25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

76. mál, vegalög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú ekki að ástæðulausu, að hæstv. fjmrh. talar strax fyrir því frv., sem hér hefur verið lagt fram, enda sýnist mér, að það hefði verið í rauninni miklu réttara, að hann hefði lagt fram þetta frv. og talað fyrir því frá upphafi, en ekki hæstv. samgmrh., því að eins og hér hefur þegar komið fram í þessum umr., getur það ekki farið fram hjá neinum hv. þm., að hér er um tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð að ræða fyrst og fremst, en ekki neina sérstaka tekjuöflun fyrir vegagerðina í landinu. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. talið það hentugra, ekki aðeins í þessu tilfelli, heldur einnig í ýmsum fleiri, að fara þá leiðina nú, þegar hún þykist þurfa að afla ríkissjóði nýrra tekna upp á nokkur hundruð milljónir króna, að leggja ekki á nýjar álögur fyrir ríkissjóð á þennan beina og almenna hátt, sem gert hefur verið, heldur er hin leiðin valin, að ríkissjóður hættir að borga ýmsar greiðslur, sem á ríkissjóði hafa hvílt og ríkissjóður hefur fengið áður sínar tekjur til þess að standa undir, — ríkissjóður hættir að greiða þessar greiðslur, og svo þarf að leggja á nýjar álögur til þess að standa undir þessum sérstöku útgjöldum, sem heita í sumum tilfellum framlög til vegamála, í öðrum tilfellum heitir þetta að standa undir rekstri rafveitna ríkisins og í enn öðrum tilfellum heitir þetta eitthvað annað, og skal ég kannske víkja nokkru nánar að því síðar, hvernig er ætlað á öllum sviðum hjá hæstv. ríkisstj. að fara þessa leið.

Ég veit, að hæstv. fjmrh. heldur því fram, eins og greinilega kom fram í ræðu hans nú, að það sé orðið svo ástatt hjá ríkissjóði, að það verði að afla nýrra tekna. Ríkissjóður hafi ekki lengur handbært fé til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem lögð hafa verið á ríkissjóð. Þetta er málefni út af fyrir sig, sem hv. þm. verða að gera sér fulla grein fyrir: Hvernig stendur á því, að þeir tekjustofnar, sem ríkið hefur fengið og áttu að duga og dugðu allvel fyrir nokkrum árum, duga ekki nú? Hvað hefur gerzt? Hver er ástæðan til þess arna? Það tel ég vera fyrsta atriðið, sem hv. þm. verða að glöggva sig á, hvað hefur raunverulega verið að gerast, sem því hefur valdið, að ríkissjóður hefur ekki nægilegar tekjur og getur ekki staðið undir þeim útgjöldum, sem honum hefur verið ætlað að standa undir og hann hefur staðið undir á undanförnum árum.

Það þarf ekki lengi að leita. Það er ekkert um það að villast, að tekjustofnar ríkisins á undanförnum árum hafa ekki farið minnkandi, þeir hafa miklu frekar farið hækkandi, tekjurnar hafa verið að vaxa. En útgjöldin hafa vaxið enn þá meir, er sagt. Það er rétt. Og þeir útgjaldaliðirnir, sem vaxa greinilega mest, standa í nánu sambandi við dýrtíðina í landinu, við verðbólguna. Greiðslur ríkisins í formi útflutningsuppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, greiðslur ríkisins til þess að lækka vöruverð innanlands, þessar greiðslur hafa vaxið. M. ö. o.: það vita allir menn, að þetta stendur í beinu sambandi við dýrtíðarvöxtinn í landinu. Auðvitað kemur þarna fleira til um hækkandi útgjöld ríkisins, án þess að ég fari frekar út í það að sinni.

