25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

76. mál, vegalög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. á þskj. 92 flytur hæstv. ríkisstj. frv. til l. um breytingar á vegal., sem hæstv. samgmrh. var að gera grein fyrir rétt áðan. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því að hækka skattinn á benzínlítra um 90 aura og hækka þungaskatt af bifreiðum um 30–35%. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því, að með þessari breytingu færi benzínverðið hér á landi að verða svipað og í nágrannalöndunum, þó að eitthvað væri af löndum, þar sem það væri hærra. Hins vegar gat ekki hæstv. ráðh. um það eða láðist að gera samanburð á vegakerfi annarra landa og vegakerfi því, sem við Íslendingar búum við. Ég held, að þeim, sem hafa kynnzt hvoru tveggja, finnist þar æðimikill munur á vera.

Hæstv. núv. stjórnarflokkar hafa þá hækkað benzínskattinn um 225% á því tímabili, sem þeir hafa setið að völdum. Um þessa hækkun er það að segja, að það hefur verið stefna okkar hér á hv. Alþ., að það yrði að leggja nokkuð hart að sér um hækkun á benzínskatti og álögur á umferðina í landinu til þess að bæta úr ástandi vegakerfisins, sem svo mjög er ábótavant í okkar landi. Það var því hér á hv. Alþ. fyrir tveimur árum samstaða um að leggja 100 millj. kr. í nýjum álögum á umferðina í landinu til þess eins að bæta úr vegamálunum, en ekki til annars. Um það var samstaðan. Nú er rétt að víkja nokkuð að því, hvernig viðskipti ríkissjóðs annars vegar og umferðarinnar hins vegar hafa verið hin síðustu ár, og það er orðin allmikil breyting á því einmitt á síðustu árunum, og í skýrslu, sem Félag ísl. bifreiðaeigenda lét frá sér fara á s.l. hausti, kemur fram, að gert er ráð fyrir, að á árinu 1964 hafi tekjur ríkissjóðs umfram það, sem fór til umferðarinnar, verið 395 millj. kr. Á árinu 1963 voru þetta 325 millj. kr. Og eftir upplýsingum, sem ég hef síðast fengið, munu þessar tölur þó heldur vera of lágar en hið gagnstæða. Vitanlegt er, að á árinu 1965 er þetta hærri upphæð en fyrr, m. a. vegna þess, að á fjárl. yfirstandandi árs voru tekjur af leyfisgjöldum hækkaðar.

Ég hef áður lýst því hér á hv. Alþ. og minn flokkur, að það, sem stefna bæri að í vegamálunum, væri það, að allir sérskattarnir, sem á umferðina væru lagðir, gengju beint til vegamálanna, og við höfum einnig lýst því yfir, að við værum til viðtals um það, Framsfl. menn, að hækka gjöldin á umferðinni, ef þau gengju beint til vegaframkvæmda í landinu. Það er til þess að undirstrika þá skoðun okkar, hvað við eigum mikið vangert í vegamálunum, að við höfum lýst þessu yfir. Hins vegar höfum við ekki lýst yfir þeirri stefnu okkar, að við vildum fylgja þeirri þróun, sem er að eiga sér stað í ríkum mæli, að ríkissjóður taki æ meira og meira af umferðinni til sinna þarfa án tillits til vegagerðar í landinu. Nú hefur, jafnhliða því sem álögurnar á umferðina hafa verið svo hækkaðar sem raun ber vitni um og ríkissjóður tekið æ meira og meira í sinn hlut, á s.l. hausti verið lagður sérstakur skattur á þá, sem aka til Keflavíkur, sérstakur skattur er nú boðaður á alla bifreiðaeigendur í sambandi við fyrirhugaða breytingu í hægri handar akstur, og nú lýsti hæstv. ráðh. yfir í ræðu sinni hér áðan, að hann væri að skipa n. til þess að finna einn skattinn enn þá, því að hún átti að finna tekjur handa vegagerðinni, án þess að þær kæmu við ríkissjóð. Þess vegna held ég, að henni muni reynast það erfitt nema búa til einn skattinn enn þá. Og þá er ráðh. hæstv. sjálfur þrotinn að hugkvæmni og leitar nú til n. til þess að leysa þetta verkefni fyrir sig.

En hver er ástæðan til þess, að frv. það, sem hér er flutt og nú er verið að ræða hér í hv. d., er flutt? Er það til þess að auka fé til vegagerðar í landinu? Í upphafi athugasemdanna við lagafrumvarp þetta segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með frv. þessu er að því stefnt að afla fjár til vegaframkvæmda í þeim mæli, sem gildandi vegáætlun gerir ráð fyrir árin 1965 og 1966.“

