28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

95. mál, eignarnám lands í Flatey

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Nd. og samþ. þar. Samkv. 1. gr. frv. er hreppsnefnd Flateyjarhrepps á Breiðafirði heimilt að taka eignarnámi þá 4/5 hluta lands eyjarinnar, sem eru í einkaeign. Sem sagt, frv. gengur út á það, að hreppsnefndinni í Flateyjarhreppi verði heimilað að taka þessi lönd eða þennan hluta eyjarinnar eignarnámi.

Þetta frv. er flutt af öllum 5 þm. Vestfjarða og var samþ. í Nd. óbreytt.

Í grg. frv. segir, að þetta frv. sé flutt samkv. ósk hreppsnefndar Flateyjarhrepps og í samræmi við till. mþn., sem skipuð var 2. okt. 1959 til þess að athuga atvinnuástand í hreppnum og gera till. til endurreisnar atvinnulífi þar. Í n. þessari áttu sæti Gísli Jónsson alþm., sem var formaður hennar, Pálmi Einarsson landnámsstjóri og Knútur Kristinsson héraðslæknir. N. þessi lauk störfum 10. des. s.l., og komst hún m.a. að þeirri niðurstöðu, að það sé frumskilyrði fyrir áframhaldandi byggð í Flatey, að hreppurinn eignist allt land og öli landsréttindi í Flatey, þar með talin öll hlunnindi, er fylgja jarðeignum þar. Og að fengnum eignarumráðum verði síðan leitað til Landnáms ríkisins um að það veiti hreppnum aðstoð til að rækta allt ræktanlegt land Flateyjar og styðji uppbyggingu bújarða þar með þeim hætti, sem skynsamlegt verði talið, eins og þar segir.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, þetta er einfalt og liggur beint fyrir. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft málið til athugunar og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir. Ég skal taka það fram, að 2 nm., hv. 4. landsk., Jón Þorsteinsson, og hv. 4. þm. Vesturl., Jón Árnason, voru ekki á fundi, þegar málið var tekið fyrir í n., og hafa því að sjálfsögðu óbundnar hendur um afstöðu til þess, en þeir nm., sem hafa undirritað nál. á þskj. 614, leggja til, að frv. verði samþykkt.