En ég hygg líka, að allir þm. séu sammála um, að allar horfur séu á því, að þetta haldi svona áfram, dýrtíðin muni halda áfram að vaxa, verðbólgan aukist almennt, og það er þá alveg rakin leið, að við eigum von á því, að það komi fram nýtt frv. á eftir nýju frv. um það að leggja niður skylduna á ríkissjóð að standa undir þessum útgjöldum og hinum. Næst á maður eflaust von á því, að hér komi fram frv. um það, að af ríkissjóði verði létt þeim mikla bagga að þurfa að standa undir fræðslumálum í landinu og það eigi að leggja á sérstakan skatt til þess að standa undir kostnaðinum af fræðslumálum. Þar á eftir kemur auðvitað frv. um, að það eigi að létta af ríkissjóði útgjöldum af heilbrigðismálum, og svo á að leggja á sérstakan skatt til þess að standa undir þeim útgjöldum. Og þetta verður vitanlega að gerast, eftir því sem dýrtíðin heldur áfram að vaxa og útgjöld ríkissjóðs í sambandi við dýrtíðarvöxtinn aukast. Það er sýnilegt, í hvaða átt þetta stefnir. Þetta álít ég, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að segja alveg hreinlega og umbúðalaust, að svona væri þessu háttað, að það væri sem sagt dýrtíðarstefnan, sem hér væri að ríða öllu á slig. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað horfast í augu við þennan vanda á þennan hátt og reyna síðan að finna brúkleg ráð til þess að hamla gegn vexti dýrtíðarinnar, því að ég álít, að hún styðji enn þá stefnu í framkvæmd, sem hlýtur raunverulega að leiða af sér vaxandi dýrtíð frá mánuði til mánaðar, alveg óhjákvæmilega. Það er enginn vafi á því, að á meðan sá háttur er á hafður, að allir þeir aðilar í landinu, sem hafa með höndum einhver viðskipti, eru frjálsir að því að verðleggja það, sem þeir selja, svo að segja, þá hækkar dýrtíðin í landinu, a.m.k. á meðan almennt árferði er eitthvað svipað því, sem nú er, og framkvæmdir eru miklar í landinu. Á meðan ríkisstj. vill ekki taka að einhverju leyti undir eftirlit fjárfestingu fyrirtækja og einstaklinga í landinu og strangt eftirlit á verðlagningu í landinu, þá hlýtur dýrtíðin að halda áfram að vaxa, eins og framkvæmdum er háttað í okkar landi, og er ekki auðvelt að stöðva, því að eins og ég hef bent hér á nokkrum sinnum áður í umr., þá er ég fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um það, að sem betur fer er ástandið þannig í okkar þjóðlífi, að það eru öll skilyrði til þess, að framleiðsla þjóðarinnar geti farið ört vaxandi, og það eru einnig skilyrði á erlendum mörkuðum til þess, að þjóðartekjurnar hljóti að vaxa. En þetta tvennt mun leiða það af sér, að það er engin leið, eins og nú standa sakir, að koma í veg fyrir það, að ýmsir notfæri sér þetta ástand. Sé þeim boðið upp á það að verðleggja sína þjónustu eins og þeir vilja, hækka, þegar þeim dettur í hug að hækka, og braska, eftir því sem þeim býður hugur til, þá mun verðlagið halda áfram að hækka í landinu eins og það hefur gert. Þessi stjórnleysisstefna ríkisstj. í þessum efnum hlýtur að leiða af sér þetta á þann hátt, sem við höfum staðið frammi fyrir.

Svo segir hæstv. fjmrh., þegar hann gerir grein fyrir þessum vanda og er að afsaka þennan frumvarpsflutning hér, að allir ábyrgir þm. verði að horfast í augu við vanda ríkissjóðs og leggja fram tillögur um nýja tekjustofna ríkissjóði til handa. En væri nú ekki nær að snúast gegn aðalvandamálinu sjálfu, því vandamáli, sem skapar þessa erfiðleika í greiðslum ríkissjóðs? En til þess þarf ríkisstj. að fallast á að endurskoða stefnu sína í efnahagsmálum. Hún kemst ekki út úr þessum vanda öðruvísi.