Hvaða ástæða er til þess að fara að afla sérstaks fjár til þess að standa við vegáætlunina ? Við skulum líta á vegáætlunina sjálfa. Þar sjáum við, að það er fyrir þessu séð. Vegáætlunin er byggð upp með þeirri fjárþörf, sem útgjöldin eru miðuð við. En hvernig hefur orðið framkvæmdin á vegáætluninni? Að því ætla ég nú nokkuð að víkja, en vil þó, áður en ég geri það, minna á það, sem ég kom hér að áðan, að þegar frv. að vegal. var hér til meðferðar í des. 1963, var alger samstaða um að afgreiða það mál á mjög stuttum tíma, óvenjustuttum tíma og raunverulega allt of stuttum tíma til þess að afgreiða svo veigamikið mál sem þar var á ferðinni. En samstaðan var um það að leggja á þjóðina 100 millj. kr. í nýjum sköttum vegna þess ástands, sem var í vegunum. En þá varð líka nokkur umr. um það, hvort það væri ekki tryggt, að á þessu tímabili mundi ríkissjóður aldrei leggja fram minna fé en þær 47 millj. kr., sem í vegal. var greint að hann mundi gera. Og í sambandi við það þótti það ekki nógu tryggt, svo að einn af hv. þm. hér, hv. 5. þm. Austf., flutti till. á þskj. 145, sem var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Við greinina bætist (þ. e. 89. gr.): og sé það eigi lægra en 1/4 hluti þess fjár, sem fæst samkv. 85. og 87. gr. frv.“ Þær tekjur, sem eru samkv. 85. og 87. gr. vegal., eru tekjurnar af benzínskattinum, þungaskattinum og gúmmígjaldinu. En aftur í 89. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til greiðslu kostnaðar samkv. l. þessum skal auk þeirra gjalda, sem um getur í 85. og 87. gr., veita árlega sérstakt framlag á fjárl.“

Þessi tillaga átti að tryggja það, að sama hlutfall væri í fjárveitingu ríkissjóðs samkv. fjárl. og gert var ráð fyrir á hinni fyrstu vegáætlun, sem afgr. var samhliða eða í kjölfar vegal. Um þetta urðu nokkrar umr., og í því sambandi langar mig að leiða fram vitni til þess að sýna viðhorf hv. Alþ. til þessa atriðis í vegalagafrv. og í vegal. Það er, að fjárveiting samkv. fjárl. til vegamálanna verði ekki minni en þar er greint.

Hæstv. vegamálaráðh. sagði hér áðan, að hann sæi ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það, þó að felld hefði verið niður greiðsla af fjárl. Það er kannske ástæða til, að hæstv. vegamálaráðh. hafi ekki viljað fjölyrða um það, þegar það er haft í huga, sem fram kom í þessum umr. fyrir tveimur árum hér á hv. Alþ., en þar segir svo í ræðu, sem flutt var 14. des. 1963, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hygg, að úr því að þessu sinni er ákveðið, að framlag ríkissjóðs skuli vera 47 millj., þurfi varla að óttast það, að sú upphæð verði lækkuð. Ef miða á við reynslu undanfarinna ára, er miklu líklegra, að sú upphæð verði hækkuð.“

Hver haldið þið, að hafi sagt þetta? Haldið þið, að það hafi verið einn úr stjórnarandstöðunni, sem þannig talaði? Þetta er tekið upp úr ræðu hæstv. samgmrh., Ingólfs Jónssonar, þegar hann var að tala um þessa till. En það eru ekki öll kurl komin til grafar, því að hæstv. ráðh. sagði meira um þetta mál á Alþ. fyrir tveim árum. Í ræðu, sem hann flutti hér í hv. d. 17. des. 1963, sagði hann m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Og ég held, að reynslan kenni hv. þm. þarfa lexíu um þetta allt saman, því að þótt allir hafi kvartað undan of litlu framlagi til vegamála á undanförnum árum, hafa framlög þó alltaf stöðugt farið hækkandi, stöðugt hækkandi á öllum fjárl., og þess vegna er ég sannfærður um það, að það verður ekki barátta um það, hvort þessi útgjaldaliður fjárl. eigi að lækka í framtíðinni, heldur snýst baráttan um það, hversu mikið hann eigi að hækka.“

