaði okkur mjög ítarlegri og greinargóðri skýrslu um. Því fer víðs fjarri, að hér hafi átt sér stað nokkrar hótanir eða baktjaldamakk, og jafnframt get ég upplýst það, að það vorum við Íslendingar, sem fyrst höfðum samband við Johns Manville, en þeir ekki við okkur, þegar við fórum að kynna okkur, hvaða möguleikar væru líklegastir til þess að tryggja öruggan rekstur þessa fyrirtækis okkar hér.

Það er rétt, að markaðurinn er þröngur. Það hefur aldrei verið farið dult með það, og það er rétt, að það eru mjög stórir aðilar, sem þar hafa mikil tök vegna þess m.a., að þeir eru fjársterkir og geta veitt miklar tæknilegar leiðbeiningar til notkunar á þessari vöru, en hún er vandmeðfarin á margan hátt, og þarf því að að vera hægt að veita slíka þjónustu, og það gerðu Hollendingarnir okkur einnig ljóst og þeir tæknilegu sérfræðingar, sem við ræddum við úti í Hollandi um málið, en þeir voru á engan hátt tengdir hinum bandaríska aðila.

Það er svo líka rétt, að það komi hér fram, að Hollendingarnir vildu gjarnan æðilöngu seinna koma inn í þetta aftur, vegna þess að fjárhagsaðstaða þeirra hafði þá mjög breytzt og raunar mjög sterkir aðilar þar í landi gerzt að verulegu eða öllu leyti eigendur þessa hollenzka fyrirtækis, AlME. En þá voru viðræður okkar við Johns Manville komnar það langt, að við töldum á engan hátt það okkur til hagsbóta að hverfa frá þeim og taka aftur upp hinar fyrri viðræður.

Ég vil, að það liggi ljóst fyrir, vegna þess að þau virðast hafa verið misskilin orð mín hér áðan, að það voru engir úrslitakostir, sem okkur voru settir. Því fer víðs fjarri, að það séu nokkrir úrslitakostir. Hitt er annað mál, að það hefur verið meira sótt á af okkar hálfu en hinna amerísku aðila um að fá þá í samvinnu við okkur, og veltur afkoma þeirra ekki að neinu leyti á því, hvort þessi framleiðsla kemst í gang eða ekki. Það er hins vegar okkar mat, eins og ég skýrði frá áðan, að það sé grundvallarnauðsyn fyrir okkur að halda þessu. Við erum komnir í fullan gang með þetta verk, byggingu þessarar verksmiðju, og við þurfum einmitt að fá það fjármagn, sem hinn ameríski aðili ætlar að leggja fram til okkar reksturs hér bæði sem lán og hlutafé.

Varðandi skattana vil ég aðeins segja það, að það er mikill misskilningur hjá hv. þm., sem ég er mjög hissa á, að hér sé verið að opna einhverja óljósa heimild eða leið fyrir ríkisstj. til þess að heimila skattlagningu án samþykktar Alþ. Hér er um að ræða alveg ákveðna heimild, sem ríkisstj. er veitt, gersamlega ákveðna heimild. Það eru svo ýmis atriði, þar sem talað er um samninga, en það er annars vegar um greiðslumáta og hins vegar hitt, eins og menn sjá, að skipting skattanna er enn óákveðin milli ríkis og sveitarfélaga, og hefur ekki gefizt kostur á að ræða það mál. Hitt er hins vegar ljóst, að eins og skattgreiðsluprósentan er hér ákveðin, er hún bæði fyrir sölufélagið og framleiðslufélagið verulega hærri en hún mundi vera eftir núgildandi skattalögum. Það er hins vegar ekki kannske neitt undarlegt, þó að það komi fram hjá hinum erlenda aðila, að vegna þess, hve íslenzk skattalög eru margbrotin og flókin, því miður, vildu þeir semja um ákveðna skattprósentu, en þeir voru ekkí að biðja um nein sérhlunnindi í því efni.