Auk þess vil ég svo segja það, að ríkisstj. hefur ekki leyfi til þess að mínum dómi að leggja fram fjárlfrv. upp á um 4000 millj. eða 4 milljarða kr., þar sem hún er búin að ákveða, að þetta skuli útgjöldin vera í hverri einstakri grein, því að það er vitanlega ríkisstj. eða meiri hlutinn, sem hefur ákveðið þessi útgjöld, og þegar búið er að ráðstafa allri þeirri upphæð af ríkisstj. og hennar þingmeirihluta, þá kemur ríkisstj. og segir við minni hlutann hér á Alþingi: Ef á að eyða einhverju umfram þetta, þá verðið þið að útvega peninga upp í það. — Við teljum í minni hlutanum, að við eigum nokkurn rétt til þess að ráðstafa þessum 4000 milljónum ekki síður en meiri hlutinn á Alþingi, við megum a.m.k. gera okkar tillögur um það. Við erum sannarlega ekki sammála um öll þau útgjöld, sem þarna eru tilfærð, og það höfum við oft bent á áður. Þegar bent er á ýmis útgjöld á fjárlfrv., sem auðvelt væri að lækka, þá er það venjulega viðkvæði ríkisstj.: Þetta dregur svo skammt, þetta dregur svo skammt, það tekur því ekki að tala um það. Þó að tilgreindar séu útgjaldatillögur, sem sveiflast upp á nokkra tugi milljóna, þá er viðkvæðið þetta, að þetta dregur svo skammt. En ríkisstj. hefur sjálf nú farið inn á þá leið að afla sér tekna á þann hátt, að hún reynir að dreifa upphæðunum. Hún ætlar að taka 22 millj. kr. í auknum tekjum á því að hækka aukatekjur ríkissjóðs. Hún ætlar að taka 14 eða 16 millj. kr. á sérstökum vegatolli á Reykjanesbraut. Hún ætlar að leggja á sérstakan farmiðaskatt upp á 25 millj. kr. Hún ætlar að leggja á sérstakan benzínskatt upp á 50–60 millj. kr. Hún ætlar að leggja á sérstakan skatt á raforkusölu upp á 40 millj. kr. Og hún ætlar að hækka eignarskattinn um 20 millj. kr. til þess að hafa þar upp í 40 millj. kr. sérstök útgjöld, sem samþ. höfðu verið hér á Alþingi. Þannig hefur ríkisstj. hugsað sér að ná þessu í mörgum mismunandi smáskömmtum til þess að fylla upp í upphæðina. Ætli þessu sé ekki nokkuð svipað varið með útgjöldin, að þar dragi hver milljónatugurinn fyrir sig?

En hæstv. ríkisstj. hefur samt ekki verið til viðtals um það að létta af ýmsum útgjöldum, sem algerlega verða að teljast óþörf. Ég fyrir mitt leyti tel t.d. algera óhæfu, að ríkissjóður sé að borga 6.8 millj. kr. á hverju ári til lögregluhalds innan girðingarinnar á Keflavíkurflugvelli, því að ég held, að þeir, sem þar eru, geti passað sig sjálfir, og við eigum ekki að vera að leggja á arma ríkissjóðs þessi útgjöld. Þetta hef ég bent hér á ár eftir ár, en svörin frá hæstv. ráðherrum eru alltaf þessi: Þessi upphæð dregur ekkert, það skiptir engu máli.

Sama er um það að segja, að hér er, ætla ég, meiri hl. þm. búinn að viðurkenna það í yfirlýsingum um afstöðu sína til þriggja sendiráða á Norðurlöndum, að það sé raunverulega hér þingmeirihluti á móti því að vera að eyða í dýr sendiráð á öllum Norðurlöndum, og það ætti að vinna að því að sameina þetta í eitt sendiráð og spara þannig nokkrar milljónir króna á hverju ári, og ég hef a.m.k. tillögu um, að það megi að mestu leyti spara þær 5.5 millj., sem varið er á ári hverju til hins sérstaka NATO-sendiráðs suður í París. Ég álít líka, að það eigi stórkostlega að draga úr upphæð eins og þeirri, sem er á núv. fjárlfrv. um það að eyða 4 millj. kr. í sérstakan fyrningarsjóð ríkisbifreiða. Ég álít, að þarna séu orðin útgjöld langt umfram það, sem þörf er á.

