06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

76. mál, vegalög

Frsm. 2. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Samkomulag náðist ekki í samgmn. um þetta mál. Stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. vilja samþykkja frv., en við hv. 5. þm. Norðurl. v. erum andvígir frv. Hins vegar teljum við þörf á að gera nokkrar breytingar á vegal. og höfum leyft okkur að flytja brtt. við þau á þskj. 138. Í 3. till. á því þskj. kemur fram afstaða okkar til þessa frv. Ég mun þess vegna víkja að þessum brtt. nú og gera grein fyrir afstöðu okkar að lokum til þessa máls.

Það er stjfrv., sem hér er til umr. 1. till., sem við flytjum, er við 15. gr. vegal., en í fyrri mgr. hennar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Í upphafi hvers reglulegs Alþ. skal ráðh. leggja fyrir þingið skýrslu um framkvæmd vegáætlunar.“ Nú eru tvö ár liðin síðan vegal. voru sett, og þess vegna hafa þessar skýrslur verið lagðar tvisvar fyrir Alþ., á þinginu í fyrra fyrir árið 1964 og fyrir nokkru hefur slík skýrsla verið lögð fyrir þetta þing fyrir árið 1965. Í þessum skýrslum er gerð mjög ýtarlega og skilmerkilega grein fyrir framkvæmdum í nýbyggingum vega, og veit ég ekki til, að neitt sé að þeirri skýrslu að finna hvað þetta snertir. Hins vegar er engin grein gerð fyrir því í vegaskýrslunni, hvernig viðhaldsfé hefur verið ráðstafað hvað snertir einstaka vegi. Nú er það öllum ljóst, að það skiptir ekki minna máli, hvernig viðhaldsfénu er ráðstafað, þar sem það er miklu hærri upphæð en nýbyggingarfé er, utan kaupstaða. Á yfirstandandi ári er t.d. nýbyggingarfé utan kaupstaða 60 millj. 350 þús. kr., en viðhaldsféð 93½ millj. kr. Þegar maður fer um landið, heyrir maður sífellt gagnrýni á viðhaldi veganna. Menn kvarta um, að þessum vegi sé ekki haldið við og hinum ekki heldur og það skorti ákaflega mikið á, að unnt sé að una við þetta ástand. En ég held, að það væri öllum fyrir beztu, að það væri árlega gerð grein fyrir því, hver viðhaldskostnaðurinn hefur orðið á hverjum vegi, svo að það sé öllum augljóst mál, hvernig viðhaldsfénu hefur verið varið. Þetta er ekki hin minnsta gagnrýni frá minni hálfu á vegamálastjórnina um ráðstöfun viðhaldsfjárins, heldur aðeins það, að það komi fram í hinni árlegu vegaskýrslu, hver viðhaldskostnaðurinn hefur orðið. Till. okkar er því á þá leið, að við fyrri mgr. 15. gr. bætist: „Skal þar m. a. greint frá viðhaldskostnaði á hinum einstöku hraðbrautum, landsbrautum og þjóðbrautaköflum samkv. nánari ákvörðun vegamálastjóra.“ Hraðbrautir eru fáar og yfirleitt stuttar, og er mjög einfalt mál að gera grein fyrir, hver hefur orðið viðhaldskostnaður hverrar hraðbrautar. Landsbrautir eru aftur á móti margar, en þær eru ekki langar, og ef aðeins er nefndur viðhaldskostnaður hverrar landsbrautar, teljum við það alveg nægjanlegt. En það gegnir nokkuð öðru máli um þjóðbrautir. Þær eru nokkuð margar, en þær eru auk þess margar hverjar mjög langar, ná jafnvel yfir tvö eða fleiri sýslufélög. Þess vegna höfum við orðað þetta svo, að þar skuli gerð grein fyrir viðhaldskostnaði á hverjum kafla þjóðbrautar, og þá eigum við við það t.d., að greint sé frá viðhaldskostnaði þjóðbrautar í hverju byggðarlagi eða eitthvað þess háttar, eftir nánari ákvörðun vegamálastjóra. Við teljum, að það væri til verulegra bóta, að þannig yrði vegaskýrslan enn fullkomnari og nákvæmari heldur en hún er núna, og þá yrði margs konar óánægju útrýmt, ef þetta væri gert, enda geri ég ekki ráð fyrir því, að neinn hafi á móti slíkri leiðréttingu sem þessari.

