25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

76. mál, vegalög

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð um þetta mál. sem fjallar um það að hækka benzínskatt eða innflutningsgjald af benzíni og þungaskatt til þess fyrst og fremst að mæta þeirri niðurfellingu á 47 millj. kr. fjárveitingu til vegaframkvæmda, sem var í fjárl. þessa árs, af þeirri ástæðu, að í fjárlagafrv. fyrir 1966 er gert ráð fyrir, að þetta framlag sé fellt niður. Þó að ég efist ekkert um það, að kollegi minn, hæstv. samgmrh., þurfi ekki neinnar aðstoðar við til að útskýra það, sem hér er verið að gera, þykir mér sjálfsagt, að það komi hér fram, að þetta er að sjálfsögðu ein af till. mínum til þess að jafna hallann á fjárl., og vitanlega hefur ekki samgmrh. verið neinn baráttumaður fyrir því, að þetta verði gert, enda þótt hann hafi á það fallizt til þess að mæta þeim mikla vanda, sem hér var við að glíma.

Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. fjárl., hversu horfði með ríkisbúskapinn, hver hefði orðið staða hans á s.l. ári, þar sem um var að ræða stórkostlegan halla, sýnilegan halla á þessu ári og útilokað með öllu að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög á árinu 1966 nema með alveg sérstökum ráðstöfunum. Efast ég ekki um, að hv. 3. þm. Vesturl., sem á sæti í fjvn. Alþ. og er með fróðari mönnum hér um fjárreiður ríkisins, sé þetta fullkomlega ljóst, að ráðstafanir hafi þurft að gera í þessa átt. Við getum auðvitað haft mismunandi skoðanir á því, hvernig þetta hafi átt að gerast, og það getur vel verið, að hann eða einhverjir aðrir hv. þm. hafi um það aðrar hugmyndir. Og eins og ég sagði í framsöguræðu minni við fjárl., er það að sjálfsögðu ekkert sáluhjálparatriði, hvaða leiðir eru farnar í þessu efni. En það er höfuðatriði, sem ekki er hægt að una við annað en verði framfylgt í reynd, að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., þannig að ef það er skoðun manna, að þá ráðstöfun, sem hér er lagt til að gera í þessu sambandi m, a., þá ráðstöfun, sem felst í þessu frv., — ef menn eru þeirrar skoðunar, að þá leið eigi ekki að fara, hvílir á þeim tvímælalaust sú skylda að benda á það, hvaða önnur úrræði eigi að velja. Það er ekki nóg að mótmæla því, sem lagt er til að gert verði, heldur verða þá ábyrgir þm. um leið að svara því til, hvað eigi að gera í staðinn. Og sannast sagna þótti mér það nokkuð einkennilegt í ræðu þessa hv. þm., sem er glöggur og gætinn maður, að í ofanálag að mótmæla með þeirri hörku, sem hann gerði, þeim till., sem hér liggja fyrir, skildist mér helzt, að hann teldi, að það væri tímabært að gera nú, sérstakar ráðstafanir í þá átt, eins og hann orðaði það, að tekjur af umferðinni rynnu yfirleitt allar til vegamála, þ. á m. eins og hann nefndi leyfisgjald bifreiða, sem er mjög stór tekjuliður og er að sjálfsögðu engar sérstakar tekjur af umferð. Það er sérstakt leyfisgjald, sem lagt er á innflutning tiltekinna vara, aðskilið við umferðina. Það mætti alveg eins velja einhvern annan vöruflokk í þessu sambandi. Og almennir tollar auðvitað á þessum vörum sem öðrum, það má endalaust auðvitað útfæra það og segja t.d., að tollar af byggingarefni eigi að falla niður og renna til húsnæðismálastjórnar eða eitthvað slíkt. Þannig má flokka niður flesta tekjustofna ríkisins, þannig að auðvitað gefur auga leið, að við lendum í algerum ógöngum, ef við ætlum að fylgja út í yztu æsar slíkum kenningum. En ef í ofanálag við það að vera á móti þessu frv. bættist svo, að það ætti að taka hundruð millj. af ríkissjóði, af öðrum tekjum hans, miðað við ástandið, sem nú er, skil ég ekki, hvernig þeir menn, sem slíkri kenningu halda fram, ætlast til þess, að þeir séu teknir alvarlega.

