04.05.1966
Neðri deild: 88. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. upplýsti, að ríkisstj. væri þegar í nokkrum vanda í þessum málum, eftir að þetta hefði gerzt með þetta hollenzka hlutafélag, og sagði hann í því sambandi, að það hefði nú upp á síðkastið verið meira sótt á eða kannske frá upphafi verið meira sótt á af hálfu ríkisstj. en frá Johns Manville, þannig að það væri ríkisstj. eða hlutafélagið, sem hefði orðið að sækja á með að fá þessa samninga. Það þýðir náttúrlega enn þá frekar, að það er ríkisstj., sem er þarna í meiri vandræðum og að afstaða auðfélagsins er hin sterkari. Ég verð enn í sambandi við þessar upplýsingar að ítreka það, sem ég áður lét í ljósi, að það hefði verið betra, áður en ríkisstj. gerbreytti þeirri stefnu, sem var fyrst í frv., að hún hefði talað við Alþ., áður en hún sneri sér til Johns Manville, því að það var sú algera stefnubreyting í þessu, sem ég skal svo ekki ræða meira, því að ráðh. gerði nú engar aths. við þær upplýsingar, sem ég gaf viðvíkjandi þessu. Hann sagði, að ég hefði orðað það þannig, eða hann orðaði það þannig, að ég hefði séð þarna mikinn auðhring, og ég býst nú við, að hann sé mér alveg sammála um það, þó að hann hafi nú ekki viljað gefa fyrirfram miklar upplýsingar um hann.

Það er eitt atriði, og það er stórt atriði í þessu öllu saman, sem hæstv. fjmrh. kom að vísu ekki mikið inn á, nema til þess að sýna fram á, hvað ég væri illa að mér í lögum, en var svo elskulegur eftir á að leiða mig í allan sannleika um. Það er í sambandi við skattinn og 6. gr. Ef ég skil það rétt, sem hann fræddi mig um, sem sjálfur er lögfræðingur, liggur málið þannig, að ef svona grein um skatt er orðuð þannig, að ríkisstj. sé heimilt að gera samning t.d. við Johns Manville eða hver það er, um að skattur sé svona og svona og til svona og svona langs tíma, er Alþ. þar með bundið. En hins vegar, ef það stæði bara, að skattur skuli vera svona, jafnvel þó það sé tiltekinn einhver tími, þá getur næsta Alþ. breytt því. Þá er sem sé formúlan fundin. Við skulum segja t.d., að meiri hl. Alþ. samþykki með eins atkv. meiri hl. í hvorri d„ að ríkisstj. sé heimilt að semja við Landssamband ísl. útvegsmanna um það, að skattur af öllum meðlimum þess skuli vera t.d. 45%, 35%, 10% eða 5% næstu 20 árin. Mér skilst það vera alveg hreint ótvírætt, að lögfræðilega sé þetta þá heimilt með þessum skilningi l. Ríkisstj. getur samið t.d. við Félag ísl. iðnrekenda eða t.d. við eitt einstakt félag, t.d. stóran atvinnurekstur hér einhvern, til 25–30 ára um ákveðna skattaprósentu. Ef Alþ. seinna meir breytir þessu, t.d. í 10 ár, á þar með þetta félag svona og svona mikla skuldbindingakröfu á hendur ríkinu fyrir samningsrof. Ég er eiginlega alveg hissa, að mönnum skuli ekki hafa dottið þetta í hug fyrr, að það skuli vera útlendingar fyrst og fremst, sem þurfi að koma með það þessa leið. Ég sé ekki betur en þarna sé fundið alveg nýtt patent fyrir íslenzka yfirstétt. Ef hún væri eitthvað dálítið hrædd um, að Alþ. ætlaði að fara að verða fullróttækt fyrir sig, léti hún bara samþ. í seinustu kosningum, áður en þeir héldu, að illa færi, að til næstu 25 ára t.d. væru gerðir svona samningar við öll þessi nafngreindu fyrirtæki eða nafngreind samtök þeirra og annað slíkt, og þar með væri Alþ. bundið.

Ég vil bara vekja eftirtekt á þessu, af því að ég hef einmitt verið að gera aths. við það, að svona væri ekki hægt að afgreiða l. frá Alþ. Ef þessi háttur er á hafður, þýðir það, að ef skattarnir eru kallaðir samningar um skatta og ríkisstj. heimtar að gera slíka samninga um skatta, er hægt að skuldbinda Alþ. fram í tímann og raunverulega svipta Alþ. skattálagningarvaldinu, gera komandi Alþ. skaðabótaskyld fyrir að samþ. álögur á þessi fyrirtæki, sem raunverulega var búið að undanþiggja þau. Hér stendur t.d. í 6. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt er ríkisstj. heimilt að kveða svo á með samningi, að framleiðslufélaginu skuli eigi skylt að greiða hér á landi umfram tekjuskatt þann, sem að framan greinir, aðra skatta en þá, sem hér segir:“