Ég skal ekki, af því að ég hef gert það áður, að fara að telja hér upp miklu fleiri liði. Það er auðvitað auðvelt að telja upp marga liði, sem ættu að takast til endurskoðunar í sambandi við útgjöld ríkissjóðs. En svo kemur hitt, sem ekki skiptir þó minna máli, að það leikur auðvitað enginn vafi á því, eins og sumir hæstv. ráðh. hafa viðurkennt hér í umr. á Alþingi, að því fer víðs fjarri, að þeir tekjustofnar, sem Alþingi hefur þó samþykkt, skili sér að fullu og öllu í ríkiskassann. Trúir því nokkur maður, að tekju- og eignarskatturinn komi í þeim mæli inn í ríkissjóð, sem hann ætti að koma, ef vel væri á framkvæmd þeirra mála haldið? Ég er ekki í neinum vafa um, að það er skoðun meiri hluta alþm., að eins og framkvæmdinni er nú háttað, þá sleppi þar undan mörg hundruð milljónir króna á ári, sem raunverulega ættu að koma inn í auknum tekjuskatti til ríkissjóðs. Þarna er fyrir hendi tekjustofn, sem ekki er séð um að skili öllum þeim tekjum í ríkissjóð, sem hann ætti að skila. Ég tel að það væri nær að taka til endurskoðunar framkvæmdina á þessum lögum heldur en að fara að leggja á nýjan skatt, eða trúir hæstv. ríkisstj. því, að sá söluskattur, sem almenningur í landinu er látinn borga í gegnum sín viðskipti, komi allur í ríkiskassann? Trúir hæstv. ríkisstj. því? Ég held hún trúi því ekki, ég er alveg viss um það, að hún er þar á svipaðri skoðun og almenningur í landinu, að þar sé miklum fjárhæðum skotið fram hjá og það væri hægt að drýgja tekjur ríkisins mikið með því að taka þar á málum fastari höndum en gert hefur verið. Það er því hægt að bæta hag ríkissjóðs nú á þann hátt að nýta betur þá tekjustofna, sem fyrir hendi eru, og það er einnig hægt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á ýmsum sviðum, ef vilji er fyrir hendi. En sannleikur málsins er sá, að hæstv. ríkisstj. hefur litið þannig á málið nú eins og oft áður, að hún víkur frá sér öllum þessum vanda og fer hægu leiðina undan brattanum og segir: Við verðum bara að leggja ný gjöld á þjóðina, við verðum bara að finna út nýjar álögur. Það er leiðin. — Og þegar sérfræðingar ríkisstj. í efnahagsmálum höfðu lýst því yfir opinberlega, að það mundi ekki vera ráðlegt að hækka söluskattinn öllu meir en búið er að gera og það væri einnig erfitt um vik að hækka aðflutningsgjöldin eða þessa megintekjustofna, þá hverfur ríkisstj. að því ráði að reyna að finna út nýja skattstofna, finna út nýjar aðferðir til skattheimtu, og ein leiðin, sem þarna hefur verið fundin, er þessi, sem kemur fram í flutningi þessa frv., að ríkisstj. ákveður: Við skulum spara ríkissjóði þau útgjöld, sem nú hafa gengið til vegamálanna í landinu, 47 millj. kr. á ári, við skulum hætta að greiða þessa upphæð til vegagerðarmála, en til þess þó að minnka ekki framkvæmdirnar í vegamálum, skulum við bara leggja á sérstakan benzínskatt í staðinn. — Þetta vitanlega jafngildir því, sem hæstv. fjmrh. var að viðurkenna í sinni ræðu. að ríkissjóður hefði sjálfur tekið þennan tekjustofn. Hér er því um það að ræða að afla ríkissjóði nýrra tekna á þennan hátt.

