08.11.1965
Efri deild: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

53. mál, sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Landbrn. hefur sent landbn. Ed. frv. til l. um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi og óskað þess, að n. flytti frv. N. hefur lesið frv. yfir á einum fundi, ekki fullskipuð að vísu alveg, en verið sammála um það, að einboðið væri að flytja þetta frv. að ósk landbrn. Frv. mun vera samið af 2 mönnum, Ólafi E. Stefánssyni í Búnaðarfélagi Íslands og Hákoni Guðmundssyni yfirborgardómara, að ósk landbrn. Þetta frv. virðist vera fremur vel gert, og n. hefur við fyrstu athugun ekki fundið neitt sérstakt, sem hún óskaði eftir að taka fram til breytinga, en mun að sjálfsögðu athuga það betur síðar.

Í I. munu ekki vera til ákvæði um sinubrennur eða meðferð elds á víðavangi önnur en gömul ákvæði í Jónsbók í landsleigubálki 29. kapítula, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Brenna má maður sinu af jörð sinni, þar sem hann vill, og bæta skaða þann allan, er öðrum mönnum verður af, ef hann hefur þá eigi orlofs til beðið, er næstir búa.“

Sem sagt, það hefur verið talið leyfilegt að brenna sinu á hvaða árstíma sem er, undirskilið, að sá, sem kynni að verða valdur að skaða af þeim sökum, hann yrði að bæta það, ef hann hefði ekki leyfi frá nágrönnum sínum til íkveikjunnar.

Nú hefur það færzt mjög í vöxt síðustu ár að brenna sinu, vegna þess að hún torveldar víða notkun lands til beitar, ekki sízt síðan hætt var að nytja allt graslendi svo að segja, sem fyrirfannst til slægna, og er þetta mjög nauðsynlegt. Að sjálfsögðu hefur þetta og tíðkazt á öllum tímum landsbyggðarinnar og stundum orðið tjón að, þegar eldur hefur hlaupið í kjörr eða kviknað hefur í jörðinni sjálfri, þegar hún er orðin mjög þurr, og eru ýmis dæmi til þess nú frá seinni tímum, að eldur hefur orðið laus á víðavangi og valdið spjöllum, einkum þó fyrir óvarkárlega meðferð elds hjá ferðafólki.

Frv. er í 9 gr., og l. gr. fjallar um sinubrennslu í kaupstöðum eða innan kauptúna, og er gert ráð fyrir, að þar þurfi að leita leyfis lögreglustjóra eða hreppstjóra, til að menn megi kveikja þar eld.

2. gr. fjallar um sinubrennslu í sveitum. Eru þau ákvæði ofurlítið margbrotnari og í höfuðatriðum þau, að ekki megi kveikja eld nær mörkum lands, sem spjöll geta hlotizt á, en 1000 m nema tilkynna það áður, og leyfi hreppstjóra þurfi til hverju sinni að brenna sinu þar.

Þá eru í 3. gr. ákvæði um það, að stöðug gát skuli vera höfð á þeim eldi, sem kveiktur er, unz hann hefur kulnað, til að fyrirbyggja það, að hann dreifist út á svæði, þar sem hann má ekki koma.

4. gr. er um það, að hreppstjóri skuli gæta þess, að þar sem leyfð er sinubrenna, þá fari hún fram lögum samkvæmt.

5. gr. er um það, að ekki sé leyfilegt að brenna lyng eða kjarr, nema taka eigi það land til ræktunar síðar. Það er til verndar kjarrskógi og slíku landi, að því verði ekki eytt, því að kjarr sprettur ekki aftur, ef það er brennt, fyrr en þá eftir langan tíma.

6. gr. lýtur að því að fyrirbyggja það, að vörp skemmist af völdum sinubrennu, og má því hefja hana í síðasta lagi l. maí ár hvert, vegna þess, að eftir þann tíma er talið, að fuglar hafi orpið á víðavangi í venjulegum vorum. Þó eru ákvæði um það, að þetta megi dragast til 15. maí norðanlands, þar sem venjulega vorar seinna, en þá þurfi leyfi hreppstjóra til að koma eins og til annarrar íkveikju í sinu.

7. gr. er um það, að öllum þeim, sem fara með eld á víðavangi í almenningum eða á öðrum stöðum fjarri mannabústöðum, skuli vera skylt að fara mjög varlega með eld og gæta þess, að hann hafi verið kulnaður, þegar staðurinn er yfirgefinn.

8. gr. fjallar um það, að skylt sé að tilkynna annaðhvort landeiganda eða yfirvaldi hverju sinni, ef maður verður þess var, að eldur sé laus í heimalöndum eða almenningum eða yfirleitt á víðavangi.

9. gr. fjallar um það, að sá, sem valdur er að skemmdum vegna sinubrenna eða óvarkárlegrar meðferðar á eldi á víðavangi, skuli vera bótaskyldur.

Ég tek það fram, að landbrn. hefur ekki enn athugað þetta frv. eins og skyldi, en fljótt á litið virðist mér, að öll ákvæði frv. séu til bóta og nauðsynleg, þar sem raunar er engin ákvæði að finna í l. um þessa hluti, sem verður að teljast mjög óeðlilegt, þar sem vel getur farið svo, að þar sem eldur verður laus hljótist af stórkostlegir skaðar og spjöll, ekki aðeins á landi heldur og á mannvirkjum, bæði húsum, girðingum, símalínum og raflínum.

Þar sem frv. er flutt af n., tel ég ekki nauðsynlegt að vísa því til n., en lýsi því hins vegar yfir, að það verður tekið til athugunar betur, áður en það er afgreitt úr þessari hv. d., og ég mun að sjálfsögðu taka til athugunar allar bendingar, sem fram kunna að koma um einhverjar breytingar eða lagfæringar á þessu frv., ef ástæða þykir til.