Svo eru skattarnir taldir upp. Allir skattar, sem Alþ. kynni að samþykkja á næstu 20 árum, sem væru aðrir en þessir, allir þeir skattar kæmu ekki þessu félagi við. (Gripið fram í.) Ja, það er alltaf hægt að finna upp nýja skatta. Fjmrh. eru alveg sérstaklega sniðugir í því margir, en viðkomandi félag væri undanþegið öllu slíku, hvað mikið hugvit sem allir komandi fjmrh. hefðu. Það væri örugglega undanþegið öllu slíku, og ef svona samningur væri síðan gerður t.d. við Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband ísl. útvegsmanna, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og einhverja fleiri, væri nokkurn veginn búið að undanþiggja yfirstéttina fyrir næstu ár jafnvel áratugi. Ég vil þess vegna spyrja, eins og stundum er sagt í daglegu máli: Er þetta hægt? Er það hægt að ætla sér að skuldbinda Alþ. svona? Gera Alþ. skaðabótaskylt fram í tímann fyrir samningi, sem svona er gerður? Eg verð að segja alveg hreint eins og ég meina. Ég er ákaflega hræddur um, að eitthvert komandi Alþ. kynni að líta svo á, eftir að búið væri að gera hvern samninginn á fætur öðrum, fyrst við Swiss Alumininum síðan við Johns Manville, næst á eftir við Standard Oil, síðan við Findus og við Félag ísl. iðnrekenda o.s.frv., þá er ég anzi hræddur um, að það kæmi að því, að á einu Alþ. yrði samþykkt, að þeir menn, sem hefðu samþykkt þessa skatta á þinginu og þessa samninga svona, yrðu gerðir persónulega ábyrgir fyrir því og öllum þeim skaðabótum, sem af því mundu hljótast. (Gripið fram í.) Nei, ég er ákaflega hræddur um, að það væri ekki heldur gilt. Ég er hræddur um, að Alþ., sem gerði slíkt, mundi láta það verða gilt, vegna þess að það er nú einu sinni svo, að það,sem ákveðið er af Alþ. á hverjum tíma, eru lög, þó að það sé þveröfugt við það, sem var gert áður. Ég býst við, að svo kynni sem sé að fara, að þegar búið væri að ganga mjög lengi fram í þessu og þyngja að sama skapi skattana á almenningi, kæmi að því, að menn segðu: Nú þolum við þetta ekki lengur.

Það, sem gerði, að ég fór að ræða þetta hér, er, að þegar menn byrja á svona hlut, eins og samningunum við Swiss Aluminium og samningunum við Johns Manville nú, þá eiga menn að hugsa brautina til enda. Það er í fyrsta lagi gefið, að hver einasti útlendur hringur, sem hér kemur á eftir, — og við eigum von á mörgum, eftir því sem hæstv. forseti lýsti yfir, — hver einasti útlendur hringur heimtar sama rétt. Johns Manville gerir það nú þegar að vissu leyti, og Standard Oil verður ekki linari í kröfum. Þá verður það ekki bara danskur djöfull, sem pínir alþýðuna, hann verður annar.

Hvað lengi halda menn nú, eftir að helmingurinn af fjármagni í íslenzku atvinnulífi er orðinn útlendur, hvað lengi halda menn, að íslenzk atvinnurekendastétt mundi vera það aum, að hún léti bjóða sér það að vera hornreka í sínu eigin landi og sitja með miklu þyngri skatta en útlend stórgróðafyrirtæki hefðu í landinu? Skyldi hún ekki segja á meðan hún hefði enn þá meiri hl. á þingi, skyldi hún ekki segja við sína fulltrúa: Þetta líð ég ekki lengur. Nú heimta ég sams konar samninga. Landssamband ísl. útvegsmanna segir: Nú fer enginn bátur úr vör. Félag ísl. iðnrekenda segir: Nú verður engin verksmiðja rekin fyrr en búið er að láta okkur hafa svona samninga. Við fellum okkur vel við það, að ríkisstj. sé heimilað að gera svona samninga við okkur. Þar með höfum við samningsréttinn, og framtíðin verður síðan að borga. En ég vil bara spyrja. Ég er ekki endilega að gefa fulltrúum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eða Landssambandi ísl. útvegsmanna hér þessa hugmynd. Ég veit, að þetta eru það hugmyndaríkir menn, að þeim dettur það í hug sjálfum, en ég bara meina, að um leið og við gerum þessa ráðstöfun er bezt að skoða endinn á þessu.

Ég ætlaði ekki með þessu neitt sérstaklega að vera að tefja þetta mál, aðeins að láta það koma fram, sem ég álít, að þurfi að koma fram í þessu, og þakka þeim, sem hafa hjálpað mér til þess að upplýsa það.