Þá er 2. brtt. okkar á þessu sama þskj. við 88. gr. vegal. Þessi lagagr. er um það, hvaða bifreiðar skuli undanþegnar þungaskatti til vegasjóðs: skólabifreiðar, bifreiðar erlendra sendisveita, slökkvibifreiðar, sjúkrabifreiðar, snjóbifreiðar o. s. frv. En niðurlag þessarar gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eigendur jeppabifreiða eiga rétt á endurgreiðslu skatts samkv. a- og b-liðum 87. gr. (þ. e. þungaskattsins), ef þeir sanna með vottorðum frá hlutaðeigandi skattstjóra eða umboðsmanni hans samkv. nánari ákvæðum í reglugerð, er fjmrh. setur, að bifreiðarnar hafi verið notaðar næstliðið ár að mestu eða öllu leyti við framleiðslu- og jarðyrkjustörf.“ Þessi ákvæði um endurgreiðslu á þungaskatti af bifreiðum eða mjög svipuð þessu hafa verið í gildi frá 1949, svo að þetta var ekkert nýmæli í vegal. frá 1963. Þetta á sérstaklega við landbúnaðarjeppa svokallaða. Það þykir ekki við hæfi að innheimta þungaskatta í vegasjóð af þessum bifreiðum, þar sem þær slíta vegunum sáralítið. Þær eru notaðar heima fyrir, og hafa þær lítil áhrif á skemmdir veganna. Hins vegar verða eigendur slíkra bifreiða að sjálfsögðu að greiða skatta í ríkissjóð, eins og menn greiða af öðrum bifreiðum, svo sem tolla, söluskatt, innflutningsgjöld og svo skoðunargjöld o. s. frv. En menn hafa yfirleitt verið sammála um það, að ekki sé við hæfi að innheimta af þeim sérstakan þungaskatt til vegasjóðs. En nú verður gerbreyting á þessu fyrirkomulagi um fjármál vegasjóðs og vegamálin í landinu með l. frá 1963. Þá er lagður nýr skattur á allar bifreiðar, þ.e.a.s. þyngdur benzínskatturinn, þyngdur þungaskattur og lagt á gúmmígjald, og allir þessir skattar eiga að ganga beint í vegasjóð. Nú er það svo, að þungaskattur á benzínjeppa, sem t.d. vegur 1100 kg, er 792 kr. á ári. En þungaskattur á dísiljeppa er samkv. þessu frv. 11050 kr. Báðir þessir jeppar, ef þeir eru notaðir í þágu landbúnaðar, fá þetta endurgreitt, þannig að það er ekki greiddur þungaskattur af benzínjeppunum og ekki heldur af dísiljeppunum. En benzínskatturinn, sem eigandi benzínjeppans verður að greiða, er ekki endurgreiddur og nú er sá skattur þyngdur mjög með þessu frv., sem hér liggur fyrir, svo að þarna kemur fram alveg óviðunandi misræmi milli þeirra bænda, sem eiga dísiljeppa, annars vegar og hinna, sem eiga benzínjeppana. Við skulum hugsa okkur tvo bændur hlið við hlið. Annar á dísiljeppa og greiðir þar af leiðandi ekki einn einasta eyri til vegasjóðs. Hinn bóndinn á benzínjeppa, og ef hann notar t.d. 3500 lítra af benzíni yfir árið, greiðir hann til vegasjóðs samkv. þessu frv. sem hér liggur fyrir, 12845 kr. í skatt, en hinn bóndinn borgar ekki neitt. Það er þetta misrétti, sem við viljum að verði nú lagfært, því að þetta er með öllu óviðunandi. Við höfum þó ekki farið lengra í okkar till. en það, að eiganda benzínjeppans skuli þó aldrei endurgreitt meira en sem svarar 3/4 hlutum af þeirri endurgreiðslu, er eigandi dísiljeppa fær, svo að þótt þessi till. okkar yrði samþ., greiðir þessi eigandi benzínjeppans sannarlega þó nokkurn skatt í vegasjóð þrátt fyrir þetta. Ég neita því ekki, að svo varlega fórum við í þessar sakir, að við töldum meiri líkur til, að hv. Alþ. féllist þá á till., ef hún væri svona hófleg. En við erum líka þeirrar skoðunar, að það megi gera dálítinn mun á þessu vegna þess, hve dísiljeppi er dýrari í innkaupi heldur en benzínjeppi og hvað varahlutir til hans eru dýrari. Ef benzínjeppi notar þetta benzínmagn, sem ég nefndi áðan, um 3500 lítra, mundi eigandi hans samt greiða í skatt til vegasjóðs á ári um 5400 kr., þegar eigandi dísiljeppans greiðir ekki neitt, svo að hér sýnist vera hóflega farið í sakirnar að leiðrétta þetta misræmi, sem á er orðið og verður enn meira, ef samþ. verður þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég vona því, að hv. Alþ. geti fallizt á að leiðrétta það misræmi, sem verið hefur á milli þessara tveggja tegunda bifreiða og eykst stórum við þetta frv.

