14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

69. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um þetta frv. Það stendur í flestum atriðum í beinu sambandi við það frv., sem hér var áðan afgr. til 3. umr. Frv. felur það í sér, að horfið verði frá efnahagsviðmiðun í sambandi við ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, enn fremur er lagt til, að niður verði felldir styrkir þeir, sem ríkisframfærslan hefur veitt til örkumla fólks, þar sem almannatryggingar taka nú við því hlutverki samkv. hinu frv.

Það má geta þess, að í sambandi við bæði þessi frv. hefði e. t. v. verið ástæða til að færa þær upphæðir, sem um er að ræða, á milli liða á 17. gr. fjárl., en í fjvn. var horfið frá því, þar sem sundurliðanir á þeim upphæðum, sem um er að ræða, annars vegar hjá Tryggingastofnuninni, en hins vegar hjá ríkisframfærslunni, eru ekki á 17. gr. fjárl. En fjvn. treystir fullkomlega þeim aðilum, sem um þetta fjalla, til þess að færa þessar upphæðir á milli í réttum upphæðum samkv. þessum tveimur frv., sem nú er verið að afgreiða frá þinginu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Heilbr.- og félmn. leggur einróma til, að frv. verði samþ.