11.11.1965
Efri deild: 14. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

58. mál, innflutningur á hvalveiðiskipi (leyfi til Hvals hf.)

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er ekki mikið að vöxtum, og ekki þarf langra skýringa á því. Frv. er flutt að beiðni samgmrn. af hv. sjútvn. Nd. í þeirri hv. d. og hlaut þar einróma samþykki á 3 fundum, sem haldnir voru sama daginn. Ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið, er sú, eins og í grg. þess segir, að skipakaup þessi, sem um er að ræða í þessu tilfelli — skip það, sem um er að ræða í þessu tilfelli — er aðeins eldra en lögheimilað er með kaup á notuðum skipum, eða um 13 ára að aldri, þ.e.a.s. 1 ár yfir hinn lögboðna 12 ára aldur. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn., og óska þess eindregið, að n. hraði svo störfum sem unnt er um afgreiðslu málsins, því brýna nauðsyn ber til, að málið hljóti afgreiðslu eigi síðar en n. k. mánudag.