Hér er talað um það, að séu mikil brigð á ferð, vegna þess að það er lagt til að fella niður þetta 47 millj. kr. gjald, og hér sé beitt einhverri sérstakri hörku gegn vegagerð umfram aðrar þjóðfélagsþarfir. Ég vil algerlega mótmæla þessari kenningu. Talað er um það, að með því að fara þessa leið, að hækka benzíngjald, í stað þess að ríkissjóður leggi það fram, þá sé verið að létta kvöðum af ríkissjóði. Jú, það má til sanns vegar færa. En hvernig fær ríkissjóður sínar tekjur nema með því að afla þeirra með sköttum eða tollum? Ef hann vantar 47 millj. kr. til þess að greiða í þessar þarfir eða aðrar, þá verður hann að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til að afla þeirra með sköttum á landsmenn í einhverju formi og ég er ekki kominn til með að segja, að það sé réttlátara form í því heldur en sú leið, sem hér er valin. Það hefði auðvitað mátt hugsa sér þá leið, að benzínskattur hefði verið hækkaður og látinn renna í ríkissjóð til þess að mæta þessum 47 millj. kr., en þá hefði ríkið vissulega lagt það fram. Ég álit hins vegar, að það væri hreinn orðaleikur.

Hv. þm. vita væntanlega, að því hefur oft verið haldið fram af ýmsum okkar efnahagsráðunautum, bæði fyrr og síðar, að það væri rétt að nota benzínið sem tekjustofn fyrir ríkissjóð. Á það hefur ekki verið fallizt, og ég tel ekki rétt að fallast á það. Ég tel það hins vegar vera veruleg hlunnindi og geysimikið hagsmunamál fyrir vegagerð í landinu að fá afhentan tekjustofn sem þennan, og þegar við litum á það, hversu ástatt er um ýmsar aðrar opinberar framkvæmdir, sem hafa orðið að búa við það að njóta eingöngu framlaga úr ríkissjóði í gegnum áranna rás, svo sem t.d. hafnargerðir og flugvelli, sem hafa enga tekjustofna, þá sjáum við þann reginmun, sem á því er eða hefur orðið á vegagerðunum við það, að þeim hefur verið afhentur tekjustofn, sem til skamms tíma rann að vissu leyti í ríkissjóð.

Það má vafalaust deila um það og auðvitað hv. stjórnarandstæðingar halda því fram, að það hafi verið óhæfa að skera niður verklegar framkvæmdir í ár og það eigi að hækka þær mikið frá því, sem nú er. Þessu er auðvitað hægt að halda fram í orði. En ekki tjóar að segja ríkinu skylt að greiða þetta eða hitt, ef ríkissjóður hefur ekki fé. Þá verður að gera einhverjar ráðstafanir. Það verður ekki borgað meira úr kassa en í honum er, og það verður þá að leggja á nýja skatta til þess að mæta þessum þörfum. Þannig standa sakir í ár um verklegar framkvæmdir, þ. á m. hafnir og flugvelli og fleiri þarfir slíkar ásamt vegunum, að framlag ríkissjóðs til þeirra var lækkað um 20% samkvæmt heimild fjárl., og ég held, að það efist enginn um, að sú heimild sé lögleg. Og það hefur jafnframt komið í ljós við samningu fjárl. fyrir árið 1966, að það yrði óumflýjanlegt að halda þeirri skerðingu áfram, vegna þess að ella yrði að afla stórfelldra nýrra skatta til þess að mæta þessum útgjöldum. Með þessum aðferðum hafa almennir fjárfestingarliðir orðið fyrir því áfalli, að þeir hafa verið skornir niður um 20%, vegamálin að vísu líka í ár, sem veldur því, að framlög til þeirra lækka um nærri 9 millj., hefðu lækkað um annað eins á næsta ári, ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Með þeirri ráðstöfun, sem hér er gerð af hálfu ríkisstj. með hækkun á benzínskatti, er þetta ríflega jafnað, þannig að vegaframkvæmdir geti, eins og hæstv. samgmrh. sagði, haldið áfram með fullum hraða, þannig að hér er ekki um skerðingu að ræða, enda þótt aðrar verklegar framkvæmdir verði við slíka skerðingu að búa.

