04.05.1966
Neðri deild: 88. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Einar Olgeirsson:

Má ég þakka hæstv. forsrh. fyrir kennslustundina, og nú er rétt að vita, hvort ég hef lært nokkuð.

Í fyrsta lagi er ég alveg sammála því og allt það alveg hreint rétt, að einmitt sú löggjöf, sem samþ. er um Íslandsbanka á meðan hér er dönsk stjórn í landinu, sé fyrirmynd að því, sem við erum að gera núna, þannig að ég samþ. alveg hreint, að það hefði verið til heimild fyrir því, sem nú er gert. En um leið er það líka að mínu áliti alveg hárrétt hjá hæstv. forsrh., að það hafa hvað eftir annað verið samþykkt skattalög um einstök fyrirtæki, t.d. ný fyrirtæki, sem verið hafa að koma upp, togarafyrirtækin, þegar verið var að kaupa þau hér á árunum, sérstakar afskriftir og ýmislegt annað slíkt, og enn fremur hafa hvað eftir annað verið sett sérstök l. um skatta almennt, sem gæfu sérstakar undanþágur um slíkt, en þeim l. hefur þó alltaf verið hægt að breyta. Þá er munurinn þessi eftir því sem mér skilst, svo að ég taki t.d. eitt dæmi.

Það voru samþykkt sérstök skattalög viðvíkjandi samvinnufélögunum hér á árunum, og þau stóðu hér alllengi. Og samvinnufélögin höfðu sérstaka skatta á þeim tíma. Er þetta ekki rétt hjá mér? Síðan var þeim I. breytt og samvinnufélögin höfðu öðruvísi skatta eftir það. Ef nú í staðinn, við skulum segja t.d. 1931, þegar Framsfl. var hér mjög sterkur á þingi, ef ríkisstj. Framsfl. hefði verið heimilað að gera samning um skatt til 45 ára við Samband ísl. samvinnufélaga og þau kaupfélög, sem í því voru, og tilgreint, hvernig sá skattur ætti að vera, hefði það verið löglegt? Ef við hefðum farið að hreyfa við því seinna, einhverjir hér á Alþ. og breyta því, þá hefði Alþ. verið skaðabótaskylt. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Yfirsjónin sem sé hjá Framsókn á þessum tíma, þegar hún var að berjast fyrir réttindum samvinnuhreyfingarinnar, var að þekkja ekki þessar nútíma aðstæður, að fela einni ríkisstj. að gera bara samning við Samband ísl. samvinnufélaga um kaupfélögin til 45 ára um skattana, þá var málið komið, þá áttu menn ekkert undir um það, að samvinnulögunum og þeirra skattgreiðslu yrði nokkurn líma breytt.