18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

69. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Þess ber að geta, sem vel er gert, og ég vil láta í ljós ánægju mína með framkomu þessa frv. Með því er stigið fyrsta skrefið í þá átt að afnema úrelt og ranglát ákvæði í l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla.

Aðalefni þessa frv. er, eins og hæstv. félmrh. tók fram, afnám skerðingarákvæðis, þess ákvæðis, að langlegusjúklingar skuli ekki njóta ríkisframfærslu, nema þeir séu örsnauðir. Þetta er í sjálfu sér mikilsvert atriði, að færa það til rétts vegar og til samræmis við það, sem gildir um sams konar tilvik í almannatryggingalögunum.

Hitt er þó ekki minna virði en efni sjálfs frv., það sem kemur fram í grg., en þar er því eindregið heitið af hálfu hæstv. ríkisstj., að áfram skuli haldið á þessari braut og að önnur úrelt og óréttlát ákvæði í þessum l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla skuli afnumin og l. í heild samræmd l. um almannatryggingar. En þetta á að ske ekki síðar en á árinu 1967. Ég sem sagt þakka hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa flutt þetta mál inn í þingið nú og fagna því, að lofað skuli fullu afnámi þessara úreltu ákvæða.