Þá kem ég að 3. brtt. okkar, sem er við 89. gr. vegal., en þessi gr. fjallar einmitt um meginefni þessa stjórnarfrv., sem hér er til umr. 89. gr. vegal. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til greiðslu kostnaðar samkv. l. þessum skal auk þeirra gjalda, sem getið er um í 85.–87. gr., veita árlega sérstakt framlag á fjárl.“

En 85.–87. gr. l., sem þarna er vitnað til, eru um skatta, þungaskatt og gúmmígjald til vegasjóðs. Greinin sýnist vera sæmilega ljós. Þar segir, að auk þessara skatta skal ríkissjóður leggja til vegamálanna framlag á fjárl. Og ég vek athygli á því, að í þessu stjfrv., sem hér er til umr., er ekki gert ráð fyrir að hreyfa við þessari gr. Hún á að standa svona áfram. Á Alþ. 1963, þegar vegal. voru samþykkt, náðist samkomulag milli hæstv. ríkisstj. og þingflokkanna um það, að ríkissjóður legði fram árlega a.m.k. 47 millj. kr. á fjárlögum til vegamála í landinu. Það kom fram þá í þeim samningum, að þm. töldu þetta nokkuð langt gengið og hart að þurfa að leggja slíka skatta á benzín og bifreiðaeigendur, sem þá var gert, til þess að auka fjármagnið til vegamála. En þegar það reyndist árangurslaust að fá meira framlag úr ríkissjóði til veganna, vildu menn heldur hlíta því að hækka þessa skatta, eins og þá var gert, en að verða af þeirri fjármagnsaukningu, sem þá var gert ráð fyrir til vegamála. En hækkun benzínskattsins þá var kr. 1.30 á lítra, auk þess sem þungaskattar voru á lagðir. Þetta samkomulag, sem þá náðist um framlag ríkissjóðs, var síðan staðfest með vegáætlun, sem gildir til 1968. Þar eru bein fyrirmæli um það, að ríkissjóður skuli leggja fram þessa upphæð á ári til vegamálanna í landinu, og vitna ég í þessa lagagr., 89. gr. vegalaga. Og af því að ég tók þátt í þessum samningum þá um þessi lög, þá man ég mjög vel, að það var bókstaflega enginn ágreiningur um það milli ríkisstj. og þm., að þetta framlag skyldi koma úr ríkissjóði til vegamálanna. Hitt var aftur á móti nokkuð rætt um, hvort ekki væri þá þegar hægt að hafa þetta framlag hærra. Það getur því varla farið neitt á milli mála, að þetta samkomulag var gert, enda hefur hæstv. samgmrh. staðfest það í umr. hér á hæstv. Alþingi í desembermánuði 1963, eins og hér hefur verið vitnað til, í umr. um fjárlög og ég þarf ekkert að vera að endurtaka.

Nú hefur því verið svarað til á hæstv. Alþ. í umr, um þetta atriði, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki rofið þetta samkomulag, vegna þess að hún sjái fyrir fjármagni í staðinn með sköttum. En ég vil benda á, að það var alls ekki samið um það, að ríkissjóður skyldi annaðhvort leggja þessa upphæð fram sjálfur eða leggja á skatta fyrir því, heldur var bókstaflega samið um það, að þarna skyldu ekki koma til skattar umfram það, sem þá var gert, heldur þessi upphæð koma úr ríkissjóði. Og ég fullyrði það alveg, að ef því hefði verið hreyft þá að hafa skattana hærri og fella niður þetta framlag, annaðhvort þá eða þá tveimur árum seinna, eins og nú er komið á daginn, þá hefði alls ekki náðst samkomulag á þinginu í árslok 1963 um þessi lög.

