14.02.1966
Efri deild: 35. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

104. mál, sala hluta úr landi ríkisjarðarinnar Vorsabæjar og eignarnámsheimild á lóðum

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Landbrn. hefur sent landbn. Ed. þetta frv. og óskað eftir því, að n. flytti það. Einstakir nm. hafa lítið á frv. og orðið sammála um það, að eðlilegt sé að verða við þessari bón n., en hafa hins vegar ekki áttað sig að öllu leyti svo á málinu, að fyrir liggi yfirlýsing um stuðning við málið frekar en fram mun koma, þegar málið hefur verið athugað betur.

Aðalatriði þessa frv. er það, að ríkisstj. fái heimild til að selja Hveragerðishreppi hluta úr landi Vorsabæjar, sem er eign ríkisins. Á landi Vorsabæjar eða á því landi, sem hér er óskað eftir að heimild fáist um að selja, standa miklar byggingar í Hveragerðishreppi. Enn fremur er óskað eftir því, að heimild fáist fyrir því að taka einstakar lóðir, sem leigðar hafa verið á erfðafestu eða seldar, eignarnámi, ef þurfa þykir, vegna skipulags í hreppnum. Fordæmi munu vera fyrir því, að ríkið selji eignir sínar, þegar svona stendur á, t.d. að því er snertir Eyrarbakka og Stokkseyri.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í einstök atriði þessa frv., þar sem ég hef ekki einu sinni kynnt mér öll atriði þess til hlítar, og því síður n. öll. Geri ég ráð fyrir því, að n. taki þetta mál til athugunar, áður en 2. umr. fer fram. En þar sem þetta er flutt af n., tel ég þó ekki ástæðu til að vísa því sérstaklega til n., heldur að yfirlýsing mín verði látin nægja um það, að landbn. taki þetta mál til athugunar, áður en það kemur aftur hér fyrir þessa hv. deild.