28.02.1966
Efri deild: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

30. mál, aðför

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um breyt. á 27. gr. l. um aðför frá 19. nóv. 1887, en grein þessari var á sínum tíma breytt með I. nr. 18 23. júní 1932. Greinin fjallar um það, hversu nærri megi ganga gjörðarþola með aðför, þegar fjárnám er gert eftir dómi eða annarri aðfararheimild.

Í núgildandi I. á skuldari rétt á að halda eftir verðmætum þeim, sem talin eru í l. mgr. 27. gr. l., en það eru rúm og sængurföt, er nauðsynleg eru honum, konu hans og börnum. Enn fremur lín og íveruföt, sem þau mega ekki án vera. Eigi hann fyrir heimili að sjá, má hann auk þess undanþiggja fjárnámi nauðsynjar, sem nema að markverði allt að 500 kr., og auk þess allt að 100 kr. fyrir hvert barn, sem er á skylduframfæri hans. Eigi skuldari ekki fyrir heimili að sjá, má hann undanþiggja fjárnámi verðmæti fyrir 100 kr. og sömu upphæð fyrir börn á ómagaaldri, sem hann kann að eiga.

Í frv. er gert ráð fyrir, að upphæðir þessar verði hækkaðar í 5000 og 1000 kr. í stað 500 og 100 kr. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir, að fellt verði niður ákvæði í síðustu mgr. 27. gr. l., sem segir að undanþáguréttindi gildi þó ekki, þegar aðför er gerð fyrir sköttum eða opinberum gjöldum. Með því að fella þetta ákvæði niður í l., yrði sú breyting á þeim, að undanþáguákvæðin giltu einnig, þegar gerð er aðför fyrir opinberum gjöldum, enda segir í 7. gr. lögtakslaganna, að lögtak skuli fara fram eftir ákvæðum laganna um fjárnám, að öðru leyti en því, sem beint er fram tekið í lögtakslögum, að með öðrum hætti skuli vera.

Allshn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. og sent það til umsagnar yfirborgarfógetanum í Reykjavík og stjórn Lögmannafélags Íslands. Yfirborgarfógeti mælir með frv., en lætur í ljós, að verðmæti undanþegin fjárnámi megi sízt minni vera en frv. ráðgerir. Stjórn lögmannafélagsins hefur ekki látið í té skriflega umsögn, en formaður þess félags hefur tjáð mér munnlega, að félagsstjórnin hafi tekið jákvæða afstöðu til málsins.

Niðurstaða af athugunum n. hefur þó leitt til þess, að hún flytur brtt. við frv. á þskj. 249 og leggur til, að í stað 5000 kr. komi 10000 kr. og í stað 1000 kr. komi 2000 kr. Rök fyrir því eru þau helzt, að fróðir menn telja, að 10000 kr. nú séu ekki fjarri því að samsvara 500 kr. 1932, þegar sú upphæð var ákveðin. Auk þess má á það benda, að sé rétt og samvizkusamlega metið, eru ekki veigamiklar eignir, t.d. í innbúi, sem metnar yrðu á 10000 kr., og því tæplega hægt að halda því fram, að of mikið sé gengið á rétt kröfuhafa, þó þessum ákvæðum yrði breytt í það horf, sem till. n. gera ráð fyrir. Enda veigra menn sér við að ganga það nærri gjörðarþola, að hann standi nánast allslaus uppi, sviptur húsgögnum öllum og hvers konar innbúi.

Ég held því, og það er álit n., að þarna sé sanngjarnlega í sakir farið, og n. mælir með því, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem ég hef lýst.