En er það þá í samræmi við vegalögin að fella niður framlag á fjárlögum? Er það í samræmi við 89. gr. vegalaganna, að ríkissjóður hætti framlögum til vegamála? Ég get ekki litið svo á, að það sé í samræmi við þessa gr., þar sem í henni stendur, að skv. lögum þessum skal veita árlega sérstakt framlag á fjárlögum. Þetta er sannarlega skilmerkilega orðað. Nú er þetta framlag fellt niður á því fjárlagafrv., sem er komið til 3. umr. hér á Alþ. Það kann að verða einhver ágreiningur um það, og þó held ég, að hann geti varla komið til. Ég sé að vísu, að í frv. í 13. gr. stendur: A. Vegamál: 1. Styrkur til að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum 170 þús. 2. Til nýbýlavega 160 þús. Samtals 330 þús.

Lítur hæstv. ríkisstj. svo á, að með þessum tveimur smávægilegu liðum á fjárlagafrv. hafi hún fullnægt ákvæðum 89. gr. vegalaganna um framlag úr ríkissjóði til vegamála? Ég held, að alþm. líti þannig á, að það sé ekkert framlag til vegamála á fjárlagafrv. þrátt fyrir þessar smávægilegu upphæðir. Gisting handa ferðamönnum, það eru nú engir vegir, og nýbýlavegir eru heldur engir þjóðvegir. En hvað segir hæstv. ríkisstj. sjálf um þetta í athugasemdum með fjárlagafrv.? Hún segir á bls. 93 í athugasemdum með fjárlagafrv., með leyfi hæstv. forseta:

„Sú breyting verður á tillögum til fjárveitinga skv. þessari grein, að niður fellur framlag til vegamála skv. 89. gr. vegalaga, nr. 71 1963, að fjárhæð 47 millj. kr.“

Þarna segir hæstv. ríkisstj. sjálf, að hún felli framlagið með öllu niður, 47 millj. kr. Þar með er fallinn burt hver einasti eyrir. Ég held því, að hæstv. ríkisstj. sé sömu skoðunar og ég um þetta, að framlagið er fellt niður með þessari ráðstöfun. En ef á að líta þannig á þetta, hvað er þá um ákvæði 89. gr. vegalaganna, að ríkissjóður skuli leggja fram á fjárlögunum fé til vegamála? Það er ekki af neinni tilviljun, að þetta orðalag er á þessari lagagr., 89. gr. vegalaganna. Það var nefnilega um þetta samið, og því er þetta orðalag haft svona í vegalögunum. Og þetta staðfestir líka vegáætlunin, sem búið er að samþ. til 5 ára, fyrst vegáætlun fyrir 1 ár, 1964, síðan vegáætlun til 4 ára, fyrir árin 1965–1968. Þar stendur, að framlagið, 47 millj. kr. á ári, sé skv. 89. gr. vegalaganna.

Ég lít því svo á, að með því að fella niður þetta framlag ríkissjóðs hafi bæði verið rofið samkomulag, sem gert var á Alþ. fyrir tveimur árum, og líka gangi þetta í berhögg við ákvæði 89. gr. vegalaganna.

En hvernig stendur á því, að þessi upphæð er 47 millj. kr.? Ef litið er á vegalagafrv., sér maður mjög glögglega gerða grein fyrir því, hvernig á þessari upphæð stendur. Þar gerði ríkisstj. grein fyrir þessu mjög nákvæmlega, og hún er sú, að þegar breytt var um þetta fyrirkomulag við fjármál vegamálanna, þá tapaði ríkissjóður tekjustofnum, þ.e.a.s. sköttum, sem námu um 92 millj. kr. rúmlega. En hann slapp líka við útgjöld, sem námu rúmlega 139 millj. kr. Mismunurinn á þessum upphæðum eru þessar 47 millj.

