25.04.1966
Efri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

155. mál, hreppamörk milli Hafnarhrepps og Nesjahrepps

Frsm. (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á hreppamörkum milli Hafnarhrepps og Nesjahrepps í Austur-Skaftafellssýslu, sem hér er til umr., er komið frá Nd. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur haft frv. til athugunar og rætt það á fundum sínum, og leggur hún til, að frv. verði samþ. með einni breyt. við 2. gr. 1 frvgr. segir svo:

„Nú verður ekki innan þriggja mánaða frá gildistöku l. þessara samkomulag milli hreppsnefnda Hafnarhrepps og Nesjahrepps um bætur fyrir tekjumissi Nesjahrepps“, o.s.frv. N. leggur til, að fyrir orðið „tekjumissi“ komi „tekju- og aðstöðumissi.“

Þar sem nú eru Nesja- og Hafnarhreppar var eitt hreppsfélag þar til fyrir 20 árum, að hreppnum var skipt og Hafnarkauptún gert að sérstöku sveitarfélagi. Hafnarkauptún hefur risið á landi Hafnarness, og voru landamerki þeirrar jarðar látin ráða hreppamörkum við skiptinguna, svo sem fram kemur í grg. fyrir frv. Þegar hreppaskiptingin fór fram, munu íbúar Hafnarhrepps hafa verið kringum 300. Síðan hefur byggðin vaxið mjög með aukinni útgerð og bættri aðstöðu til atvinnurekstrar á ýmsum sviðum, og eru íbúar Hafnarkauptúns nú um 800 manns. Vaxandi bær þarfnast vitanlega aukins athafnasvæðis, og eru nú fyrirhugaðar miklar hafnarframkvæmdir á staðnum. En þannig hagar til, að land það, sem liggur að hafnarsvæðinu, er í tveimur hreppum. Er það eyja, svonefnt Ósland, í landi jarðarinnar Horns í Nesjahreppi, sem hér er um að ræða. Þrátt fyrir samningaumleitanir hefur samkomulag ekki tekizt milli hreppsnefnda Nesjahrepps og Hafnarhrepps um breyt. á hreppamörkunum, þannig að óslandið yrði framvegis í Hafnarhreppi. Hefði þó á allan hátt verið æskilegast, að svo hefði mátt verða. Ágreiningurinn virðist að mestu vera um bótaupphæð til Nesjahrepps. Frv. felur það í sér, að unnt verði enn þá að ná samkomulagi um bætur til handa Nesjahreppi vegna landmissis. En jafnframt er lagt til, að mat óvilhallra manna skeri úr um greiðslur vegna breyt. á hreppamörkunum.

Það eru nú víða uppi raddir um nauðsyn þess að breyta hreppaskipuninni í landinu og fækka hreppunum að mun. Það er því trúlegast, að núverandi hreppaskipun eigi eftir að taka miklum breytingum á næstu árum. Að mínum dómi hefði því verið eðlilegast, að þessir tveir umræddu hreppar hefðu sameinazt í eitt sveitarfélag, eins og þeir voru allt til ársins 1946, en sá möguleiki virðist ekki vera fyrir hendi, eins og sakir standa.

Breyting sú, sem heilbr.- og félmn. leggur til, að gerð verði á frv., stefnir að því að gera ákvæðin um bótagreiðsluna skýrari, þar sem orðin „tekju- og aðstöðumissi“ koma í stað orðsins „tekjumissi,“ eins og það var í frv. og ég gat um áðan. Hér er tvímælalaust um aðstöðumissi fyrir Nesjahrepp að ræða, þar eð Óslandið liggur að hinu fyrirhugaða nýja hafnarsvæði. Bæturnar fyrir aðstöðumissinn gætu orðið á ýmsa vegu. Þar gæti orðið um fébætur að ræða í eitt skipti fyrir öll. Líka mætti hugsa sér greiðslu, sem innt væri af hendi á nokkrum árum, eða þá aðstöðu, sem Nesjahreppur nyti um skemmri eða lengri tíma.

Ég vil taka það fram, að það, sem ég segi um þetta atriði málsins, eru mínar persónulegu hugleiðingar, en engar umr. fóru fram um þennan þátt þess í n. Mér er vel ljóst, að það er nauðsyn stækkandi kauptúni að fá aukið rými fyrir ný mannvirki. En þar sem hin miklu hafnarmannvirki eiga einmitt að koma meðfram Óslandinu, sem er í Nesjahreppi, er skylt að hafa einnig sjónarmið íbúa þess hrepps í huga. Það breytir engu þar um, þó að mér þyki trúlegast, að þessir tveir hreppar eigi eftir að sameinast á ný, áður en langir tímar líða.

Ég vil svo að lokum óska þess, að hv. þdm. sjái sér fært að samþykkja frv. í því formi, sem það er nú komið í frá heilbr.- og félmn.