14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

53. mál, sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var upphaflega borið fram í hv. Ed. og var flutt þar af landbn. þeirrar hv. d. samkv. beiðni landbrn. Ed. samþ. frv. svo til óbreytt, gerði þá einu breyt., að hún lengdi tímabilið, sem brenna má sinu á, frá 1. marz til 1. maí í tímabil frá 1. des. til 1. maí, því að það mun vera margra álit, að hentugast sé að brenna sinu einmitt á þeim tíma árs, ef jörð er auð og frosin.

Við vorum sammála um það í landbn. þessarar d., að það væri eðlilegt, að það væru sett l. um sinubrennur, því að vitaskuld geta þær alltaf leitt til þess, að tjón verði af, ef ekki er farið að með gát. Þær reglur, sem bændum er ætlað að fara eftir, er einkum að finna í 2. gr. frv. l. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að það sé bannað að kveikja í sinu og brenna innan kaupstaða, en aftur á móti sé það leyft í sveitum með þeim skilyrðum, sem eru sett í 2. gr. frv. Ég vil taka það fram, að okkur barst bréf frá Dýraverndunarfélagi Íslands, þar sem þess var óskað, að undanþáguákvæðin í 6. gr. frv. yrðu felld niður, en þar segir, að það sé leyfilegt að brenna sinu til 15. maí á svæðum norðan Ísafjarðardjúps og yfirleitt um norðanvert landið, því að svo getur hagað þar til, að snjór liggi þar á jörðu í byrjun maímánaðar, svo að ekki sé hægt að brenna sinu á þessum svæðum, en ég vil taka það fram, að aðalreglan á að vera sú, að sinubrennur séu ekki leyfðar eftir 1. maí nema nauðsyn beri til. Það var skilningur okkar í hv. landbn. En hreppstjórum er ætlað að hafa eftirlit með þessum málum öllum, og menn verða að sækja um leyfi til þeirra, ef þeir ætla sér að brenna sinu á jörðum sínum. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frv. frekar. Landbn. leggur til, að það verði samþ. eins og það kom frá hv. Ed.