Um þetta sagði hæstv. ríkisstj. í athugasemdum við vegalagafrumvarpið, þegar hún lagði það fram fyrir tveimur árum, með leyfi hæstv. forseta:

„Með frv. þessu, ef að lögum verður, missir ríkissjóður nokkra tekjustofna, en losnar á móti við útgjöld sem því nemur á 13. gr. A fjárlaga. Gert er ráð fyrir, að hagnaður ríkissjóðs af breytingunni, miðað við frv. til fjárlaga fyrir 1964, komi sem sérstakt framlag á 13. gr. A fjárlaga, skv. 89. gr. frv. þessa.“

Þarna gerir hæstv. ríkisstj. nákvæmlega grein fyrir því, að þessar 47 millj. kr. sparast ríkissjóði við breytinguna og þann sparnað skuli ríkissjóður leggja fram ár hvert.

Hvernig sem á þetta mál er litið, verður ekki hjá því komizt, að menn sannfærist um, að það sé lagaskylda og einnig samkvæmt samningum, að þetta framlag komi áfram beint úr ríkissjóði.

En nú skulum við hugsa okkur, að fjárlögin verði afgreidd, og má telja víst, að þau verði afgreidd þannig, að framlagið falli niður. Þá stendur vegáætlunin samt eftir. Fjárlagafrv. fyrir árið 1966 verður ekki með framlag til vegamála, en vegáætlun, sem gildir til 1968, verður áfram með 47 millj. kr. tekjur samkvæmt fjárlögum.

Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvort hefur nú meira gildi, vegáætlun, sem á að gilda til 1968, eða fjárlög, sem eiga að gilda fyrir næsta ár? Þessu ber ekki saman, ef fjárlögin verða þannig afgreidd eins og hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og lít enn svo á frá leikmannssjónarmiði, að vegáætlunin hafi lagagildi, hún sé partur af vegalögum, þar sem hún er sett skv. ákvæðum í þeim lögum. Að sjálfsögðu kunna lögfræðingar að líta öðruvísi á þetta, og ég skal ekkert fullyrða um, að ég hafi rétt fyrir mér í þessu. En ég held, að þm. hafi litið þannig á, að vegáætlunin hefði lagagildi, fyrst hún væri sett skv. beinum fyrirmælum í vegalögunum. En ef svo er, að vegáætlunin hafi lagagildi, þá tel ég hæpið, að það sé hægt að breyta henni með fjárlagaafgreiðslu, því að ekki breyta fjárlagaákvæði öðrum lögum. Ég vil því mælast til þess, að hæstv. samgmrh. eða einhver ráðh. vilji svara þessu, láti í ljós skoðun sína á þessu.

En við skulum hugsa okkur, að nú svari hæstv. ríkisstj. því, að vegáætlunin sé engin lög, hún hafi ekkert lagagildi, hún sé bara þál. En ef hún er venjuleg þál., hvaða gildi hefur hún þá? Reyndar mun ríkisstj. vera skylt að framkvæma þál. En hitt er ljóst, að sé hægt að breyta þannig vegáætlun með fjárlagafrv., eins og hæstv. ríkisstj. ætlar að gera núna, þá stendur það opið hér eftir, að Alþ. getur á hverju einasta þingi breytt vegáætluninni með ákvæðum í fjárlögum. Eftir það verða fjárlögin opin handa hvaða þm. sem er að gera brtt. við vegáætlunina, því að það er það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera núna. Þá hlýtur öllum að vera það heimilt.

Ég vil vekja athygli á þessu, að þarna er verið að opna vegáætlunina upp á gátt til breytingar á hverju einasta þingi. En þá vil ég spyrja: Hver var þá tilgangurinn með þessari 4 ára vegáætlun? Til hvers var hún þá gerð, ef menn geta nú breytt henni með till. í fjárlögum á hverju þingi? Ég held, að þá hefðu fjárveitingar mátt vera kyrrar á fjárlögunum, eins og þær voru, þegar þetta kemur svo á daginn, þegar málið er krufið til mergjar. En ég endurtek þá skoðun mína og vildi gjarnan fá gagnrýni á þá skoðun, að hér eftir verður vegáætlunin opin fyrir hvern þm. sem er til breytinga á hvaða þingi sem er, þar sem fengið er það fordæmi frá hæstv. ríkisstj., sem hér á að skapa með því að taka út af vegáætlun fjárveitingar með ákvæði í fjárlögum.