09.12.1965
Neðri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

88. mál, sala eyðijarðarinnar Efri-Vallar í Gaulverjabæjarhreppi

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 148, sem er flutt af mér og hv. 3. þm. Sunnl., fer fram á það að veita ríkisstj. heimild til að selja Stefáni Jasonarsyni, bónda í Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi, eyðijörðina Efri-Völl þar í sveit, en sú jörð er lítið kotbýli, sem hefur verið í eyði nú um nokkurra ára skeið, er sama sem húsalaus og hefur alltaf verið lélegt kot. Vorsabær er hins vegar frekar landlítil jörð og hefði mikla þörf fyrir að bæta við sig landi þessarar jarðar, en svo vel stendur á um þá sameiningu, að lönd jarðanna liggja saman. Með frv. er birt sem fskj. bréf hreppsnefndarinnar í Gaulverjabæjarhreppi, þar sem segir, að hreppsnefndin mæli með því, að þessi kaup og sameining þessara jarða geti farið fram. Ég sé enga ástæðu til þess að vera að hafa um þetta fleiri orð. Málið skýrir sig sjálft. Ég vildi leyfa mér að leggja til, að þegar þessari umr. er lokið, verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. landbn.