25.11.1965
Efri deild: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

53. mál, sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mér hefur verið á það bent af umbjóðendum mínum norðanlands, þeim, sem þar eru kunnugir, að í snjóasömum útsveitum muni sá frestur, sem settur er, eða þau tímatakmörk, sem sett eru í 6. gr., tæplega fá staðizt í öllum árum, vegna þess að þó að það sé gerð þar undantekning frá aðalreglunni um það, að sinubrennur skuli hafa farið fram fyrir 1. maí og hreppstjóra sé heimilað að gefa leyfi til sinubrennu á tímabilinu 1.–5. maí, þá geti það verið stundum svo í sumum árum, að það sé algerlega ómögulegt að láta sinubrennur fara fram fyrir 15. maí, vegna þess, að þá geti snjór verið mikill og yfir öllu. Nú eru mér að sjálfsögðu ljósar þær ástæður, sem valda því, að það tímatakmark hefur verið sett, sem hv. 8. landskjörinn gerði grein fyrir hér áðan, og auðvitað verður að gæta þess, að ekki sé gengið of nærri fuglalífi með þessum brennum, en það er nú ólíklegt, að varp sé byrjað að ráði, ef svo hagar til, að snjór liggur enn yfir landi að verulegu leyti. Þess vegna vildi ég nú mælast til þess, að hv. n., sem hefur flutt þetta frv., athugaði þetta enn betur en hún hefur gert hingað til fyrir 3. umr. og kynnti sé það, hvort það væri ekki ástæða til þess að sinna þessum ábendingum, sem fram hafa komið í þessu efni. Ég taldi mér skylt að koma þessum ábendingum á framfæri, en skal ekki leggja neinn dóm á það, hvað fært er í þessu efni. Mér sýnist raunar, að það ætti að vera skaðlaust, að það væri lagt eitthvað svolítið meira á vald hreppstjóra eða jafnvel sýslumanns en hér er gert í þessu frv., Staðhættirnir eru svo mismunandi, veðráttufarið er svo ólíkt. Það er ekki svo þægilegt að setja allsherjar reglu, sem ætlað er að gilda undantekningarlaust alls staðar. Ég held, að það geti komið til greina að leggja hér meira á vald staðbundinna yfirvalda en gert er í þessu frv., yfirvalda, sem eru kunnug öllum staðháttum. En sem sagt, ég vildi bara mælast til þess, að hv. n. tæki þetta til athugunar.