07.12.1965
Neðri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

69. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem fram kom í forspjalli mínu fyrir frv. hér næst á undan á dagskránni um almannatryggingar, er frv. þetta einnig í nánu samhengi við það frv. Með afnámi skerðingarákvæða í l. um almannatryggingar, sbr. lög frá 28. des. 1960, var opinberlega staðfest, að efnahagur bótaþega skyldi sem meginregla ekki hafa áhrif á upphæð bóta. Með þessu frv. er einnig lagt til, að efnahagsviðmiðun verði felld niður í sambandi við ríkisframfærsluna. Þá er enn fremur lagt til með frv., að úr þessum l. verði fellt ákvæðið um styrki til þeirra, sem þarfnast gervilima og umbúða af því tagi, svo og aðra styrki til sömu aðila, þar sem sjúkrasamlögunum og Tryggingastofnuninni er ætlað að taka við því verkefni.

Upphaflega var ríkisframfærslunni ætlað að aðstoða í baráttu við berklaveiki, en með árunum var starfssvið hennar stækkað, vegna þess að sjúkratryggingar voru annaðhvort engar eða mjög ófullnægjandi. Endanlegt mark í þessum efnum hlýtur hins vegar að vera það, að sjúkrasamlögin taki alveg að sér hjálp vegna sjúkra og sú verkefnaskipting, sem ríkt hefur í þessum málum, verði afnumin. Með því ætti að mega spara vinnu og óþarfa skriffinnsku án þess að skerða í raun og veru aðstoðina við hina sjúku.

Svo sem tekið er fram í grg. fyrir frv., hefur ríkisstj. nú til athugunar, að ríkisframfærsla sem slík verði lögð niður, a.m.k. í því formi, sem hún nú er, þess í stað verði Tryggingastofnun ríkisins falið að hefja undirbúning að því, að sjálfar sjúkra- og lífeyristryggingarnar geti tekið við hlutverki ríkisframfærslunnar eigi síðar en á árinu 1967.

Frv. þetta var eins og hið fyrra samþ. einróma og mjög skjótlega í Ed. Alþ. og alger einhugur um málið þar. Ég vænti, að það sama geti átt sér stað í þessari hv. þd. og málið fái skjóta afgreiðslu, þannig að það hljóti einnig afgreiðslu þessarar hv. d., áður en jólafrí verður gefið.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.og félmn.