01.04.1966
Efri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

37. mál, skrásetning réttinda í loftförum

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af samgmn. Nd. eftir ósk hæstv. samgmrh. Var frv. samþ. óbreytt í Nd. Þetta frv. er í raun og veru fylgifrv. með frv. um loftferðir, sem samþ. var hér á Alþ. fyrir 2 árum síðan. Aðalefni þessa frv. kemur fram í upphafi grg., en þar segir, að samkv. l. gr. 1. nr. 49 1947 skuli um stofnun og verð eignarréttar og eignarhafta á skrásettu loftfari fara eftir reglum um fasteignir, að svo miklu leyti, sem þeim verður komið við. Nú eru loftför alþjóðleg samgöngutæki, og er auðsætt að móta ber reglur um eignarrétt og eignarhöft í loftförum með hliðsjón af því. Genfarsáttmálinn frá 19. júní 1948 geymir reglur um þessi efni. Er sáttmálinn reistur á málamiðlun milli lögskipana sáttmálaríkjanna. Ísland undirritaði sáttmálann, en hefur eigi fullgilt hann.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er við það miðað, að Ísland staðfesti sáttmálann og öðlist þar með þá vernd fyrir loftför sín í sáttmálaríkjunum, sem sáttmálinn veitir. En sáttmálinn geymir reglur um, að hve miklu leyti sáttmálaríki ber að virða réttindi í loftförum, er heima eiga í öðrum sáttmálaríkjum. Koma slíkar reglur einkum til greina, þá er innlendur aðili eignast erlent loftfar og svo, ef lögsókn er hafin gegn fyrirsvarsaðila erlends loftfars hér á landi. Sérstaklega má benda á, að aðild ríkis að sáttmálanum veitir hagræði, þá er leitað er láns gegn veði í loftförum.

Eins og heyra má, er þetta frv. mjög sérfræðilegs eðlis, en það er hins vegar samið af hinum færustu mönnum. Samgmn. hefur athugað þetta frv., og n. mælir með því, að frv. verði samþykkt án breytinga.