Mér er það fullkomlega ljóst, þekkjandi vel til úti um land, að vegamál eru auðvitað eitt af okkar stærstu vandamálum. Um það er engum blöðum að fletta, og það er þess vegna nauðsynlegt að halda þeim áfram með fullum krafti og það er ástæðan til þess, að það hefur verið gerð ráðstöfun til þess að afla fjár með skattlagningu á benzín. Það getur vel verið, að hv. þm. segi: Það á að afla þess með skattlagningu á eitthvað annað. — Það er sjónarmið út af fyrir sig, sem er vert að íhuga. En það hefur verið gerð ráðstöfun til að afla þessa fjár með þessum skatti, eins og gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að mæta ýmsum öðrum þörfum með nýjum skatti, og framkvæmdir eða útgjöld ríkissjóðs geta auðvitað aldrei orðið leyst með öðrum hætti, ef fé vantar. Og hér hafa vegirnir verið settir í sérflokk. Það eru skertar áfram aðrar opinberar framkvæmdir, en hins vegar gerðar ráðstafanir til að afla tekna til þessara sérstöku þarfa.

Ég get ekki séð, að við það sé neitt að athuga, að þjónustustarfsemi á einu eða öðru sviði sé haldið uppi að verulegu leyti með gjöldum á þá, sem fyrst og fremst nota þessa þjónustu. Það er í ótal greinum og jafnvel þær stofnanir algerlega látnar standa undir öllum sínum tilkostnaði, bæði stofn- og rekstrarkostnaði. Við skulum taka til dæmis póst og síma, sem innir af hendi mjög mikilvæga þjónustu fyrir þjóðfélagsborgarana. Það er ætlunin, að þeir, sem nota þá starfsemi, beri hana uppi. Sama er um ríkisútvarp og margar aðrar greinar í þjóðfélaginu. Og ég sé ekki, að það sé með neinum hætti hægt að segja, að það sé forkastanlegt, að fjár til vegagerða sé aflað með þeim hætti að skattleggja vissar nauðsynjar, sem eru í þágu þeirra, sem fyrst og fremst nota vegina og þurfa á þeim að halda. Þjóðin öll hefur auðvitað sitt gagn af því, því er ekki að leyna, en engu að síður og með hliðsjón af, eins og ég sagði, mörgum öðrum hliðstæðum dæmum í því efni, þá held ég ekki, að það sé með neinum rökum hægt að halda því fram, að það sé eðlilegra að afla slíks fjár með almennum sköttum á alla þjóðfélagsborgara heldur en að afla þess með sköttum á sérstakar þarfir, sem eiga við í því sambandi.

Ég geri alls ekki ráð fyrir því, að hv. 3. þm. Vesturl. eða raunar neinn hv. þm., sem hefur haft aðstöðu til þess að kynna sér, hversu ástatt er um fjárhag ríkissjóðs, muni í alvöru leyfa sér að neita því, að það hafi þurft að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að auðið væri að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl. Og ég geri ekki heldur ráð fyrir því, að neinn hv. þm. haldi því í alvöru fram, að það sé frambærilegt að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla. Við getum, eins og ég áðan sagði, haft mismunandi meiningar um það, hvort það eigi að afla þessa fjár, sem til þarf, með þeim hætti, sem lagt er til í sambandi við fjárlfrv., eða með einhverjum öðrum hætti. En ég álít, að það verði að krefjast þess og sé með fullri sanngirni hægt að krefjast þess af hv. þm., sem deila með hörku á þær tillögur, sem fram koma í þessu efni, a.m.k. gera með fullum rétti kröfu til þeirra, sem hafa með höndum að annast um endanlega afgreiðslu fjárl. af þingsins hendi, að þeir bendi þá á á móti, hvaða úrræði önnur á að hafa til þess að jafna fjárl. Á annan hátt er ekki hægt að taka orð þeirra háalvarlega. Og eins og ég áðan sagði, ef menn endilega vilja fara út í þann orðaleik, að það sé verið að svíkja eitthvað í sambandi við vegamálin með því að útvega fullkomlega það fé til þeirra, sem lofað var, með þessum hætti, sem hér er hafður, að hækka benzínskattinn og láta hann renna beint í vegasjóð, þá, eins og ég sagði áðan, ef menn vilja forðast slíkan orðaleik, þá mátti auðvitað hafa þá aðferð, sem enginn gat hindrað, að Alþingi hækkaði benzínskattinn og léti það renna í ríkissjóð til tekjuöflunar og borgaði síðan þær 47 millj. aftur til veganna. Ég held því, að það þjóni ekki ákaflega miklum tilgangi brigzlyrði til og frá um það, að einn eða annar hafi svikið eitthvað í því efni. Það, sem höfuðmáli skiptir, er, að fjárins sé aflað til þess að koma vegagerðunum áfram, og það álít ég að sé fullkomlega gert með þessum hætti og því ástæðulaust að halda uppi neinum brigzlyrðum um, að þar séu einhver svik á ferð.