Ég vil benda á, að samkomulag það, sem gert var hér á Alþ. fyrir tveimur árum, var m. a. gert út frá þessum yfirlýsingum hæstv. vegamálaráðh. En hvernig hefur svo framkvæmdin orðið á vegáætluninni þennan stutta tíma, sem hún hefur gilt? Á árinu 1964 má segja, að hún væri áfallalaus hvað fjármálunum viðvíkur. En strax á árinu 1965 eða á fyrsta ári fjögurra ára vegáætlunarinnar er gerbreyting á þessu. Hæstv. ríkisstj. taldi sig hafa heimild í fjárl. til þess að fresta verklegum framkvæmdum um allt að 20%, fjárveitingum til þeirra. Og hún notaði þessa heimild til þess m. a. að skera niður framlagið, sem ríkissjóði var ætlað að greiða á vegáætlun. Nú leyfist mér að spyrja: Hvaðan hefur hæstv. ráðh. eða þeir, sem því hafa ráðið, heimild til þess að fella algerlega niður framkvæmd verka, sem ákveðin voru samkv. vegáætlun? Hvaðan er sú heimild? Ég vil í því sambandi nefna brú eins og brú á Norðurá í Mýrasýslu. Það var ákveðið á vegáætluninni, að hún skyldi byggð á árinu 1965, og það var lögð sérstök áherzla á það við okkur þm. Vesturlandskjördæmis að gera ekki breytingu á þeirri till., þegar málið var hér til meðferðar, vegna þess, hvað þessi brú er orðin gömul. En það hefur verið frestað framkvæmdinni. Hvaðan er heimildin? Ég treysti hæstv. ráðh. til þess að gefa okkur skýringu á því. Heimildina er ekki að finna í vegáætlun. Og hvað gerist svo eða á að gera á næsta ári, þetta fyrsta áætlunartímabil vegáætlunarinnar? Það á að fella algerlega niður þessar 47 millj. kr., sem hæstv. samgmrh. sagði okkur hér í desember, að slagurinn yrði um að hækka, hitt yrði öruggt, að þær yrðu ekki felldar niður eða lækkaðar. Og hæstv. ráðh. benti á það þá, að þörfin fyrir aukið vegafé mundi fara vaxandi, enda er svo, því að þótt ekki sé á annað litið en kostnaðinn við að gera framkvæmd í vegagerð nú og þá, þegar við vorum að afgreiða vegalagafrv. fyrir tveim árum, hefur hann í nýbyggingu vaxið um 20%, í vegaviðhaldi um 27% og í brúargerðinni um 34%. Það er því ekki ástæða til, þegar á það er lítið, annað en að í heiðri sé höfð sú skoðun, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. þá, og ég vil til viðbótar því, sem ég hef áður greint, segja það máli mínu til stuðnings og vitna hér enn í ræðu hans frá 17. des. 1963, en þá sagði hann um þetta m. a.:

„Fjárþörfin verður þess vegna vaxandi, og þessi gjöld, sem nú er verið að lögfesta, eru undirstaða undir því, sem við ætlum að gera. En ég er sannfærður um, að við höldum uppi kröfu um það, að ríkissjóður auki framlög sín úr 47 millj. kr. til mikilla muna.“

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er hann kröfugerðarmaðurinn um að auka þessar fjárveitingar samkv. fjárl. til mikilla muna? Hér á hv. Alþ. er ekki hæstv. ráðh. að leggja til að auka fé til vegamála. Hann er að leggja til, að umferðin sé látin greiða það, sem ríkissjóður átti að greiða og var lýst yfir af honum að hann mundi greiða til vegamálanna og gert var ráð fyrir í vegáætlun að hann gerði 1965 og 1966. Hér er á ferðinni miklu stærra mál en raunverulega þetta frv., sem er þó nokkurt mál, því að það eru ekki orðnar litlar álögurnar á umferðina í landinu og fara árvaxandi og boðað enn þá meira, en stærsti hluturinn í þessu er þó það, að það var samkomulag um að leysa þetta mál hér á hv. Alþ. fyrir tveim árum. Samkomulagið byggðist m. a. á því og margyfirlýst í ræðum hæstv. ráðh., að fjárveiting samkv. fjárl. yrði aldrei minni en 47 millj. kr. Það er þetta samkomulag, sem nú er vikið frá. Hér er stærsta atriðið í málinu, að hæstv. ráðh., sem stóð hér fyrir tveimur árum og lýsti því yfir oft og mörgum sinnum, að það yrði ekki minna varið af fjárveitingum samkv. fjárl. til vegamála en 47 millj. kr., hann talar nú fyrir frv. um að leggja á umferðina í landinu þessar 47 millj. kr., til þess að hægt verði að halda uppi framkvæmdunum, af því að ríkissjóður á að sleppa við sitt. Hér er því meira en fjárhagsmál á ferðinni. Hér er um það að ræða. hvort á að halda samkomulag, sem gert er hér á Alþ. af öllum hv. þm. Og ef menn vilja draga það í efa, að þetta hafi verið nægjanlega undirstrikað af hæstv. ráðh. í des. 1963, vil ég bæta við einu enn þá úr ræðu hans 17. des. það ár, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir hæstv. ráðh. enn fremur:

„Engin hætta er á því og alveg útilokað, að ríkissjóðsframlag til veganna verði lækkað. Það er alveg útilokað. Þörfin fyrir aukið vegafé frá ríkissjóði verður fyrir hendi, þótt vegamálunum hafi verið tryggt fé með benzíngjaldi, þungaskatti og gúmmígjaldi.“

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., þörfin fyrir fé til vegaframkvæmda er mikil og óumdeilanleg, þótt þessir skattar hafi verið upp teknir og þeir gerðir verulega háir. En það, sem var útilokað 1963, alveg útilokað, segir hæstv. ráðh., er að ríkisstj. eða ríkisvaldið felli nokkurn tíma niður þessa fjárveitingu á fjárl. Það er þetta, sem hæstv. ráðh. verður að standa við, því að um þetta varð samkomulag 1963 og það er brostið, ef ríkissjóður stendur ekki við sitt framlag samkv. fjárlögum.