Nú hafði verið mikið talað um það hér á Alþingi, að ástandið væri þannig í vegagerðarmálum okkar, að þar þyrfti á miklu meiri fjármunum að halda en við höfum haft þar til framkvæmda. Alls staðar var kallað á framkvæmdir, og uppi voru miklar kröfur um það, að raunverulega ætti umferðin í landinu að fá talsvert af þeim tekjum til vegagerðarmálanna, sem nú eru teknar af umferðinni í þágu ríkissjóðs. En það er nú ekki svo, að ríkisstj. hafi viljað fallast á að láta umferðina fá þessar tekjur, sem hún greiðir nú í ríkissjóð til þess að leysa þessi miklu og aðkallandi mál. heldur lítur ríkisstj. svo á, að ástandið í vegamálum okkar sé þannig, að það sé ástæða til þess að afla ríkissjóði, eins og nú standa sakir, sérstakra tekna á kostnað umferðarinnar í landinu. Ég verð að segja það, að ég lýsi undrun minni á þessari niðurstöðu hjá ríkisstj., ég lýsi undrun minni á því. Og ég skal aldrei trúa því, að hæstv. samgmrh. hafi í rauninni fallizt á þessa leið ógrátandi í ríkisstj. Miðað við það, sem hann þekkir til í þessum efnum, og miðað við það sem hann hefur sagt í umr. um þetta mál, trúi ég því varla, að hann hafi fallizt á það ógrátandi í ríkisstj., að ríkissjóður eigi nú að fara að afla sér tekna til þess að standa undir sínum almennu útgjöldum með því að skattleggja enn meira en orðið er umferðina í landinu. Ég veit, að hæstv. samgmrh. hefur auðvitað gert sér grein fyrir því, að þetta var alveg öfugt við það, sem þarfirnar kölluðu á, og auk þess vissi hann, að hér var verið að ákveða það, sem jafngilti því að ómerkja hans orð hér á Alþingi, því að hæstv. samgmrh. hafði gert samkomulag við minnihlutaflokkana á Alþingi í árslok 1963 um þessi mál og gefið, eins og fram hefur komið í þessum umr., hinar sterkustu yfirlýsingar um það, að til þess gæti aldrei komið, að ríkisframlagið, 47 millj. kr., yrði minnkað frá því, sem það var þá. Ég hafði þá verið með þær kröfur uppi hér, að það yrði ekki aðeins látið sitja við það, að ríkissjóður greiddi áfram árlega þessar 47 millj. króna til vegasjóðs og til vegaframkvæmdanna í landinu, heldur yrði vitanlega að tryggja það, að ríkissjóður hækkaði þessar 47 millj. kr. á hverju ári nokkuð eins og útgjöld hans til annarra málefna í landinu hækkuðu um, og af því flutti ég þá till., sem hér hefur verið gerð grein fyrir af öðrum, um það, að þetta yrði tryggt. Hæstv. samgmrh. treysti sér þá ekki til þess að láta samþ. slíka till., sem tryggði beinlínis hækkun árlega á þessu framlagi, en hann gaf hins vegar yfirlýsingar um, að til þess gæti aldrei komið, að þetta fasta framlag ríkissjóðs yrði minnkað. En nú er hann, ég vil segja: látinn tala hér fyrir frv. um að fella þetta tillag að öllu leyti niður og að í staðinn skuli lagður á sérstakur nýr benzínskattur. Ég hefði vel skilið það, að hæstv. samgmrh. hefði talað fyrir frv. svipuðu og þessu, ef það hefði verið tryggt, að þær fjárhæðir, sem kæmu inn í gegnum hækkaðan benzínskatt, ættu að fara til vegagerðarmálanna í landinu umfram þær fjárveitingar, sem fyrir voru, til aukningar á vegaframkvæmdum, en því er ekki að heilsa.

