22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

155. mál, hreppamörk milli Hafnarhrepps og Nesjahrepps

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af okkur 4 þm. Austf. í d. og í fullu samráði við þann 5., sem á sæti í hv. Ed. Við stöndum sem sagt allir að þessu frv., en það er um breyt. á hreppamörkum milli Hafnarhrepps og Nesjahrepps í A-Skaftafellssýslu.

Þannig stendur á, að kauptúnið í Höfn er verzlunar- og útgerðarstaður Austur-Skaftfellinga, og þar er eina höfnin í sýslunni, en fyrir 20 árum var Nesjahreppi skipt og Hafnarkauptún gert að sérstöku hreppsfélagi. Nær Hafnarhreppur yfir landareign jarðarinnar Hafnarness, og voru landamerki þeirrar jarðar látin ráða hreppamörkunum, þegar þessi ákvörðun var gerð. En Hafnarhreppur tók þá að sér rekstur hafnarinnar að öllu leyti, og fyrsta hafnarreglugerðin var sett 1936.

Nú hagar þannig til, að eyjan Ósland, sem fyrir nokkru var tengd landi Hafnarkauptúns með uppmokstri úr höfninni og upphlöðnum veggi, liggur að höfninni að sunnan, en eyjan er í landi jarðarinnar Horns, sem er í Nesjahreppi, þannig að aðliggjandi land þessarar hafnar er í tveimur hreppum.

Nú standa miklar hafnarframkvæmdir fyrir dyrum í Hornafirði, og fyrirhuguð hafnarmannvirki eiga m.a. að koma meðfram eyju þessari, Óslandinu, enda er aðstaða þar hin bezta. Því er nauðsynlegt, að höfnin fái land í Óslandinu, sem er í Nesjahreppi. Samkomulag hefur ekki tekizt á milli hreppsnefndanna um breytingu á hreppamörkum, þannig að Ósland tilheyri Hafnarhreppi, en formaður Sambands ísl. sveitarfélaga hefur haft á hendi milligöngu um viðræður á milli aðila í samráði við okkur þm. Hefur hann tjáð okkur, að nánast virðist ágreiningurinn nú orðinn um bótafjárhæð, og gæti þá sætt tekizt um, að Óslandið félli allt til Hafnarhrepps. Ákjósanlegast hefði verið, að hrepparnir hefðu getað náð samkomulagi um málið, en hafnarmálið er mál allra Austur-Skaftfellinga og enginn ágreiningur um það, að þessar hafnarframkvæmdir þoli enga bið.

Nú er gert ráð fyrir því með frv., að enn verði reyni til þrautar að ná samkomulagi um bótafjárhæð til Nesjahrepps vegna Óslandsins, en jafnframt er lagt til, að matsgerð óvilhallra aðila verði látin skera úr um bótagreiðslu vegna breyt. á hreppamörkunum, náist ekki samkomulag innan þriggja mánaða frá gildistöku þessara l. Þetta mál þolir nú ekki bið, og vildum við mega vonast til þess, að fyrir því verði greitt í hv. þd., en það er flutt að eindreginni ósk hreppsnefndar Hafnarhrepps.