25.11.1965
Efri deild: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

53. mál, sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 96 er lítil brtt., sem landbn. hefur flutt við þetta frv., og efni hennar er það að leyfa sinubrennur lengri tíma en gert er ráð fyrir í frv., en það gerir ráð fyrir, að þær séu aðeins leyfilegar í marzmánuði og aprílmánuði. Í frv. eru þó ákvæði um það að leyfa megi sinubrennur síðar á vorinu í vissum landshlutum, þegar þannig viðri eða þegar seint vori, eða allt til 15. maí. Þetta ákvæði um 1. maí eða 15. maí er miðað við það, að brenna fari ekki fram, eftir það að fuglar hafi orpið í úthaga. En þeir menn, sem sömdu þetta frv. og virðast hafa gert það af mikilli vandvirkni, munu sennilega ekki hafa verið það kunnugir í öllum landshlutum, að þeir hafi áttað sig á því, að fyrr en í marzmánuði getur oft verið mjög hentugt að brenna sinu, í febr., jan. eða jafnvel í des. Þetta á minnsta kosti við norðanlands sums staðar, þar sem tíðarfar er þannig á þessum tíma, að það getur verið langbezt að koma þessu verki af einmitt á þessum tíma. Og til þess að gera þetta leyfilegt er þessi brtt. fram flutt. Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði neinn ágreiningur um þetta atriði, þar sem það er vist, að sinubrennsla á þessum tíma hefur sízt af öllu þær afleiðingar, sem teljast geta hættulegar á nokkurn hátt. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessa brtt. en vænti þess, að hún verði samþ.