01.04.1966
Efri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í 9. gr. I. nr. 33 frá 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, segir, að atvmrh. geti veitt leyfi til þess, að eigendur síldarolíu eða síldarverksmiðju megi nota erlend skip til þess að fiska fyrir verksmiðjur þessar til eigin nota. En í leyfinu, sem veita má til tveggja ára í senn, beri að taka fram, að það veiti ekki erlendum skipum leyfi til fiskveiða eða fiskverkunar í landhelgi.

Þetta lagaákvæði hefur verið skilið á þann veg að atvmrh. geti heimilað síldarverksmiðjum um tiltekinn tíma að taka á leigu erlend veiðiskip með erlendum áhöfnum í því skyni að veiða síld hér utan landhelginnar og leggja upp afla sinn hjá verksmiðjunum.

Mér er ekki kunnugt um, að hve miklu leyti þessi heimild hefur verið veitt og notuð á þeim 44 árum, sem lögin hafa verið í gildi, en ég hygg, að fremur lítið hafi að þessu kveðið, enda getur það verið mjög áhættusamt fyrirtæki fyrir síldarverksmiðju að taka á leigu og gera út erlent veiðiskip. Hitt er ljóst, að heimildarákvæðið er upphaflega sett í lög til þess að tryggja afkomu síldarverksmiðjanna, vegna þess að þær eigi þess ekki nægilegan kost að fá hráefni frá innlendum veiðiskipum.

Á undanförnum árum hefur, eins og kunnugt er, ríkt mikið aflaleysi fyrir Norðurlandi og hinar afkastamiklu síldarverksmiðjur þar ásamt frystihúsum og öðrum vinnslustöðvum hafa búið við mikinn hráefnaskort. Af þeim sökum hafa ýmsir forustumenn í atvinnumálum í þessum landshluta hugleitt möguleika á því að fá erlend veiðiskip til að landa afla sínum til vinnslu í sjávarplássum á Norðurlandi og í Strandasýslu, ef lagaheimild fengist. Hafa þeir einkum haft þar í huga norsk og færeysk skip. Talið er, að útvegsmenn hinna erlendu skipa mundu í ýmsum tilvikum heldur vilja landa afla skipanna í höfnum á þessu svæði og selja hann þar en að láta skipin sigla með aflann alla leið til heimahafnar.

Í þessu máli hafa Siglfirðingar riðið á vaðið með því að láta semja sérstakt frv. um breyt. á l. um rétt til fiskveiða í landhelgi ásamt grg., en frv. þeirra miðar að því að rýmka verulega undanþáguheimildina í 9. gr. laganna. Það er að frumkvæði Siglfirðinga, sem við flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 421, leggjum málið fram á Alþingi. En við flm. þess erum allir þm. fyrir þá landshluta, sem hér koma mest við sögu.

Í þessu frv. er þó gengið nokkru skemmra en Siglfirðingarnir óskuðu eftir, þar sem í frv. felst einungis bráðabirgðaheimild til árs til að kaupa afla af erlendum veiðiskipum, sem ráðh. skal binda við ákveðna staði og landshluta. Þetta er m.a. gert af þeim sökum, að jafnhliða þessu frv. flytjum við flm. þess ásamt hv. 2. þm. Vestf. till. til þál. í Sþ. um endurskoðun lagaákvæða um löndun erlendra fiskiskipa í íslenzkum höfnum með það fyrir augum að bæta úr atvinnuerfiðleikum einstakra byggðarlaga, sem skortir hráefni til vinnslu.

Sú spurning kann að rísa, hvers vegna þörf sé á að flytja þetta lagafrv. nú, þegar heildarendurskoðun á málinu standi væntanlega fyrir dyrum. Þar er tvennu til að svara. Úrbætur í atvinnumálum hinna hráefnasnauðu staða þola enga bið, en með samþykkt þessa frv. á yfirstandandi Alþ. kynni að skapast sú uppörvun, sem dygði, til þess að fólkið sæti kyrrt, en flyttist ekki brott til annarra landshluta, þar sem eftirspurn eftir vinnuafli er meiri. Á hinu leitinu er það einnig æskilegt, að á þeim tíma, sem endurskoðun lagaákvæðanna um löndun erlendra fiskiskipa í íslenzkum höfnum fer fram, hljótum við nokkra reynslu í því, í hve miklum mæli erlend veiðiskip sækjast eftir því að landa í íslenzkum höfnum og hver úrbót þetta kynni að verða í atvinnumálum einstakra byggðarlaga.

Í grg. með frv. þessu er tekin upp orðrétt grg. sú, sem fylgdi frv. þeirra Siglfirðinga. Þar koma fram margvísleg rök máli þessu til stuðnings, sem ég vil leyfa mér að vísa til. Einkum vil ég undirstrika tvennt, sem þar kemur fram: Annars vegar samþykkt fiskiþings, sem haldið var í febrúarmánuði s.l., en samþykkt þess hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskiþingið telur tímabært að losa að meira eða minna leyti um bann við kaupum á fersksíld og öðrum fiski af erlendum veiðiskipum, t.d. með gagnkvæmum samningum.“

Á hinu leitinu eru svo athyglisverðar hugmyndir um gagnkvæman löndunarrétt íslenzkra og norskra fiskiskipa, sem komið hafa fram og vitnað er sérstaklega til í grg.

Ég hygg, að samþykkt þessa frv. gæti orðið heppilegur undanfari viðræðna um gagnkvæman löndunarrétt. Má til dæmis á það benda, að það hefur komið fyrir, að íslenzk veiðiskip hafa fengið að landa síld í norskum höfnum.

Eins og fram hefur komið er það megintilgangur þessa frv. að reyna að rétta hlut hinna hráefnasnauðu sjávarplássa, og má einskis láta ófreistað í því efni.

Ég hygg, að af samþykkt þessa frv. mundi eigi leiða neina sérstaka ásókn erlendra veiðiskipa á Íslandsmiðum umfram það, sem nú á sér stað, en hins vegar mundi lögfesting frv. skapa nýjan grundvöll að aukinni hráefnisöflun vinnslu- og verkunarstöðva, sem mikil þörf er fyrir í tilteknum landshlutum. Breyttar aðstæður valda því, að menn líta nú nokkuð öðrum augum á þessi mál en 1922, þegar lög um rétt til fiskveiða í landhelgi voru sett. Veiðisvæðin eru ekki eins staðbundin og áður. Skipin fara mjög vítt yfir til fanga og landhelgin, sem í þann tíma var aðeins 3 sjómílur með ströndum fram, er nú 12 mílur og grunnlínur dregnar fyrir flóa og firði.

Svo sem í frv. greinir, er heimild sú, sem þar er veitt til að kaupa afla af erlendum veiðiskipum, mjög takmörkuð. Í fyrsta lagi er heimildin aðeins bundin við eitt ár, þ.e. tímabilið frá 1. júní 1966 til 31. maí 1967. Enn fremur skal ráðh. binda leyfið við ákveðna staði eða landshluta. Svo má einnig einskorða leyfið við ákveðnar fisktegundir, og setja má skilyrði um magn aflans og verðlag. Þá er ráðh. og heimilt að setja sem skilyrði að farið sé eftir sérstökum löndunarreglum, en með því er aðallega átt við, að landanir erlendra skipa trufli ekki eða tefji löndun hjá íslenzkum veiðiskipum. Síðast, en ekki sízt, ber að taka fram í leyfinu, að það veiti eigi erlendum skipum heimild til fiskveiða eða fiskverkunar innan landhelginnar.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.