Það er ekkert um það að villast, að það samkomulag, sem hér var gert við stjórnarandstöðuflokkana, þegar vegalögin voru sett 1963, hefur alveg tvímælalaust verið rofið með þeim till., sem nú koma hér fram um þetta mál frá ríkisstj. Fram hjá því verður ekki gengið á neinn hátt, að jafnvel þó að sú leið hefði verið farin, sem hæstv. fjmrh. var hér að minnast á, að það hefði verið hægt að leggja þennan nýja benzínskatt þannig á, að hann hefði verið látinn renna í ríkissjóð og ríkissjóður hefði síðan staðið við sitt fyrra fyrirheit um að greiða 47 millj. á ári til vegasjóðsins, þá hefði samkomulagið einnig verið rofið, vegna þess að það kom hér mjög greinilega fram, þegar verið var að afgreiða vegalögin 1963, að til þess var ætlast, að vegagerðarmálin í landinu fengju þær tekjur, sem inn yrðu heimtar í sambandi við hækkun á benzínskatti. Það var beinlínis gert ráð fyrir því, að allur benzínskatturinn ætti að renna í vegasjóð, og einnig var gert ráð fyrir því, að hugsanlegar hækkanir rynnu þangað líka. Það gat því aldrei verið um það að ræða, að sá möguleiki væri fyrir hendi hjá ríkisstj. að hlaupa inn á þessa skattlagningarbraut til þess að bjarga ríkissjóði almennt, án þess þá að bregða út af þeim samkomulagsgrundvelli, sem lagður var með samþykkt vegalaganna 1963.

Ég hef minnzt hér aðeins á það, að þetta frv. er að mínum dómi raunverulega eitt af mörgum, sem ríkisstj. hefur verið að boða hér til sérstakrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Ætlunin er, að ríkissjóður hafi a.m.k. tekjur samkvæmt þessari leið, sem nemur 47 millj. kr., með því að fella niður framlag ríkissjóðs til vegamála. Og það er á sama hátt ætlunin, að ríkissjóður skjóti sér nú undan þeim vanda að borga hallann, sem allir hv. þm. hafa vitað um í mörg ár að mundi verða af rekstri ríkisrafveitnanna. Nú er það boðað, að ríkissjóður ætlar sér að hætta að borga þarna um 40 millj. kr. halla á rekstri ríkisrafveitnanna á hverju ári, og í staðinn á svo að leggja sérstakan rafmagnsskatt á alla landsmenn, því að ekki dettur mér í hug að trúa því, að ætlunin sé að láta þá landsmenn, sem nú búa við langhæst raforkuverð í landinu, þá, sem skipta við rafveitur ríkisins, standa eina undir allri þessari upphæð. Ég reikna alveg með því, að ætlunin sé að dreifa þessum nýja skatti á alla rafmagnsnotendur í landinu. En þá er líka gefið mál, að ríkisstj. verður að leggja á sérstakan raforkusöluskatt, því að hún þarf að ná þessum greiðslum frá sjálfstæðum fyrirtækjum eins og Laxárvirkjuninni og Skeiðsfossvirkjuninni og Landsvirkjuninni og öðrum þeim sjálfstæðum fyrirtækjum, sem ríkið á ekki eitt eða rekur. Á þennan hátt, að hækka allt rafmagnsverð í landinu, sem nemur 40 millj. kr., er ætlunin að drýgja tekjur ríkissjóðs frá því, sem verið hefur, á þennan hátt um þessar 40 millj.

Á sama hátt er það svo, að þegar íbúðalánakerfið í landinu þarf á nokkru meira fjármagni að halda en ríkissjóður treystir sér til að greiða skv. loforðum, sem gefin hafa verið, og lögum, sem þar gilda um, þá koma fram till. um að hækka með alveg sérstökum hætti eignarskatt í landinu, sem nemur þessari fjárhæð, og á þann hátt á að drýgja tekjur ríkissjóðs sem nemur 20 millj. kr. á ári.

Það sama er að gerast í sambandi við þann stuðning, sem hefur verið veittur árlega til útflutningsframleiðslunnar, til vissra greina sjávarútvegsins. Ríkissjóður hefur fengið nokkra sérstaka tekjustofna til að standa undir vissum greiðslum til fiskframleiðslunnar í landinu. En nú er hugsunin sú, að ríkissjóður hirði þessa tekjustofna fyrir sig, en hætti að greiða þær bætur til þessara greina sjávarútvegsins, sem ríkið átti að greiða.

Að vísu hefur verið á það minnzt, að ef það komi í ljós, að það þurfi að halda þessum greiðslum áfram til þessara greina sjávarútvegsins, þá muni verða að leggja á nýja skatta í því skyni. Á þennan hátt á raunverulega að breyta fjárhag ríkissjóðs með því að finna upp nýja tekjustofna, sem kenndir eru við hina einstöku framkvæmdaþætti í landinu, og mér sýnist, að þeir ætli á þessu þingi að verða býsna margir. Ég vil fyrir mitt leyti vara við þessari leið. Ég tel, að þarna sé ríkisstj. á alrangri leið. Ég held, að þó að ríkisstj. reyni að bjarga sér út úr þessum vanda, sem hún er alltaf að lenda meira og meira í vegna verðbólguþróunarinnar í landinu, eitt árið á þann hátt að losa ríkissjóð við að greiða ýmis útgjöld, sem ríkissjóður hefur staðið undir og var ætlað að standa undir, og annað árið með þeim hætti, að ákveðið er að skera niður allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda um 20%, stoði þetta ekkert. Ég er alveg sannfærður um, að hæstv. fjmrh., sem nú er nýr í því embætti, mun standa frammi fyrir þeim vanda að koma hér aftur á næsta þingi og skera aftur niður verklegar framkvæmdir um 20% og þar næsta árið á eftir enn um 20%, og hann verður að flytja nýtt og nýtt frv. um að ryðja að ríkissjóði ýmsum útgjöldum og leggja á nýjar álögur, ef hann ætlar yfirleitt að fara eftir þessari götu. Ég held því, að hann ætti að hugsa sig um strax í upphafi, hvort ekki væri hyggilegra að taka á þessum málum með öðrum hætti og reyna að finna hér samkomulagsleiðir um það, hvernig hömlur verði reistar gegn vaxandi verðbólgu í landinu. Ég skal alveg játa, að það er ekkert höfuðatriði í þeim málum, þó að við í stjórnarandstöðunni drögum ríkisstj. til ábyrgðar fyrir vaxandi dýrtíð, og þeir vitanlega kenna okkur um það, að dýrtíðin hafi vaxið. Aðalatriði málsins er það, að snúizt sé gegn vandanum og reynt sé að finna samkomulagsleiðir um það, hvernig á að komast fram hjá þessu vandamáli. En þessar leiðir, sem ríkisstj. hefur valið, eru í rauninni jafngildi þess, sem kallað hefur verið að pissa í skó sinn. Það vermir tiltölulega stuttan tíma og getur aldrei bjargað ríkisstj. í þessu vandamáli.

Ég mundi fyrir mitt leyti hafa fallizt á frv. eins og þetta um það að hækka benzínskattinn og þungaskattinn á bifreiðum, ef það hefði verið tryggt, að það fé, sem fengizt hefði inn með þessum hætti, hefði gengið til aukinna vegaframkvæmda í landinu. En þegar ætlunin er að fella niður tilskilið framlag ríkissjóðs til vegaframkvæmda þar á móti og þegar ég sé það, að hér er aðeins um lið að ræða í ákveðnum tiltektum ríkisstj. í fjárhagsþrautum ríkissjóðs, og það er staðið að þeim málum á þann hátt, sem ég tel alveg rangt, er ég á móti slíku frv. sem þessu, tel, að það eigi ekki rétt á sér.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en beini því aðeins til hæstv. ráðh., að þeir hlutist nú til um það, að ríkisstj. endurskoði afstöðu sína til þessara mála allra.